09.12.1969
Sameinað þing: 21. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í B-deild Alþingistíðinda. (58)

1. mál, fjárlög 1970

Frsm. meiri hl. (Jón Árnason):

Herra forseti. Fjvn. hóf athugun sína á fjárlagafrv. þann 15. okt. s.l. og segja má, að n. hafi unnið sleitulaust að afgreiðslu málsins síðan. Alls hefur n. rætt fjárlagafrv. á 32 fundum sínum, en auk þess hafa einstakir nm. starfað í undirn. til athugunar á sérstökum málaflokkum frv. Hefur það einkum beinzt að þeim málaflokkum, sem fjalla um fjárveitingar til verklegra framkvæmda, svo sem nýbyggingu skóla og íþróttamannvirkja, hafnarframkvæmdir og lendingarbætur, nýbyggingar sjúkrahúsa, læknabústaða og heilsuverndarstöðva. Segja má, að stór hluti af því fé, sem árlega er veitt í fjárl. til verklegra framkvæmda í landinu, falli undir þessa þrjá málaflokka.

Þá hefur n. nú sem fyrr átt ágætt samstarf við forstöðumann fjárlaga– og hagsýslustofnunar fjmrn., dr. Gísla Blöndal, en hann hefur setið flesta fundi n. og veitt henni mikilsverðar upplýsingar og aðstoð. Þá er þess að geta, svo sem fram kom í framsöguræðu hæstv. fjmrh. fyrir fjárlagafrv., að á s.l. sumri var að hans ósk starfandi undirnefnd fjvn., sem í átti sæti einn maður frá hverjum þingflokki. Vann sú n. ásamt með fjárlaga– og hagsýslustofnuninni að ýmsum athugunum varðandi fjárlagagerðina með það fyrir augum að koma á betra skipulagi í ríkisrekstrinum og auknum sparnaði. Er ekki að efa, að þessi nýbreytni í vinnubrögðum við samningu fjárlagafrv. er til bóta og ætti að tryggja nánari samvinnu milli fjárlaga– og hagsýslustofnunar fjmrn. og fjvn., sem verður að teljast æskilegt. Undir athugun n. á fjárlagafrv. hefur hún átt þess kost að eiga viðræður við forstöðumenn hinna ýmsu ríkisstofnana, en með því hefur n. aflað sér ýmissa upplýsinga varðandi ríkisreksturinn í heild, sem gert hefur n. auðveldara en ella að meta þá nauðsyn, sem fyrir hendi er hverju sinni, þegar um það er að ræða að skipta takmörkuðu fjármagni milli einstakra verkefna þjóðfélagsins.

Svo sem jafnan áður, hefur n. borizt fjöldi erinda frá einstaklingum, samtökum og stofnunum, sem flest hafa falið í sér beiðnir um fjárhagslega aðstoð eða fyrirgreiðslu í einu eða öðru formi. Hafa nm. eftir föngum reynt að kynna sér þessi málefni og komið til móts við aðila eftir því, sem tök hafa verið á. N. er þó ljóst, að í sumum tilfellum hefur orðið að synja fjárbeiðnum til málefna, sem vissulega verðskulda að hljóta fjárhagslegan stuðning, en takmarkað fjármagn hins opinbera hefur ráðið úrslitum um afgreiðslu mála. Enn sem komið er hefur n. ekki unnizt tími til að ljúka að fullu afgreiðslu sinni á nokkrum liðum fjárlagafrv. Má þar nefna liðina nýbyggingu iðnskóla, fyrirhleðslur, eftirlaun og heiðursstyrki o.fl., auk einstakra erinda annarra, sem bíða afgreiðslu 3. umr.

Um heildarafgreiðslu fjárlagafrv. náðist ekki samkomulag innan n. og hefur minni hl. skilað séráliti. Varðandi brtt. á þskj. 154 varð hins vegar full samstaða innan n. og flytur hún því till. sameiginlega.

Ég vil nota þetta tækifæri til þess að þakka meðnm. mínum ágætt samstarf í n. við afgreiðslu málsins og vona, að enda þótt leiðir nm. hafi ekki að öllu leyti legið saman, þá hafi afgreiðsla málsins í heild í n. verið með þeim hætti, að allir hafi mátt við una.

Varðandi tekjubálk fjárlagafrv. er það að segja, að meiri hl. n. gerir engar brtt. við þessa umr. málsins. Það er alkunna, að nú standa fyrir dyrum viðræður um aðild Íslands að EFTA, Fríverzlunarbandalagi Evrópu. Samþykki Alþ. þáltill., till. þá, sem ríkisstj. hefur nú lagt fyrir Alþ. um aðild Íslands að EFTA, leiðir af því, að gera verður margvíslegar breytingar á tekjustofnum fjárlagafrv. Meiri hl. n. telur því rétt að fresta til 3. umr. að bera fram brtt. við tekjubálk frv. Hins vegar vill meiri hl. n. taka það skýrt fram, að hann telur með öllu óverjandi að afgreiða fjárlagafrv. með greiðsluhalla og mun því miða till. sínar við 3. umr. málsins við það, að svo verði eigi.

Þá verður í stuttu máli gerð grein fyrir brtt. fjvn. við gjaldabálk frv. Þar er fyrst lagt til að við liðinn 201, Alþingi, komi nýr liður, til útgáfu Alþingishátíðarkantötu dr. Páls Ísólfssonar, að upphæð 280 þús. kr. Er ætlað að verja þessari upphæð til að kosta vandaða útgáfu á þessu verki, en svo sem kunnugt er gaf dr. Páll Ísólfsson Alþ. umrætt handrit.

Næst koma brtt., sem falla undir fjárlagaliði við forsrn. og menntmrn. Kemur þar fyrst till. n. um fjárveitingu til Handritastofnunar Íslands, gjaldfærður stofnkostnaður hækki um 2.5 millj. kr. Þegar fyrsta fjárveiting til Handritastofnunar Íslands var veitt í fjárl. 1964, var gengið út frá því, að hluti ríkissjóðs við byggingu Árnagarðs vegna Handritastofnunar mundi nema um 10 millj. kr. En það er um 30% af áætluðum heildarkostnaði byggingarinnar. Fjárveitingar til Handritastofnunar nema nú samtals um 16 millj. 80 þús. kr. frá upphafi, þegar með er talin sú fjárveiting, sem hér er lögð til. Hér er þó ekki um endanlega fjárveitingu að ræða og gera má ráð fyrir, að jafnháa upphæð verði að taka í fjárlög fyrir árið 1971. Þá er lagt til, að tekinn verði inn nýr liður við Náttúrufræðistofnun Íslands, að upphæð 65 þús. kr., til kaupa á ljósmyndavinnuáhöldum Tryggva Samúelssonar. – Til Menntaskólans á Akureyri er lagt til, að liðurinn laun hækki um 460 þús. kr., en það er vegna vanáætlunar í fjárlagafrv. – Til Kennaraskóla Íslands hækkar launaliður um 1.923 þús. kr. og önnur rekstrargjöld um 307 þús. Stafar þessi hækkun af auknum nemendafjölda, miðað við það, sem gert var ráð fyrir við samningu fjárlagafrv. – Til Fræðslumyndasafns er till. um fjárveitingu að upphæð 250 þús. kr., sem er nýr liður. Það er ætlað til tilrauna með skólasjónvarp í eðlisfræði á vegum Fræðslumyndasafnsins í samvinnu við Skólarannsóknir. Hefur Fræðslumyndasafnið á s.l. sumri athugað möguleika á slíku skólasjónvarpi, þ.e. að senda fræðslumyndir beint til skóla og nemenda. Hefur mál þetta verið rætt við ýmis skólayfirvöld og fengið góðar undirtektir. Með þessari upphæð ætti að vera hægt að hefja umræddar tilraunir með skólasjónvarp í þessari umræddu námsgrein. – Þá er lagt til að hækka fjárveitingu til Vélskóla Íslands, en samkv. till. n. hækkar launaliður um 946 þús. kr. og önnur rekstrargjöld um 160 þús. Er þessi viðbótarkostnaður vegna óvenjumikillar aðsóknar að Vélskólanum nú á þessu hausti. – Þá er lagt til, að fjárveiting til Iðnskólans í Reykjavík hækki um 300 þús., en það er vegna kaupa á nýrri prentvél handa prentdeild Iðnskólans, sem flytur nú í betra húsnæði. Hér er um helming af kostnaðarverði prentvélarinnar að ræða, þar sem félagssamtök prentsmiðjueigenda munu leggja fram hinn helming andvirðisins. – Til héraðsskólans á Núpi hækkar fjárveiting um 250 þús. kr. Hækkar liðurinn annar kostnaður sem þessu nemur. Er hér um að ræða vanáætlun við gerð fjárlagafrv. – Fjvn. leggur til, að fjárveitingar til nýbygginga héraðsskólanna hækki um 600 þús. kr. og verður þá upphæðin samtals 16.7 millj. kr. Um skiptingu á upphæðinni samkv. till. n. vísast til þess, sem fram kemur á þskj. 154. – Til byggingarframkvæmda gagnfræðaskóla, barnaskóla og íbúða fyrir kennara og skólastjóra er lagt til, að fjárveiting hækki samtals um 61 millj. 105 þús. kr. og verður þá fjárveiting til þessara skólabygginga á næsta ári samtals að upphæð 206 millj. 806 þús. kr.

Einn af þeim fjárlagaliðum, sem hvað mest hafa hækkað á s.l. áratug, er framlag til nýbyggingar skóla og íþróttamannvirkja. Á árinu 1959 eru heildarfjárveitingar til þessara framkvæmda 23 millj. 177 þús. kr. En samkv. till. þeim, sem ég hef nú lýst, verða fjárveitingar til byggingar skóla og íþróttamannvirkja samtals að upphæð 297 millj. 830 þús. kr. Til þess að gera þennan samanburð raunhæfan, ber að sjálfsögðu að leggja til grundvallar verðgildi peninganna, miðað við hvort árið sem er. Í nóvember 1959 er byggingarvísitala samkv. upplýsingum Hagstofu Íslands l32 stig. En samkv, sömu upplýsingum er byggingarvísitalan nú 428 stig eða hækkun, sem nemur 312%. Til þess að fjárveiting nú væri að sama verðgildi veitt og veitt var á árinu 1959, þyrfti upphæðin að vera um 72 millj. 312 þús. kr. Hér er því um rúmlega 312% hækkun á fjármagni að ræða, þegar tekið er tillit til þeirrar hækkunar, sem átt hefur sér stað í byggingarkostnaðinum á þessu tímabili.

Þá er lagt til, að liðurinn 772, Lánasjóður íslenzkra námsmanna, hækki um 1.5 millj., en jafnframt er við 6. gr. frv. brtt. um heimild fyrir ríkisstj. til þess að ábyrgjast fyrir lánasjóðinn 6 millj. kr. og kem ég að þeirri till. síðar. – Lagt er til, að liðurinn náms– og fræðimenn hækki um 10 þús., en það er hækkun á styrk til Félags íslenzkra stúdenta í Kaupmannahöfn. – Þá er lagt til, að fjárveiting til Þjóðminjasafnsins hækki um 75 þús. kr. og gangi upphæðin sem byggingarstyrkur til verbúðar í gömlum stíl, sem ákveðið hefur verið að byggja í Bolungarvík. – Til almenningsbókasafna er lagt til, að liðurinn 02, til bæjar– og héraðsbókasafna, hækki um 150 þús. og er þá gert ráð fyrir að verja 100 þús. kr. af þeirri upphæð til geymsludeildar amtsbókasafnsins á Akureyri, en 50 þús. kr. gangi til endurbóta bókasafnsins á Ísafirði. – Þá er næst till. varðandi liðinn 882 listir, framlög og er lagt til að hækka þann lið um 1 millj. kr. Fjvn. mun taka þessa till. til nánari athugunar á milli umr. og vil ég því leyfa mér að taka þessa till. aftur við þessa umr. – Til tónlistarskóla er till. um hækkun að upphæð 78 þús. kr., en það er sú upphæð, sem talið er, að sé vanáætluð í frv. Verður þá heildarupphæð til tónlistarskólanna 7 millj. 828 þús. kr. og skiptist á milli 38 tónlistarskóla, en ríkissjóður greiðir, svo sem kunnugt er, 1/3 af reksturskostnaði skólanna. – Þá er lagt til, að liðurinn vísinda– og fræðimenn hækki um 50 þús. kr. og skal upphæðinni verja sem styrk til dr. Sigurðar Jónssonar til rannsókna á þörungagróðri við strendur Íslands. Svo sem kunnugt er, hefur dr. Sigurður Jónsson unnið við þessi rannsóknastörf á undanförnum árum og fengið til þess styrk frá fleiri aðilum. Alls hafa komið út 30 ritgerðir eftir dr. Sigurð Jónsson um þessi rannsóknastörf og sjávarlíffræðirannsóknir hans hér við strendur. – Þá er lagt til, að fjárveiting til Jöklarannsóknafélags Íslands hækki um 40 þús. kr., en það er vegna ársþings Alþjóða jöklarannsóknarfélagsins, sem haldið verður í samvinnu við Jöklarannsóknafélag Íslands hér á landi í júnímánuði n.k. og er gert ráð fyrir, að umrætt ársþing verði haldið í héraðsskólanum að Skógum undir Eyjafjöllum. – Þá er lagt til, að fjárveiting til Íþróttasambands Íslands hækki um 200 þús. kr. – Undir liðnum 899 ýmislegt eru nokkrar till. um auknar fjárveitingar. Kemur þar fyrst till. um hækkun til blindrastarfsemi að upphæð 250 þús. Gert er ráð fyrir, að 100 þús. kr. af þessari upphæð sé varið til styrktar við nám erlendis í blindrakennslu og 150 þús. kr. er ætlað til útgáfustarfsemi fyrir blinda. – Til Skáksambands Íslands er till. um 50 þús. kr. hækkun og til alþjóðaskákmóta er hækkun um 25 þús. kr. – Til Þjóðdansafélags Reykjavíkur hækkar fjárveiting um 7 þús. – Til Leikfélags Reykjavíkur er till. um hækkun fjárveitingar að upphæð 250 þús. kr. og til Bandalags ísl. leikfélaga um 50 þús. - Þá er lagt til, að Stjórnunarfélag Íslands hljóti fjárveitingu að upphæð 100 þús. kr. til námskeiðahalds, en það er sama upphæð og félagið hafði á fjárlögum yfirstandandi árs. – Til Svifflugfélags Íslands er till. um 100 þús. kr. fjárveitingu og er það einnig sama fjárupphæð og félagið hlaut í fjárl. yfirstandandi árs. – Þá eru till. um fjárveitingar til minnismerkja um Jón Eiríksson konferenzráð, Guðmund góða og Ara fróða að upphæð 25 þús. kr. til hvers minnismerkis. – Til Blaðamannafélags Íslands er till. um 100 þús. kr. fjárveitingu til námskeiðahalds. Til Hlíðardalsskóla rekstrarstyrkur að upphæð 200 þús. kr. – Til kirkjutónlistarmóts, sem halda á í Reykjavík á næsta ári, er lagt til, að fjárveiting hækki um 75 þús. kr. og verður sá liður samtals að upphæð 125 þús. kr. Kristján Jósepsson frá Vopnafirði hefur unnið merkt starf með því að koma upp vísi að íslenzku dýrasafni. Hefur þetta safn nú að undanförnu verið til sýnis hér í Miðbæjarskólanum. Leggur fjvn. til, að Kristjáni Jósepssyni verði veittur styrkur á fjárl. að upphæð 50 þús. kr. Þá hefur Skátafélagið í Hafnarfirði haft forgöngu um það á undanförnum árum að koma þar upp vísi að sjódýrasafni og leggur fjvn. einnig til, að sædýrasafnið í Hafnarfirði hljóti 50 þús. kr. styrk í fjárlögum.

Koma þá næst brtt. n. við fjárlagaliði, sem falla undir utanrrn. Er þar fyrst till. um fjárveitingu til sendiráðsins í Osló, að hún verði hækkuð um 19 þús. kr. vegna hækkunar forvaxta í Noregi. Þá er lagt til, að fjárveiting til sendiráðsins í London, launaliður, hækki um 115 þús. kr. Til sendiráðsins í Bonn er hins vegar lagt til, að fjárveiting hækki um 436 þús. kr., en það er vegna gengishækkunar þýzka marksins á s.l. hausti.

Þá koma brtt. n. við fjárlagaliði, sem falla undir atvmrn. Er þar fyrst till. um hækkun fjárveitingar til Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, tilraunastöðin að Skriðuklaustri. Fjárveiting hækkar um 150 þús. kr. vegna viðhalds á íbúðarhúsinu. Þá er lagt til, að fjárveiting vegna verðlagsnefndar landbúnaðarafurða hækki um 196 þús. kr. Það er vegna aukins kostnaðar við svokallaða Sexmannanefnd. Verður þá heildarfjárveiting til verðlagsnefndar landbúnaðarafurða 700 þús. kr. – Til Kvenfélagasambands Íslands hækkar fjárveiting um 100 þús. kr. og til Sambands norðlenzkra kvenna, sem er nýr liður, er till. um 50 þús. kr. – Fulltrúaráð Sjómannadagsins í Reykjavík og Hafnarfirði stóðu sem kunnugt er fyrir sjávarútvegssýningunni Íslendingar og hafið. Nokkur greiðsluhalli varð vegna sýningarinnar, en með hliðsjón af því, að nokkrar opinberar stofnanir, sem þátt tóku í þessari sýningu, hafa enn ekki greitt sín þátttökugjöld telur fjvn. rétt að verða við óskum fulltrúaráðsins um fjárbeiðni og leggur því til, að tekin verði upp fjárveiting að upphæð 250 þús. kr. vegna Sjávarútvegssýningarinnar Íslendingar og hafið. – Þá koma næst till. um hækkaðar fjárveitingar til Bændaskólans á Hvanneyri. Lagt er til, að liðurinn viðhald hækki um 150 þús., en það er vegna viðhalds á einum kennarabústað, og liðurinn önnur rekstrargjöld er lagt til, að hækki um 100 þús. kr. vegna aukins kostnaðar við upphitun skólahúsnæðis. – Til Bændaskólans á Hólum er till. um fjárveitingu að upphæð 900 þús. kr., til byggingar íþróttahúss. Svo sem kunnugt er brann íþróttahúsið að Hólum á s.l. ári og er nú unnið að byggingu nýs íþróttahúss þar á staðnum. Þessi upphæð, sem hér um ræðir, er talið, að vanti til viðbótar vátryggingarfé hússins til þess að standa undir byggingarkostnaði nýja hússins. – Til byggingar húsmæðraskóla utan kaupstaða er lagt til, að fjárveitingar hækki samtals um 440 þús. kr., en um skiptingu á

upphæðinni vísast til þess, sem fram kemur í brtt. fjvn. á þskj. 154. – Til Verzlunarskóla Íslands var farið fram á verulega hækkun á fjárveitingu. Var það gert m.a. vegna fjölgunar í skólanum. Nú munu stunda nám í Verzlunarskóla Íslands um 660 nemendur, en það er 51 nemanda fleira, en var á s.l. skólaári. En auk þess hefur rekstrarkostnaður skólans aukizt verulega. Fjvn. hafði gert till. um það, að fjárveiting til skólans mundi hækka um 1.200 þús. kr., en hún mun taka þessa till. sína til nánari athugunar á milli umr. og vil ég því leyfa mér að taka þessa till. aftur nú við þessa umr. Ef þessar 1.200 þús. kr. hefðu komið til viðbótar því, sem er í fjárlagafrv., hefði heildarframlag til skólans numið 5 millj. 390 þús. eða sem næst 8.000 kr. á hvern nemanda í skólanum. – Þá er lagt til, að fjárveiting til Samvinnuskólans að Bifröst hækki um 350 þús. kr. og verður þá heildarfjárveiting til Samvinnuskólans 1 millj. 710 þús. kr. Og með tilliti til þess nemendafjölda, sem er við nám í Samvinnuskólanum, verður þessi heildarfjárveiting til skólans þannig, að hún nemur um 22 þús. kr. á hvern nemanda. – Við liðinn 999 ýmislegt eru tvær brtt. Til tækninýjunga er lagt til, að fjárveiting hækki um 150 þús. kr. og framlag vegna skólabáts er lagt til, að hækki um 500 þús. kt. og verður þá samtals 600 þús. Gerð hefur verið kostnaðaráætlun um reksturskostnað skólaskips, sem áætlað er, að verði rekið að sumarlagi um þriggja mánaða skeið. Heildarkostnaður við útgerðina er gert ráð fyrir, að verði um 2 millj. 600 þús. kr. Loforð hefur fengizt frá borgarsjóði Reykjavíkur og Fiskimálasjóði um framlag, sem ætti að nægja til viðbótar þessari fjárveitingu, til þess að rekstur skólabátsins yrði þar með tryggður.

Þá koma næst brtt. n. við fjárlagaliði, sem falla undir dóms– og kirkjumálarn. Er þar fyrst till. um fjárveitingu til aðalskrifstofunnar, að hún hækki um 675 þús. kr. Er það vegna væntanlegra sveitarstjórnarkosninga, sem fram eiga að fara á komandi sumri. Upphæðin skiptist þannig, að laun hækka um 525 þús. og annar kostnaður um 150 þús. kr.

Þá koma næst brtt. n. við fjárveitingar til ríkisspítalanna, en vegna daggjaldahækkana, sem þar hafa átt sér stað, verða verulegar breytingar á rekstrarliðum ríkisspítalanna í heild. Af hækkun daggjaldanna leiðir, að útgjöld ríkissjóðs til sjúkratrygginga hækka um 72 millj. kr., en á móti kemur að halli á rekstri sjúkrahúsa ríkisins lækkar um ca. 50 millj. kr. og verður því um nettó útgjaldaaukningu á fjárl. að ræða, sem nemur 22 millj. kr. Fjvn. átti ítarlegar viðræður við forstöðumenn ríkisspítalanna og hinna einstöku deilda þeirra. Var það álit n. að athuguðu máli, að ekki yrði hjá því komizt að auka starfslið sjúkrahúsanna og hinna einstöku deilda þeirra. Með hliðsjón af því leggur n. til, að launaliður ríkisspítalanna hækki samtals um tæplega 5 millj. kr. og er þá gert ráð fyrir, að verði unnt að ráða nýtt starfsfólk til þessara stofnana, sem nemur samtals um 52 nýjum starfsmönnum.

Koma þá næst brtt. fjvn. við liðinn 381 til sjúkrahúsa, sjúkraskýla, læknamiðstöðva og læknisbústaða annarra en ríkissjúkrahúsa. Lagt er til, að fjárveitingar hækki um 13 millj. og 6 þús. kr., og verður þá heildarupphæðin til nýbygginga undir þessum lið um 62 millj. 425 þús. kr. Um skiptingu á fjárveitingunni milli hinna ýmsu framkvæmda vísast að öðru leyti til þess, sem fram kemur í till. n. á þskj. 154. Til ríkisspítala eru hins vegar fjárveitingar til nýbygginga samkvæmt fjárlagafrv. 51 millj. 875 þús. kr. og samtals verður þá upphæðin 114 millj. og 300 þús. kr. Fyrir 10 árum voru fjárveitingar undir þessum málaflokki samtals 9 millj. 690 þús. kr. og ef lögð er til grundvallar sú hækkun byggingarkostnaðar, sem átt hefur sér stað, þyrfti fjárveiting nú að vera að upphæð um 30 millj. 233 þús. kr. til þess að vera til jafns við það, sem veitt var í fjárl. 1959. Hér er því raunverulega um 269% hærri fjárveitingu að ræða, þegar lagt er til grundvallar raunverulegt verðgildi peninganna eða aukinn byggingarkostnaður.

Við liðinn 399 ýmis heilbrigðismál eru nokkrar brtt. Lagt er til, að veittar verði 150 þús. kr. vegna kostnaðar við þing hjúkrunarkvenna á Norðurlöndum, sem haldið verður hér í Reykjavík í júlí n.k. Umrædd samtök hjúkrunarkvenna eiga hálfrar aldar afmæli og verður þess minnzt sérstaklega í sambandi við þingið. Gert er ráð fyrir, að allt að 800 erlendar hjúkrunarkonur verði þátttakendur í móti þessu. – Þá er einnig nýr liður 320 þús. kr. til Náttúrulækningafélags Íslands, það er byggingarstyrkur fyrir heilsuhælið í Hveragerði, en það er sama upphæð og er í fjárl. yfirstandandi árs.

Koma þá næst brtt. n. við liðinn 401 þjóðkirkjan. Lagt er til, að liðurinn 03 kirkjuþing hækki um 100 þús. kr., liðurinn 06 til útgáfustarfsemi um 18 þús. kr., liðurinn 10 sumarbúðir þjóðkirkjunnar hækki um 190 þús. og er þá gert ráð fyrir, að þeirri upphæð verði varið til styrktar sumarbúðum þjóðkirkjunnar, sem í ráði er, að komið verði upp við Eiðavatn í Eiðaþinghá, en á undanförnum árum hefur þjóðkirkjan á Austurlandi rekið sumarbúðir í barnaskólahúsinu á Eiðum. - Næst kemur till. n. um fjárveitingu að upphæð 250 þús. kr. til byggingar minningarkapellu um séra Jón Steingrímsson, en hana er verið að byggja að Kirkjubæjarklaustri. Fyrir þremur árum, eða á 175 ára ártíð séra Jóns Steingrímssonar, bundust Skaftfellingar samtökum um að minnast hans á veglegan hátt. Má sérstaklega geta þess, að bændur um 100 talsins í V.-Skaftafellssýslu lofuðu að gefa eitt haustlamb hver næstu 6 árin í byggingarsjóð minningarkapellunnar. Telur fjvn. sjálfsagt að veita þessu málefni nokkurn stuðning og gerir ráð fyrir, að alls verði veitt í þessu skyni um 500 þús. kr. og sé þessi upphæð, sem hér um ræðir, 250 þús. kr., fyrri greiðsla. – Þá leggur n. til, að fjárveiting til Hallgrímskirkju í Reykjavík verði hækkuð um 280 þús. kr. og verður þá heildarfjárveiting samtals 1 millj. kr.

Lagt er til, að liðurinn 971 gæzluvistarsjóður, 04 Vernd, hækki um 50 þús. kr. – Liðurinn 981 bindindisstarfsemi hækki um 50 þús. kr., en það er vegna halla á bindindisþingi, sem haldið var á s.l. ári.

Þessu næst koma brtt. n. við fjárlagaliði, sem falla undir félmrn. Þar kemur fyrst brtt. n. um Tryggingastofnun ríkisins. Eins og ég hef áður skýrt frá, hækka framlög til sjúkratrygginga um 72 millj. kr., en það er í beinu sambandi við hækkun daggjalda á sjúkrahúsum og verður þá liðurinn framlög til sjúkratrygginga samtals að upphæð 868.7 millj. kr.

Þá er lagt til, að inn komi nýr liður, vatnsveitur aðrar, að upphæð kr. 320 þús. Er hér um að ræða fjárveitingar til þeirra aðila, sem hafa ekki aðstöðu til að fá vatn til býla sinna frá samveitum og þurfa að leggja í kostnaðarsamar framkvæmdir við vatnsöflun. Er þetta svipuð upphæð og varið hefur verið í þessu skyni á undanförnum árum. – Þá er lagt til, að fjárveiting til Bjargráðasjóðs hækki um 5 millj. kr., en það er með hliðsjón af frv. til l. um breyt. á l. um Bjargráðasjóð, sem nú liggur fyrir Alþ. og gert er ráð fyrir, að nái fram að ganga.

Liðurinn 999 ýmis framlög. Við hann eru nokkrar brtt. Er þar fyrst lagt til, að liðurinn 02 elliheimili hækki um 400 þús. kr. Er hér um fjárveitingar að ræða til styrktar á rekstri 13 elliheimila, sem starfrækt eru í landinu. Hefur þessi fjárlagaliður lengi staðið óbreyttur og verið sem svarar 60 þús. kr. á hvert elliheimili. Er hér um nokkra úrbót að ræða varðandi rekstur elliheimila, verði till. þessi samþ. – Þá er lagt til, að fjárveiting til Sumargjafar verði hækkuð um 200 þús. kr., en það er vegna reksturs fóstruskóla félagsins. – Til Rauða kross Íslands er lagt til, að fjárveiting hækki um 105 þús. kr. og til Sjálfsbjargar, landssambands fatlaðra og lamaðra er till. um byggingarstyrk að upphæð 1 millj. og 500 þús. – Til Geðverndarfélags Íslands er einnig till. um byggingarstyrk að upphæð 2 millj. kr. Er hér um að ræða till. um fjárveitingar til umræddra félaga til jafns við það, sem veitt er í fjárl. yfirstandandi árs. – Til Bandalags íslenzkra skáta er lagt til, að fjárveiting hækki um 50 þús. kr. – Til Ungmennafélags Íslands hækkar fjárveiting um 200 þús. – Til Æskulýðssambands Íslands um 50 þús. – Til æskulýðsnefndar Austur-Húnavatnssýslu 25 þús. kr. – Til sjúkraflugs er lagt til, að fjárveiting hækki um 250 þús. kr. og verður þá liðurinn samtals 750 þús. – Þá er lagt til, að fjárveiting til byggingar dagheimila fyrir börn verði 600 þús. kr., en um skiptingu á upphæðinni er vísað til sérstaks lista, sem fram kemur á þskj. 154.

Við 4. gr. 106 fjmrn. er ein brtt., við 999 ýmislegt. Lagt er til, að liðurinn viðfangsefni 10 vísitölu uppbætur á laun að upphæð 45 millj. kr. verði felldur niður, en upphæðinni 45 millj. 701 þús. kr. hefur þegar verið jafnað niður á ýmsa launaliði í frv.

Við fjárlagaliði, sem falla undir samg.– og iðnmrn., hefur n. gert nokkrar brtt. Koma þar fyrst till. um hækkun á fjárveitingu til hafnamála. Lagt er til, að framlag til hafnarmannvirkja og lendingarbóta hækki um 8 millj. 850 þús. kr., og verði þá 78 millj. og 50 þús. Um sundurliðun á þeirri upphæð vísast til sérstaks lista á þskj. 154. Þá er lagt til, að liðurinn hafnarframkvæmdir, eftirstöðvar framlaga, hækki um 12.4 millj. og verði þá samtals að upphæð 25.2 millj., til ferjubryggna er lagt til, að fjárveiting hækki um 750 þús. og til sjóvarnargarða um 585 þús. kr. Verði þessar till. fjvn. samþ., hækkar framlag til hafnarmannvirkja og lendingarbóta samtals um 22 millj. 585 þús. kr. og verður þá heildarfjárveiting til hafnamála og lendingarbóta 169 millj. 435 þús. kr.

Eitt af því, sem undirn. fjvn. kynnti sér sérstaklega á s.l. sumri, þegar hún vann að undirbúningi fjárlagafrv., var staða hafnanna gagnvart ríkissjóði og þá reyndi n. einnig að gera sér grein fyrir fjárhagslegri getu viðkomandi sveitarfélaga, hvað snertir viðbótarframlag til hafnanna. Það var einróma álit nm. og fjvn. í heild, að ekki yrði komizt hjá því að breyta núverandi vanskilum hafnanna við ríkisábyrgðasjóð í föst lán til langs tíma. Og til viðbótar að gera sérstakar ráðstafanir um fjárhagslega aðstoð fyrir vissar hafnir, þannig að hjálpa þeim yfir tímabundna erfiðleika. Með það fyrir augum mun framlag það, sem er í fjárlfrv. til Hafnarbótasjóðs, hafa m.a. verið hækkað upp í 17 millj. kr. Og fjárveiting til greiðslu á eftirstöðvum á framlagi ríkissjóðs, svokallað halafé, er nú till. um, að hækki til viðbótar um 12.4 millj. kr., og verður þá þessi liður samtals að upphæð 22.5 millj. Þá hefur orðið að samkomulagi, svo sem fram kom í framsöguræðu hæstv. fjmrh., að ríkissjóður tæki á sig rúmlega helming af því fé, sem hefur fallið á hafnirnar vegna gengislækkana á árunum 1967 og 1968. Hluti ríkisins í gengistapinu verður 57.5% af upphæðinni og er gert ráð fyrir, að sú upphæð verði greidd til hafnanna á sama tíma og lánin endurgreiðast, en hér er um mismunandi langan tíma að ræða eða allt upp í 12 ár í sumum tilfellum. Ógreitt framlag ríkisins vegna fyrri hafnarmannvirkja, þegar nýju hafnal. tóku gildi, mun hafa numið um 118 millj. kr. Nú er gert ráð fyrir, að þessar eftirstöðvar verði greiddar að fullu á næstu fjórum árum. En varðandi nýjar framkvæmdir, sem á áætlun eru fyrir næsta ár, er hins vegar gert ráð fyrir því, að ríkissjóður greiði að fullu sitt framlag, eins og nýju hafnal. gera ráð fyrir.

Það er eins með hafnargerðir, vegi og skólabyggingar í okkar landi, verkefnin virðast ótæmandi og þrátt fyrir stóraukin framlög vantar enn mikið á, að allir fái óskir sínar uppfylltar. Til þess að gera sér nokkra grein fyrir þeirri þróun, sem átt hefur sér stað við fjárframlög hins opinbera s.l. áratug til hafnarmannvirkja og lendingarbóta, má á sama hátt og ég hef áður gert varðandi skólabyggingar og byggingar sjúkrahúsa leggja til grundvallar fjárframlög og byggingarkostnað samkvæmt byggingarvísitölunni. Kemur þá í ljós, að hér er einnig um stórauknar fjárveitingar að ræða, því að fyrir l0 árum var fjárveiting til hafnarmannvirkja og lendingarbóta um 14 millj. 205 þús. kr., en það svarar til þess, að fjárveiting í ár væri 44 millj. 320 þús. kr. til þessara framkvæmda. En samkvæmt till. fjvn. verður fjárveitingin hins vegar samtals 167 millj. og 300 þús. kr. eða raunveruleg hækkun miðað við verðgildi, sem nemur 277%. Þessar heildarfjárveitingar, sem nú eru á fjárl. til þessara málaflokka, sem ég hef sérstaklega gert að umtalsefni, nema því fram yfir það, að peningarnir séu umreiknaðir í núverandi verðgildi, til skólanna um 312%, til sjúkrahúsanna 269% og til hafnarmannvirkja og lendingarbóta um 277%.

Þá er lagt til, að liðurinn 351 ferðamál hækki um 100 þús. kr. Er upphæðinni ætlað að mæta kostnaði ferðamálaráðs vegna ferðamálasérfræðings á vegum Sameinuðu þjóðanna, sem hingað er væntanlegur á komandi sumri. – Við liðinn Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins er lagt til að hækka fjárveitingu um 529 þús. kr., en auk þess hækka tekjur stofnunarinnar um 640 þús. kr. eða samtals um 1.169 þús. kr. Útskýrist upphæðin þannig, að til launahækkana er lagt til að verja 919 þús. kr. og annar kostnaður, útgáfustarfsemi hækkar um 250 þús. kr. Þá er till. um, að tekinn verði upp nýr liður undir 499 iðja og iðnaður, framlög: Til útflutningsskrifstofu Félags ísl. iðnrekenda 3 millj. kr. Gera má ráð fyrir stóraukinni starfsemi í þessum efnum, ef Ísland gerist aðili að Fríverzlunarbandalaginu, EFTA og er því talið rétt að verða við þessari beiðni Félags ísl. iðnrekenda. – Þá er till. um fjárveitingu til Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum, að hún hækki um 150 þús. kr.

Þá er brtt. við liðinn 108, viðskrn. Lagt er til, að liðurinn 03 vörusýningar erlendis hækki um 1 millj. kr. og verður hann þá samtals 1.5 millj. Telja verður, að hér sé um lágmarksupphæð að ræða, svo mikið sem það er undir slíkri starfsemi komið, að okkur takist að finna nýja markaði fyrir útflutningsframleiðsluna, því að segja má, að útflutningsframleiðendur séu oftast ekki aflögu færir með fjármagn í þessum efnum.

Loks koma svo brtt. n. við 6. gr. frv., en þar er lagt til að heimila ríkisstj. eftirfarandi: Að endurgreiða aðflutningsgjöld og söluskatt af dælustöð ásamt tilheyrandi tækjum, sem Vestmannaeyjakaupstaður hefur flutt inn til landsins til að auka flutningsgetu neðansjávar vatnsleiðslu milli lands og Eyja. Að endurgreiða aðflutningsgjöld og söluskatt af þremur dísilrafstöðvum, sem rafveiturnar á Húsavík, Siglufirði og Sauðárkróki hafa fest kaup á hjá Fosskraft h.f. Að endurgreiða KFUM og K aðflutningsgjöld af vinnuskálum, sem félögin hyggjast kaupa af Fosskraft og nota fyrir sumarbúðir. Að endurgreiða aðflutningsgjöld og söluskatt af notaðri sjúkrabifreið, sem brezka sendiráðið fyrir hönd Southampton háskóla hefur gefið Slysavarnafélagi Íslands. Að endurgreiða Ingimar Ingimarssyni sérleyfishafa aðflutningsgjöld af almenningsbifreið til fólksflutninga. Að endurgreiða væntanlegan tekjuskatt af Henrik Steffens verðlaunum, sem próf. Magnús Már Lárusson hefur hlotið. Að ábyrgjast lán að upphæð 1 millj. kr. fyrir Náttúrulækningafélag Íslands vegna byggingarframkvæmda í Hveragerði. Að ábyrgjast allt að 14 millj. kr. lán fyrir Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, vegna byggingar orlofsheimilis að Munaðarnesi. Að verja 1.200 þús. kr. af tekjum af malarnámi í landi Vífilsstaða til byggingar húsnæðis á Vífilsstöðum fyrir hjúkrunarkonur. Að leggja fram sem hlutafé í Slippstöðinni h.f. á Akureyri 10 millj. kr., enda nemi heildarhlutafé í fyrirtækinu eigi lægri fjárhæð en 30 millj. kr. Að selja fasteignirnar Hvol á Eyrarbakka og Lónshús í Garði. Að selja öll útihús á jörðinni Baldurshaga í Mýrahreppi í A.–Skaftafellssýslu. Að taka allt að 20 millj. kr. lán til byggingar fæðingar– og kvensjúkdómadeildar Landspítalans. Að lána allt að 10 millj. kr. vegna endurnýjunar og sölu bifreiða, er forstöðumenn og aðrir starfsmenn ríkisstofnana hafa haft til umráða, í samræmi við væntanlega reglugerð um bifreiðamál ríkisins. Að gera makaskipti við Reykjavíkurborg á lóðum í Reykjavík þannig, að ríkisstj. afsalar Reykjavíkurborg lóð þeirri, sem er eign ríkisins á svæði, sem afmarkast af Hverfisgötu, Ingólfsstræti, Sölvhólsgötu og Kalkofnsvegi (Arnarhóli), rúmlega 10 þús. fermetra að stærð, sneið af lóð Stjórnarráðsins við Lækjartorg, um 965 fermetra að stærð og sneiðum af lóðum Landsbókasafnshússins og Þjóðleikhússins í samræmi við skipulag Hverfisgötu, um 270 fermetra að stærð. Á móti afsalar Reykjavíkurborg til ríkisstj. lóð, um 38 þús. fermetra að stærð, til viðauka við núverandi eignarlóð Landsspítalans, og er sú viðbótarlóð innan landssvæðis, sem afmarkast af Hringbraut, Miklatorgi, Snorrabraut, Eiríksgötu og Barónsstíg. Það er óskað eftir heimild þessari vegna samninga, sem í ráði er að gera við Reykjavíkurborg um aukið landrými fyrir Landsspítalann og læknadeild Háskólans. En auk þess lóðarsvæðis, sem borgin afsalar sér ríkinu til eignar, norðan Hringbrautarinnar, er gert ráð fyrir, að spítalinn fái til afnota fyrir bílastæði núverandi götustæði við Hringbraut milli Miklatorgs og Laufásvegar og um 14 ha leigulóð sunnan Hringbrautarinnar. Einnig er gert ráð fyrir, að ríkið láti gera nýja götu frá tjarnarenda að Snorrabraut í stað þess hluta Hringbrautar, sem færi til afnota fyrir Landsspítalann. Sú lausn lóðarmála, sem hér er í stórum dráttum lýst, er forsenda þess, að um nokkrar verulegar frekari byggingarframkvæmdir geti orðið að ræða við Landsspítalann og að möguleikar séu á byggingu fyrir læknakennslu í sambandi við spítalann. Jafnframt er talið, að með þessari lausn málsins sé séð fyrir lóðarrými fyrir byggingar Landsspítalans og að við stofnanir í tengslum við hann bætist bæði heilbrigðisstofnanir, rannsóknar– og kennslustofnanir um langa framtíð. Þá er lagt til að heimila að hefja byggingu nýs stjórnarráðshúss á árinu 1970 og undirbúa nauðsynlega fjáröflun, til þess að unnt sé að ljúka byggingu hússins með eðlilegum hraða. Að ábyrgjast allt að 6 millj. kr. lán vegna Lánasjóðs íslenzkra námsmanna.

Verði þessar till., brtt. fjvn., sem ég hef nú greint frá, samþykktar, verða niðurstöður á greiðsluyfirliti ríkissjóðs sem hér segir: Gjöld verða 7.985 millj. 139 þús. kr., en tekjur eru óbreyttar 8.082 millj. 147 þús. kr. Verða þá tekjur umfram gjöld 97 millj. og 8 þús. kr. Lánahreyfingar út og inn eru óbreyttar, þannig að mismunur verður eftir sem áður 184 millj. 154 þús. Greiðslujöfnuður á rekstrarreikningi eru eftirstöðvarnar 97 millj. og 8 þús. kr. og af lánahreyfingum út, mismunur 184 millj. 154 þús. kr. Verður því greiðsluhalli á greiðsluyfirlitinu sem nemur 87 millj. 146 þús. kr.

Herra forseti. Ég hef þá lokið við að gera grein fyrir þeim brtt., sem fjvn. hefur leyft sér að flytja við þessa umr. málsins. Ég vænti, að till. hljóti samþykki hv. alþm. og legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 3. umr.