09.12.1969
Sameinað þing: 21. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í B-deild Alþingistíðinda. (59)

1. mál, fjárlög 1970

Frsm. minni nl. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Fjvn. starfar með öðrum hætti en aðrar n. Alþ., þar sem fyrstu tvo mánuði þingsins eða rúmlega það eru daglega fundir, svo að samskipti nm. þeirra, sem í fjvn. eru á hverjum tíma, verða því meiri heldur en önnur samskipti þm. yfirleitt.

Mér er það bæði ljúft og skylt að þakka formanni fjvn. og öðrum nm. fyrir samstarfið í n., það sem af er þessu þingi. Enda þótt það fari svo sem fyrr, að leiðir skilji, þegar að afgreiðslu fjárl. kemur, þá er það ekki vegna þess, að innan n. hafi ekki verið reynt að leita að sameiginlegum leiðum innan þeirra takmarka, sem eru á milli stjórnarsinna og stjórnarandstöðu.

Ég vil líka leyfa mér f.h. okkar í minni hl. að færa hagsýslustjóra þakkir fyrir samstarfið við hann, því að undan því höfum við á engan hátt að kvarta og sem fyrr hefur hann látið okkur í té þær upplýsingar, sem við höfum beðið um, og hefur verið hið ánægjulegasta samstarf hans við n. Ég vil líka segja það í sambandi við þessa fjárlagaafgreiðslu, að mér finnst, að fjvn. hafi á margan hátt haft meiri áhrif á hana en oft áður.

Eins og form. n., frsm. meiri hl. gerði grein fyrir, eru fluttar sameiginlega till. frá n. í heild og eigum við í minni hl. aðild að þeim till. Eins og venja hefur verið, er sú aðild bundin þeim fyrirvara, að við höfum fyrirvara við einstakar till. og við till. í heild, en ég vil hins vegar um það segja, að þær eru flestar með þeim hætti, að við eigum auðvelt með að fylgja þeim, þó að við hefðum hins vegar kosið, að lengra hefði verið gengið í sumum málaflokkum, eins og ég mun síðar víkja að. En við því er ekki að segja, því að þar var meiri hl. bundinn innan þeirra vébanda, sem meirihlutastefnan markaði honum. Ég held því, að um þessar till. megi segja, að fæstar þeirra orki tvímælis.

Eins og kom fram í ræðu þeirri, sem ég flutti við 1. umr. fjárlaganna, gagnrýndi ég það – og síðar í sjónvarpsviðtali, sem við fulltrúar flokkanna áttum um fjárlagafrv., – að litlu væri varið hlutfallslega til verklegra framkvæmda, eins og það er orðað í daglegu tali og sérstaklega benti ég þar á skólabyggingarnar í landinu, sem mjög er sótt á. Ég minnist þess, að í sjónvarpsþættinum kom það fram hjá hæstv. menntmrh., að hér yrði mikið úr bætt og var það viðurkenning á réttmæti gagnrýninnar, því að meiri hluti þess fjár, sem væri tekjuafgangur á fjárlagafrv., mundi ganga til skólabygginga.

Nú vil ég segja það, að í þessum málum hefur verið unnið verulega af hálfu fjvn. og ég vil leyfa mér að þakka það, sem áunnizt hefur í því og ég tel, að n. eigi meiri þátt í því en hæstv. ríkisstj., hvað tókst þó að koma þeim málum áfram. Hins vegar skortir allmikið á það, að það sé komið upp í fyrirheit hæstv. menntmrh. um, að meiri hluti af þeim 255 millj. kr., sem voru umfram tekjur á fjárlagafrv., gengi til skólamála, því að skólabyggingarnar hafa verið hækkaðar um 61 millj., eins og fram hefur komið í ræðu form. fjvn. Ég vil segja það, að ég tel, að fjvn. hafi unnið dyggilega að því að reyna að fá auknar fjárveitingar í skólamálin og hafi tekizt að koma þeim lengra, heldur en ríkisstj. hæstv. ætlaðist þó til. En þrátt fyrir það, þó að nokkuð hafi áunnizt í þessu, þá er það afskaplega langt frá því, að þessum málaflokki sé sinnt sem skyldi. Ég tók eftir því í ræðu hv. 2. þm. Vesturl. áðan, að þegar hann gerði grein fyrir þessu, þá gerði hann samanburð á því, sem áður hafði verið til skólamála og því, sem nú væri og taldi, að sá samanburður væri verulega hagstæður. Ég hef líka tekið eftir því í umr., að hæstv. menntmrh. hefur vitnað í tölur í þessu sambandi og m.a. talað um samtímistölur, þ.e. tölur, sem væru jafngildar því, sem hann vitnaði til. Nú er mér ekki kunnugt um það, hvernig sá útreikningur er fundinn. Hv. 2. þm. Vesturl. vitnaði hins vegar í byggingarvísitöluna í þessu sambandi. Hún er ekki einhlít um þetta, því að fleiri samanburðaratriði koma þar til greina, stundum hef ég leyft mér að vitna í hækkun fjárlaganna, sem hefur orðið veruleg á þessu tímabili. Þess er líka að geta, að fólksfjölgun í landinu hefur orðið veruleg á þessum árum, sem vitnað var til, svo að það verður að taka inn í

þann samanburð, sem á að gera, ef hliðstætt er. Við megum heldur ekki gleyma því, að við lifum á öld hraðans. Það er allmikil breyting orðin í okkar veröld og á okkar landi á 10–12 síðustu árum. Þessi öld, sem er oftast kölluð atómöld, hefur krafizt mikils í sambandi við skóla og menntun og okkar þjóð kemst ekki hjá því frekar en aðrar þjóðir að taka tillit til þess. Þegar við erum að gera samanburð á skólamálum eða hvernig ríkið stóð að framkvæmdum í skólamálum fyrir 12 árum og það stendur nú, þá verðum við líka að meta það, hver ásóknin er til framkvæmdanna og þörf fyrir þær. Í sambandi við fjárlagaundirbúning nú munu hafa legið fyrir um 60 umsóknir til nýrra skólabygginga. Það eru aðeins 20 framkvæmdir, sem eru teknar þannig, að þær eru settar á framkvæmdastig. Hinar fá ýmist byrjunarframkvæmdir eða liggja alveg utan dyra. Þessu verðum við að gera okkur grein fyrir, að þannig er ástandið í þessu og þó að við kunnum að nefna hér nokkuð háar tölur þar um, þá er þörfin miklu meiri heldur en þær tölur, sem við getum nefnt. Og það er við þessi verkefni, sem við verðum að miða. Við minnumst öll þess, hvað hefur gerzt á þessu ári í að knýja fram breytingar í skólamálum. Það þarf ekki að rekja fyrir mönnum átökin, sem urðu um aðsóknina að læknadeild háskólans. Nemendurnir, sem stóðu við dyrnar og ekki átti að opna fyrir, voru ekki að spyrja um það, hvort hefði verið veitt svo og svo miklu fé til þessara mála á síðustu árum, heldur vildu þeir fá að komast inn í læknadeildina og fá að njóta þar náms. Hins vegar var það mat þeirra, sem þar stjórnuðu málum, að það væri ekki hægt að veita þeim nám í læknadeild háskólans, af því að það væri ekki rúm fyrir þá. Við vitum það líka, að þær skyndiráðstafanir, sem hafa verið gerðar í sumar, eins og það að ákveða hér menntaskóla í Reykjavík á haustmánuðum eða seinni part sumars, sem tók svo til starfa eftir 1–2 mánuði frá því, að hann var ákveðinn, þær voru ekki gerðar í gamni eða að nauðsynjalausu. Þetta var gert af því, að það var ekki í raun og veru hægt að komast fram hjá því. Þetta sannar okkur það, að þessum málum hefur ekki verið sinnt með þeirri framsýni og fyrirhyggju, sem nauðsyn bar til að gera og raunverulega var krafizt. Þó að byggður hefði verið annar menntaskóli í Rvík., Menntaskólinn við Hamrahlíð, þá leysti það ekki vandann í dag, þó að það hafi leyst að einhverju leyti vandann, sem var til staðar, þegar hann var byggður. Þannig hrannast upp verkefnin. Við vitum það líka, að gagnfræðadeildirnar, sem voru settar á stofn í haust með nokkurra daga fyrirvara, þær voru heldur ekki að nauðsynjalausu stofnaðar. Það var heldur ekki af því, að fyrirhyggja hafði verið sýnd í málinu. Það var af þeirri einföldu ástæðu, að málið var að fara í sjálfheldu og algert strand og það varð að finna einhverja leið út úr þessu. Við skulum ekki vera að blekkja okkur með því, þó að það hafi verið hækkaðar fjárveitingar til þessa málaflokks, sem ég endurtek, að fjvn. vann vel og dyggilega að, að nú yrði gert, að þar hafi neinu verið fullnægt, sem á var sótt og þörf var fyrir. Enda vitum við það, að það eru enn heil héruð, sem ekki geta komið sjálfsögðu skyldunámi frá með eðlilegum hætti. Við eigum mjög mikið óunnið í skólamálunum og verðum að veita í það stórum fjárhæðum nú á næstu árum til þess að komast fram úr raunverulegri sjálfheldu, sem við erum í. Það var líka eitt af því, sem lá fyrir og eðlilegt hefði verið í sambandi við það, þegar ný skóla kostnaðarlög eru nú að öllu leyti búin að taka gildi, þá hefði verið að mörgu leyti eðlilegt að ljúka við greiðslur á eldri skólaframkvæmdum á árinu 1970. Hins vegar var það svo, að það var ekki framkvæmanlegt nema á kostnað nýrra framkvæmda og það var mat þeirra, sem um fjölluðu, að það væri ekki hægt að draga svo úr þeim, að þessar 50 millj., sem raunverulega vantaði til þess að gera það upp, væri hægt að greiða á þessu ári. Og ég verð að segja það, að miðað við það, að ekki var hægt að fá meiri fjárveitingu, þá var þessi stefna rétt.

Ég vil líka segja það og hef sagt það áður í sambandi við skóla kostnaðarlögin, að ég tel, að það orki mjög tvímælis, þegar verkefnin eru svo yfirgnæfandi eins og þau eru nú, að ætla sér að greiða skólabyggingar upp á þrem árum. Þetta verður til þess, að færri skólabyggingar komast að og færri verkefni eru til lausnar í það og það skiptið. Við verðum að gera okkur grein fyrir því, að við höfum að sjálfsögðu takmarkaða getu til þess að leysa þessi verkefni. Það er knýjandi og við verðum að offra þeim geysistórum fjárhæðum og ég dreg það mjög í efa, að sú stefna sé rétt, að við eigum að greiða að öllu leyti skólabyggingar á þremur árum, ef við hefðum getað lokið því á 5 árum fullkomlega, þá hefði ég getað vel sætt mig við það og teldi, að það hefði verið skynsamlega að farið. En þetta hefur nú verið talið gott mál og mikið af því gumað, en við verðum alveg að gera okkur grein fyrir því, að það þýðir, að við neitum fleiri skólabyggingum um fjárveitingu vegna þess, að við höfum hagað málunum á þennan veg og fjárþörfin er alveg geysileg.

Í sambandi við skólamálin hefði mig langað til að koma hér að fsp. til hæstv. menntmrh. Því miður er hann ekki hér á fundi, en ég vona, að einhverjir af hans stuðningsmönnum . . . (Gripið fram í.) Það er vafalaust, en ég held, að ég verði að treysta á það, að stuðningsmenn hans komi þessu til hans. Það var í ræðu, sem hæstv. menntmrh. flutti hér 19. nóvember s.l. í sambandi við aðstöðumun til náms, að hann komst m.a. svo að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Þá spurði hv. þm. um, hvort vænta mætti till. frá ríkisstj. um að bæta aðstöðu þeirra nemenda, sem þurfa að búa utan heimila sinna meðan á námi stendur. Það er í menntmrn. unnið að tillögugerð í sambandi við þetta vandamál og mun hún áreiðanlega koma til kasta Alþ., áður en fjárlög verða afgreidd. Þessari tillögugerð er ekki lokið enn. Það er svo stuttur tími síðan þessari víðtæku athugun var lokið, að endanlega hefur ekki tekizt að ljúka því verki. Ríkisstj. í heild hefur því ekki fjallað um þær hugmyndir, sem uppi eru, en hún mun gera það á næstunni og þá eflaust hafa samband og samvinnu við fjvn. um það, hvernig á þessum vanda skuli tekið.“

Það, sem hér er um að ræða, er í sambandi við n., sem er að vinna að því í sambandi við þáltill., sem afgreidd var hér á síðasta þingi, sem upphaflega var flutt af hv. þm. Ingvari Gíslasyni og fleirum þar um. Það, sem ég vildi því spyrja um, er, hvort þess sé ekki að vænta, að till. komi frá hæstv. menntmrh. eða hæstv. ríkisstj. um þetta efni. Um fjárveitingu til þess að jafna þessa

aðstöðu, eins og er fyrirheitið í þessum ræðukafla, sem ég las hér upp áðan. Þetta mál hefur ekki verið til meðferðar í hv. fjvn. M.a. geri ég ráð fyrir því, að það sé beðið þar eftir þessari tillögugerð, sem hæstv. ráðh. hét þarna. Nú langar mig að biðja hans samherja og stuðningsmenn að koma þessu á framfæri og vænti þess að fá upplýsingar um þetta mál hér við þessa umr.

Annar málaflokkurinn, sem ég vil gera að umtalsefni og vék að við 1. umr. fjárl., að betur þyrfti á að taka heldur en þar var gert, eru sjúkrahús og læknabústaðir. Nú hefur þessi málaflokkur einnig fengið nokkra leiðréttingu í höndum fjvn. og ber að fagna því, sem það nær. Hjá því verður ekki komizt, að við tökum á læknaskipunarmálunum með meiri festu, en gert hefur verið. Það er nú á allra síðustu árum, sem læknahéruð eru farin að verða læknislaus og það kannske samliggjandi héruð, svo að næstum því má segja, að um landshluta sé að ræða. Hér er um mjög mikið alvörumál að ræða, sem hefur verið nokkuð til umr. á hv. Alþ. í vetur, en betur má, ef duga skal. Ég hef ekki getað tekið undir það, þegar margir, sem um þessi mál hafa fjallað, hafa mjög vikið að hinum ungu læknum fyrir þátt þeirra í þessum málum. Ég held, að við verðum að gera okkur grein fyrir því, að á þessu sviði sem öðrum í þjóðfélaginu hefur orðið geysilega mikil breyting. Margir af okkar ungu læknum eru ábyggilega mjög færir og efnilegir menn og miklir dugnaðarmenn og hlífa sér ekki við vinnu, en við skulum gera okkur alveg grein fyrir því, að í okkar þjóðfélagi er það liðin tíð, að menn séu hugsaðir til starfa allan sólarhringinn eða mjög langs vinnutíma. Öll barátta í þá átt að koma mönnum til meiri þroska hefur m.a. gengið í þá átt að stytta þeirra vinnutíma. Héraðslæknirinn er þannig settur, að hann hefur í raun og veru aldrei frítíma. Vinnutími margra héraðslækna er langt yfir það sem með öðrum stéttum gerist. Við skulum vera fúsir að játa það, að þessu verður að breyta eins og öðru. Og það er eins með okkar ungu héraðslækna, að það eru rök frá þeirra hendi, að þeir verða að viðhalda sínu námi og geta ekki orðið eins og afgreiðslumenn til annarra stærri stofnana. Mér er það fullkomlega ljóst, að hér er vandamál á ferðinni, sem þarf að taka á með skynsemi og festu. Við höfum nokkrir hv. þm. flutt hér á Alþ. till. um það, að kandidatar yrðu látnir vera lengur í héruðum en áður hefur verið ákveðið, áður en þeir fengju sín bréf upp á það, að þeir væru fullgildir læknar. Ég er alveg sannfærður um það, að þessi till. er skynsamleg. Þessir menn hafa gott af því að vinna úti í héruðunum og kynnast því. Ég er líka jafn sannfærður um það, að það er skynsamleg till., sem læknarnir hafa verið með, um að koma upp læknamiðstöðvum og vinna fleiri saman. Á því máli þarf að taka með framsýni og festu. Það þarf að byggja það félagslega upp og það þarf að byggja það fjárhagslega upp og ég fagna því, að það er þó lítill vottur á þessu fjárlagafrv. nú við 2. umr., sem eru 3 millj. til læknamiðstöðvar á Egilsstöðum. En við þurfum, hv. alþm., að gera okkur grein fyrir því, að við getum ekki þolað það og unað því og megum ekki þola eða una við það, að ástandið í lækna skipunarmálum verði með þeim hætti, sem það er nú. Það er með öllu óviðunandi, að fólk í mörgum héruðum nái ekki til læknis nema í gegnum flugvél eða mjög langa vegalengd. Þetta öryggisleysi geta engir íbúar búið við og það eiga engir að búa við það. Þess vegna verðum við að leggja þessi mál niður fyrir okkur. Þau verða ekki leyst með einum hætti. Læknamiðstöðvarnar duga ekki til þess. Þær geta hentað vel sums staðar, en annars staðar ekki. Þess vegna verður að gera það upp við sig skipulega, hvar þær eiga að vera og byggja þær upp með eðlilegum og skipulögðum hætti, en sníða svo hinum þættinum jafnframt stakk.

Ég vil segja það í sambandi við heilbrigðismálin, að eins og ég tók fram við 1. umr. fjárl., þá fagna ég því, hvað áunnizt hefur með viðbótarbyggingu við Landsspítalann. Ég segi það enn og aftur, að sá áhugi, sem kvennasamtökin sýndu á því máli í fyrravetur og hafa sýnt í sumar, er lofsverður og hefur rutt málinu verulega braut. Með þessu fjárlagafrv. er tryggð fjárveiting upp á 10 millj. og 20 millj. ábyrgð eða lánsheimild, svo að hægt er að vinna fyrir 30 millj. á næsta ári og er það talið, að muni nægja til þess að gera húsið fokhelt. Þetta er allt góðra gjalda vert, þar sem þetta stefnir í rétta átt og ég held, að hv. alþm. geti verið ánægðir með þær umr., sem fóru hér fram í fyrravetur og hafa hraðað þessu máli verulega. Stórverkefni bíða þar í sambandi við heilbrigðismálin, eins og fram hefur komið, m.a. geðverndardeild við Landsspítalann, sem er stórt mál og þarf að leysa fyrr en seinna. En eins og fram kemur á þessu fjárlagafrv., er heimild til þess að breyta eða gera makaskipti á lóðum hér milli ríkisins og Reykjavíkurborgar, sem m.a. gengur í það eða miðar að því að tryggja Landsspítalanum lóðarviðbót, þótt ég kunni ekki að segja, hvort það muni nægja til langrar framtíðar. Á vissan hátt er sú lóð ekki eins æskileg og kostur hefði verið og æskilegt hefði verið, m.a. það, að hún gengur nokkuð nærri flugvellinum, þó að ég kunni ekki skil á því, hvort hér er of nærri honum gengið til þess að þetta geti rekizt á. Enn fremur verð ég að segja það, að það kemur í ljós við þessa framkvæmd, sem maður hefur svo sem oft undrað sig á áður, að umferðarmiðstöðin skuli hafa verið staðsett þar sem hún er nú staðsett, því að hún lendir í raun og veru inn á þessu svæði, sem Landsspítalinn kemur til með að ná til. En úr vöndu er að ráða í sambandi við þetta mál, ef það á að tengjast þeim byggingum, sem nú eru fyrir hendi og við það er þessi aðgerð miðuð.

Næsti málaflokkurinn, sem ég vil víkja að í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna og sem mikið var til meðferðar í fjvn., eru hafnamálin. Hafnamálin eru, eins og að líkum lætur, stór málaflokkur í okkar landi, enda eru hafnir undirstaða undir okkar aðalatvinnurekstri, svo að það er ekki að undra, þó að verulegir fjármunir gangi til þeirra. Nokkur hækkun varð á fjárveitingum til hafna í meðferð fjvn., m.a. var framkvæmdaféð hækkað um nokkrar millj., en enn fremur voru til meðferðar í n. þeir erfiðleikar, sem höfðu skapazt hjá höfnunum vegna þeirra gengistryggðu lána, sem hafnirnar hafa tekið á undanförnum árum. Hér er um stórar fjárhæðir að ræða, og það varð niðurstaða n., að ríkissjóður tæki 57 1/2% af gengistapi hafnanna og verður það greitt jafnhliða því, sem afborgun og vaxtagreiðslur falla til af þessum lánum, sem gengistryggð eru. Vegna þess arna hækkaði fjárveiting til hafnanna um einar 6 millj. kr. og þá var einnig gerð sú breyting að greiða hala þann sem ríkið átti vangreitt við hafnirnar frá fyrri árum, það er ákveðið að greiða hann á 4 árum og er fyrsta greiðslan af fjórum á árinu 1970. Inn á þetta mun fara einhver fjárhæð, sem vangreidd er frá árinu 1968 og sem að vísu samkv. hafnalögunum átti að greiðast að fullu við uppgjör nú, en ekki var rúm fyrir og verður tekið á þennan hátt. Þá er á þessu fjárlagafrv. nokkur hækkun til Hafnabótasjóðs. Eins og hv. þm. er kunnugt af fjárlagafrv. sjálfu, því að það breyttist ekki í n., í sambandi við þá fjárlagaliði, sem ég hef hér nefnt og allir hafa hækkað í meðförum n., að ég held um ca. 80 millj. kr., þá vil ég segja það, að þó að ég vilji ekki gera lítið úr því, sem ávannst í n. og verkum hennar, þá er staðreyndin þessi, að hér er um 1% eða tæplega það að ræða af heildarútgjöldum fjárl. og eftir þessa breytingu eru framlög ríkisins til verklegra framkvæmda ekki nema ca. 8–9%. Það er þessi þróun fjárlagafrv. og undangenginna fjárl., sem ég hef oft og mörgum sinnum gagnrýnt hér á hv. Alþ. og geri enn. Í þessa átt hefur stefnt og fer óðfluga inn á þá braut, að verklegar framkvæmdir verða minni og minni hluti af útgjöldum fjárlagafrv. Þetta hefur leitt til margra annarra hluta og m.a. þess, að til þess að gera hlut verklegra framkvæmda ekki eins rýran eins og sjálft fjárlagafrv. gerir, hefur verið horfið að því ráði að taka lán til framkvæmda, m.a. ríkisframkvæmda. Þessi lán geta komið til með að verða og eru þegar orðin ríkissjóði alldýr. Ef við tökum aðeins hafnarframkvæmdirnar í landinu, hækkuðu lán landshafnanna við gengisbreytingarnar 1967 og 1968 um 79 millj. kr. og lán annarra hafna, þeirra, sem ég gat um áðan, um 134.4 millj. kr., svo að samtals hækka hafnalán um 213 millj. kr. vegna gengisbreytinga. Þetta verður annars vegar ríkissjóður og hins vegar byggðarlögin að greiða. M.a. er þetta einn þáttur af þeirri stefnu að rýra hlut verklegra framkvæmda á fjárl. Og ef við hverfum að vegamálunum, gerðist það hjá þeim í sambandi við vegamálin á árunum 1967–1968, að skuldaraukning Vegasjóðs nam 108 millj. kr. vegna gengistaps. Hér er um stórar fjárhæðir að ræða, sem dregur úr vegagerðinni í landinu á næstu árum. Þessi stefna að fjármagna ríkisframkvæmdir að verulegu leyti með lánum er á engan hátt breytt í þessu fjárlagafrv. T.d. er á því tekin upp fjárveiting til nýbygginga hjá Háskóla Íslands. Sú fjárveiting er samkv. áliti n., sem skipuð var til að athuga stöðu háskólans og gera till. um úrbætur á sviði þeirra mála. Það er gert ráð fyrir því á þessu fjárlagafrv. að heimila ríkisstj. lántöku að 30 millj. kr., sem er það, sem þarf að leggja til þess verks á árinu 1970 umfram það, sem happdrættisféð hrekkur til. Í áliti háskólanefndar er það skýrt tekið fram og við því varað að fjármagna háskólaframkvæmdirnar með lánsfé, þrátt fyrir það er það gert.

Mörg fleiri verkefni mætti nefna hér, sem nauðsyn hefði verið að veita aukið fé til eða fjármagna á annan hátt, ef ekki er hægt, að ríkissjóður geti staðið að fleiri greiðslum. Þar vil ég nefna stórmál eins og rafmagnsframkvæmdirnar, sem eftir er að dreifa út um héruðin. Það er ekki orðið stærra verk en það, að vel má ljúka því á tveimur árum með viðráðanlegum hætti. Nú mun þess verða freistað að reyna að ná um þetta mál samkomulagi í fjvn. á milli umr., svo að ég ætla ekki að fara langt út í það að sinni, en þetta er mál, sem þarf að leysa nú á næstu tveimur árum. Ég vil líka nefna verkefni eins og það, sem Framleiðnisjóður landbúnaðarins hefur haft. Hann hefur nú tvö stór verkefni, sem brýn nauðsyn væri að veita fé til í gegnum hann. Þar á ég annars vegar við sláturhúsabyggingarnar í landinu, sem eru geysifjárfrekar framkvæmdir og ef á að fullnægja löggjöfinni um sláturhúsabyggingar, verður að aðstoða þær með fé frá Framleiðnisjóði. Ég vil líka nefna heyverkunarmálin, sem nú hafa verið mjög til umr. á þessu sumri eftir þá miklu og erfiðu reynslu, sem þjóðin hefur af óþurrkunum á því. Þessi verkefni og fleiri nefni ég aðeins til að minna á þau, þeim er á engan hátt sinnt í þessu fjárlagafrv., þó að það sé yfir 8 milljarðar. Þá mun ég nú ekki ræða frekar um það, sem ég kalla verklegar framkvæmdir.

Það þætti víst að fara aftan að siðunum að ræða um fjárlagafrv. án þess að víkja þar eitthvað að sparnaði. Og ég verð að segja það, þegar ég minnist þeirra umr., sem ég heyrði hér á mínum fyrstu þingárum, bæði meðan vinstri stjórnin var og á fyrstu árum viðreisnarstjórnarinnar, um sparnað, þá kemur mér í hug atvik, sem ég man frá nokkuð löngum tíma. Það var einn góður og gegn embættismaður, sem þótti aðgætinn með fé og sparsamur og hann var í hópi, þar sem ég og fleiri vorum að ræða um framkvæmd og einhver komst svo að orði, að það yrði nú að gera þetta verk með myndarskap og mætti ekki standa að því með allt of miklum sparnaði. Þá sagði þessi ágæti embættismaður – það var á stríðsárunum, sem þetta átti sér stað: „Það þýðir ekki orðið að tala um sparnað. Maður verður sér til skammar, ef maður fer að ræða um sparnað.“ Mér er nú næst að halda það, að þessi hugsun hafi nú verkað meira á valdhafana heldur en yfirlýsingar þeirra um sparnað og hagkvæmni í ríkisrekstrinum. Sparnaður sá, sem ég ætla að ræða að þessu sinni, er ekki nýjar sparnaðartillögur. Ég ætla heldur að minna á það, að á árinu 1968 voru afgreidd lög, nr. 5 það ár og þau voru um ráðstafanir til lækkunar ríkisútgjalda. Þetta var gert í sparnaðarskyni og þetta voru margir töluliðir, það eru hér á forsíðu einir 24 og nú langar mig til þess að bera reynsluna saman við fyrirheitin, sem þarna voru gefin. Ég leyfði mér við umr. um þetta mál hér á hv. Alþ. að halda því fram, að nokkur hluti af þeim till., sem þarna væru gerðar, væri sýndarmennska. Þetta þóttu að sjálfsögðu stór orð og nú ætla ég að athuga, hvernig þetta hefur staðizt. Ég hef þá annars vegar fyrir mér þetta þskj. frá 1968, fyrirheitin um sparnaðinn og hins vegar ríkisreikning þann, eða hluta af ríkisreikning, rekstrarreikning ríkissjóðs, sem lagður var fram hér við 1. umr. fjárlaga á hv. Alþ. Og þá vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa hér úr grg. þessa frv. um þessa sparnaðarliði. Það verður fyrst fyrir mér stjórnarráðið. Þar segir svo:

„Lagt er til að lækka heildarfjárveitingu til stjórnarráðs um 2 millj. kr., lækka fjárveitingu til endurnýjunar ríkisbifreiða um 1 millj. kr. og draga úr kostnaði við utanríkisþjónustuna um 3 millj. kr. Er ætlunin að fækka allverulega starfsliði sendiráðanna.“

Nú skulum við kynna okkur, hvað reynslan segir um þetta. Á fjárlögum fyrir árið 1968 var gert ráð fyrir til stjórnarráðsins, þ.e. til aðalskrifstofu stjórnarráðsins, en þar átti að spara á allmörgum liðum, það kemur fram hér í þessum reikningi yfirlit um það, hvað átti að spara þar og ég get nú ekki farið að lesa það allt upp, en það voru sem sagt 2 millj. í heild, sem út úr þessu átti að koma. Og þegar búið var að draga þær frá, þá var fjárveitingin til stjórnarráðsins 68.5 millj. kr. En samkvæmt ríkisreikningnum er greitt til stjórnarráðsins 80.8 millj. kr. til aðalskrifstofunnar, eða 12.3 millj. kr. meira heldur en gert var ráð fyrir samkvæmt sparnaðarfrv. Og ég hef kynnt mér það nokkuð um risnuna, sem vitnað er til hér í 1. gr. frv., því að þar segir: Stjórnarráð og risna ráðh., sem átti að lækka, umrædd risna var árið 1967 um 3.3 millj. kr., en 1968 um 4 millj. Hækkunin er að vísu ekki nema 700 þús. kr., en það átti að lækka þetta um 1 millj. eða tvær, svo að þar skýtur nú skökku við. Þannig er reynslan af þessu, að í staðinn fyrir það, að til aðalskrifstofu stjórnarráðsins átti að lækka um 2 millj., þá hækkar það frá fjárlögum um 10 millj. og er eftir þessa breytingu um 12 millj. kr.

Þá kem ég að utanríkisþjónustunni, hún átti að lækka um 3 millj. kr. með því að fækka starfsliðinu. Til sendiráðanna var á fjárl. 1968 áætlað 40 millj. 978 þús. kr. Lækkunin átti að vera 3 millj., svo að eftir standa 37 millj. 978 þús. Reynslan, sem reikningurinn sýnir, er, að greitt er vegna þess arna 50 millj. og 200 þús. Hækkun umfram þessa áætluðu tölu eftir sparnaðinn er 12.2 millj. kr. Það er nokkurs virði að setja upp í lagafrv. og láta afgr. hér á hv. Alþ. frv. og l. um sparnað í utanríkisþjónustunni, setja það í blöð og sjónvarp, hvernig að þessu skuli farið og greiða svo 12 millj. kr. meira, en sparnaðurinn gerir ráð fyrir. Þetta var það, sem ég leyfði mér að kalla óraunhæft og sýndarmennsku og ég tel mig hafa sannað það, að svo hefur verið.

Ég held áfram með þetta og þá kem ég að fiskmati og fiskeftirliti, sem var áætlað 16.9 millj. kr. lækkaði um 3 millj., átti að vera 13.9. Niðurstaðan í reikningnum er 17.9 eða 4 millj. fram yfir það, sem áætlað var. Þannig var reynslan í þessu. Það segir þó í þessu merkilega þskj. hér, sem ég var að vitna til hér áðan, eða grg. þess um fiskmatið, að það sé búið að gera ráðstafanir, það sé verið að endurskoða þetta og það sé verið að gera ráðstafanir til þess að koma því í framkvæmd.

Þá kem ég næst að löggæzlunni í landinu. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta, í grg. frv. frá 1968:

„Lagt er til að lækka framlag til löggæzlu á Keflavíkurflugvelli um 2 millj. kr. og til almennrar löggæzlu um 6.8 millj. kr., er svarar til ca. 5% heildarkostnaðar við dómgæzlu og lögreglustjórn. Þegar hafa verið gerðar ráðstafanir til lækkunar útgjalda á Keflavíkurflugvelli, en ákveðin niðurstaða liggur ekki enn fyrir um það, hvernig hagað verði umræddum niðurskurði hins almenna löggæzlu kostnaðar.“

Og nú skulum við taka löggæzlu kostnaðinn í landinu fyrst fyrir. Hann var áætlaður upphaflega í fjárlögunum 79.4 millj. kr. Lækkunin var 6.8 millj. kr. eða 72.6 millj., en niðurstaðan í reikningnum er 88.9 millj. kr., eða hækkunin, frá því að búið er að gera þessa hækkun, er 16.3 millj. kr. Hvers virði er það nú fyrir hv. Alþ. og fyrir íslenzku þjóðina að fara að setja slík l., eins og þessi sparnaðarl., eða fyrirheit um 6.8 millj. kr. lækkun, en greiða svo 16.3 millj. umfram það, sem áætlað er, eða 10 millj. umfram lækkunina? Ég get ekki skilið, að þjóðin hafi gagn af því eða Alþ. sóma af því að afgr. mál á þennan hátt. Þetta eru staðreyndirnar um sparnaðinn í löggæzlu. Nú skulum við taka Keflavíkurflugvöll. Þar var áætlað, það segir hér, að það sé búið að gera ráðstafanir til að draga úr þessum kostnaði. Það var áætlað, að kostnaðurinn við löggæzlu þar yrði 18.9 samkvæmt frv. Hann var svo lækkaður, en reynslan sýnir, að hann fer 2.6 millj. fram úr því, sem gert er ráð fyrir. Og það er fleira, sem kom fram í þessu ágæta þskj., en m.a. var eitt af því, sem þar var ákveðið, að lækka framlag til ríkisábyrgðasjóðs um 10 millj. kr. Þá var búið að fella gengið í nóvember og gera ráðstafanir vegna sjávarútvegsins þá nokkrum mánuðum seinna og segir svo hér í þessu þskj., með leyfi hæstv. forseta, þskj: frá 1968:

„Vegna hinnar nýju aðstoðar við sjávarútveginn ætti einnig að mega gera ráð fyrir betri skilum ríkisábyrgðarlána og þykir því fært að lækka áætlað framlag til ríkisábyrgðasjóðs um 10 millj. kr.“

Og hvað segir svo reynslan eftir þessa aðstoð við sjávarútveginn og uppbyggingu atvinnuveganna? Það var upphaflega áætlað 84 millj. til ríkisábyrgðasjóðs. Það var lækkað um 10, svo að eftir standa 74. En reikningurinn skilar 157.9 millj. kr., eða 83.9 millj. kr. umfram það, sem gert var ráð fyrir eftir að þessi hækkun hafði farið fram. Mikils virði hefur nú þessi sparnaðartill. reynzt þingi og þjóð. M.a. var gert ráð fyrir því með skólamálin, að það mundi vera hægt að lækka til þeirra og m.a. reksturskostnaðinn. Ég hélt því fram hér í umr. við þetta mál, að þetta væri ekki framkvæmanlegt, vegna þess að sá kostnaður, sem var greiddur á árinu 1968, féll til á árinu 1967 og ef hann reyndist lægri, þá mundi þetta skila sér fyrir ríkissjóð, hvort sem áætlunin væri breytt eða ekki. Reynslan hefur svo sýnt það, það átti að lækka þarna um 11.6 millj. kr., en reikningurinn sýnir 14.4 millj., sem það fer fram úr þeirri áætlun, svo að upphaflega áætlunin stenzt sæmilega. Ef sparnaðar viðleitnin með þessar 11.6 hefði verið látin eiga sig, þá hefði þetta verið með eðlilegum hætti. Í þessum liðum, sem ég hef hér talið, átti að spara um 40 millj. kr. og það þótti alls ekki sanngjarnt, þegar ég hélt því fram, að hér hafi verið um óraunhæfa áætlun að ræða. En það átti að spara tæpar 40 millj. kr., en umframgreiðsla er 145.9 millj: kr. á þessum liðum eða umfram sparnaðinn er hann 108.4 millj. Þetta segi ég, að sé sýndarmennska í sparnaði. Og mér finnst þetta enn þá fráleitara, þegar sjálft fjmrn. gerir slíkar áætlanir. Ég verð líka að segja það, að ég hef litið svo á, að áætlanir, sem hagsýslustofnunin gerði um greiðslur, væru traustari heldur en oft áður, vegna þess að það er heil stofnun, sem hefur starfslið í að vinna í þessu. En ef ég fer að bera saman reikninginn frá 1968, þá er hagsýslustofnunin að undirbúa fjárl. 1967 og einnig 1968 og þá sé ég á smá embættum, eins og sumra sýslumanna, að þar fara greiðslur um 50% fram úr áætlun, um 50% fram úr áætlun. Og meira að segja er til dæmi um 155% fram úr áætlun, sem gerð er rétt fyrir áramótin fyrir það ár, sem þessar greiðslur féllu til. Eitthvað er hér að, annaðhvort er þetta mál ekki unnið eins vel og við í stjórnarandstöðu höldum, að það sé gert, eða að þessir embættismenn fá meira frjálsræði fyrir framkvæmdir í sínum embættum heldur en almennt gerist og á að vera. En hér eru nokkur dæmi um útgjöld hjá sýslumannaembættum og t.d. vil ég nú geta þess, að síðan 1965, síðasta árið, sem Björn Sveinbjörnsson var sýslumaður í Gullbringu– og Kjósarsýslu og bæjarfógeti í Hafnarfirði, til ársins 1968 eða árið “68 hafa útgjöld við embættið hækkað úr 3.8 millj. kr. í 10.2, eða 166% á þessum 3 árum. Þetta embætti það fer það ár á hálfa aðra millj. fram úr áætlun. Þetta gerist svo samhliða því, sem verið er að tala um sparnað og hagkvæmni, betra skipulag og betra eftirlit með ríkisrekstrinum. Ég get ekki neitað því, að þessi dæmi eru það sláandi, að þau falla ekki inn í slíkar yfirlýsingar eða frásagnir.

Sparnaður, sem var framkvæmdur árið 1968, var þessi: Fjárveiting, sem átti að ganga til menntaskólanna, var 25.6 millj. kr. Þær voru allar felldar niður samkvæmt l., en uppbyggingin var fjármögnuð með vísitölutryggðum lánum. Og hvað kostar það svo ríkissjóð, hver er kostnaðurinn við það að hafa tekið þau lán? Hægri handar umferðin, sá skattur féll inn í ríkiskerfið þá, því að hann var felldur niður með þessum l., en bifreiðaeigendur eru núna að greiða. Landsspítalafjárveitingin, 37 millj., féll niður raunverulega líka árið 1968, það var fjármagnað með vísitölutryggðum lánum. Finnst hv. alþm., þegar er verið að fjalla um mál Landsspítalans og menntaskólanna núna, að það hafi verið mikil framsýni í því árið 1968 að leggja niður fjárveitingar ríkisins til þeirra framkvæmda. Ég sé heldur ekki, að það hefði verið eðlismunur á því, þó að yfirdráttarskuldin á Seðlabankanum hefði hækkað um þetta, því að hún er þó ekki einu sinni vísitölutryggð, sem spariskírteinin eru þó. Svo tókst að reyta svona smáfjárhæðir eins og eina millj. af Kennaraskólanum, sem ætluð var honum til að koma sér upp bókasafni. Eru nú hv. alþm. og er hæstv. ríkisstj. sérstaklega ánægð með að hafa 1 millj. af þessari stofnun, sem er svo gersamlega vanrækt? Hún verður raunverulega að kenna sínum nemendum úti á götu, þar sem nemendurnir geta ekki komið til náms í skólann nema annan hvern dag, eins og er þar í sumum bekkjardeildum. Það féll niður þá til byggingar safnahúss 1 millj. og til stjórnarráðsins, sem betur fer á að hefja það aftur. Þetta mál sýndi það reyndar strax, að það var ekki á neinn hátt ánægjulegt, enda hefur reynslan sannað það. Og svo féllu auðvitað alveg niður fjárveitingar eins og til Aflatryggingasjóðs 11 millj. og Fiskveiðasjóðs 30 millj. Ekkert af þessu sýnir á nokkurn hátt neina framsýni eða neinn raunverulegan sparnað.

Við í minni hl. flytjum ekki neinar sérstakar sparnaðartill. við þetta fjárlagafrv. Mér finnst, að m.a. reynslan, sem ég var að segja frá áðan, sanni það, að til þess að út í það sé farið þurfi að vinna að málum með verulegum undirbúningi og nokkuð hefur verið gert af því nú síðustu sumrin, að undirn. fjvn. hefur unnið að því að kanna ýmsa málaflokka, sem ég vona, að geti síðar meir staðizt það að geta dregið úr útgjöldum ríkissjóðs eða komið málum þar betur fyrir og ég hef áður sagt það, að ég tel, að ef á að vinna raunverulega að sparnaði og betra skipulagi hjá ríkinu, þá verði að gera það á þann hátt. Ég held, að það séu ýmis verkefni, sem þurfi að kanna, hvort ekki mætti betur fara. Ég skal vel játa það, að ég hef ekki það í höndunum, að ég geti sannað, að svo sé. En í mínum huga er það svo, að það færi betur á því, að verkfræðingar þeir, sem vinna á vegum ríkisins, ynnu í einni stofnun heldur en eins og nú er, að einn sé hjá vitamál, annar hjá vegamál, þriðji hjá Pósti og síma, fjórði hjá flugmálum o.s.frv. Ég held, að við gætum með þessum hætti bæði unnið verk betur og hagnýtt þessa starfskrafta betur, ef þetta væri þannig, að þeir ynnu saman að þessum málum. Það yrði að vera einhver deildaskipting, en það er mín skoðun, að þannig mætti koma þeim málum betur fyrir heldur en nú er, því að það er líka misjafnt, hvað mikið er um að ræða í hverjum þessara málaflokka. Ég vil líka segja það, að ég tel, að það verði að fara að taka mjög á málum eins og hér hafa verið, t.d. framkvæmdum í sambandi við útboð. Það vakti verulega athygli í haust, þegar útboð þau, sem komu í veginn hér innan við Elliðaárnar, urðu svo langt undir því, sem vegagerðin hafði gert ráð fyrir. Ég hef í raun og veru saknað þess, að af hálfu vegagerðarinnar skuli ekki hafa verið gerð grein fyrir því, í hverju þessi mismunur aðallega lægi eða á hvern hátt það væri hægt að skýra hann. Vegagerðin er stofnun, sem ég virði og met mikils og það væri mjög illa farið hjá okkur, ef hún yrði lömuð eða kannske meira en það. En slík gagnrýni, sem hún hefur orðið fyrir í sambandi við þetta og mun verða, gerir það að verkum, að það verður að taka á þessum málum með mikilli festu. Ég hef alltaf talið, að það væri eðlileg gagnrýni, sem vegagerðin varð fyrir í fyrra haust, þegar hún ráðstafaði vegspottanum á Vesturlandsvegi til verktaka alveg án útboðs og raunverulega veit ég það, að vélar vegagerðarinnar stóðu verkefnalausar í húsi skammt frá því, þar sem þessar vinnuvélar voru að vinna. Það er ekki nema tvennt til hjá þessum ríkisfyrirtækjum, annaðhvort verður þetta að vera framkvæmt af þeim sjálfum eða þá að útboð komi til. Og ég tel það mikla nauðsyn, að einmitt slíkir aðilar geri sér grein fyrir, hvernig þeir vinna þetta og séu ekki jafnberskjaldaðir fyrir sinni gagnrýni eins og þeir raunverulega eru nú. Það er mín skoðun, að til þess að það sé hægt að draga úr kostnaði við ríkisrekstur þá þurfi að fækka stofnunum með því að sameina þær og gera ýmsar skipulagsbreytingar. Sparnaður eins og sá, sem ég var að vitna hér til áðan, þegar týnd voru til 1–200 þús. af hverju rn., hefur enga þýðingu, nema sé til þess að sýnast eins og þar hefur komið fram. Það er aðeins með þeim hætti að fækka stofnunum og breyta skipulagi, sem hægt er að hugsa sér sparnað í ríkisrekstrinum og ég hef þá skoðun, að það sé framkvæmanlegt.

Eitt af því, sem einkennir þetta fjárlagafrv. og hefur gert nú við afgreiðslu fjárl. tvö síðustu árin og ég gagnrýndi nokkuð fyrir 1. umr. fjárlagafrv., er það, að ekki er rúm fyrir ný verkefni í fjárlagafrv., þó að það hafi hækkað um nærri milljarð á síðasta ári og sé yfir 8 milljarðar. Á öld hraðans og tækninnar og alls þess, sem menn tala daglega um, þá er annað óhugsandi en það verði að vera rúm fyrir ný verkefni á fjárl. ríkisins.

Rannsóknastofnanir og rannsóknastarfsemi í okkar landi er mjög ung. Því miður er ekki sú festa á skipulagi rannsóknastarfseminnar, sem þarf að vera. En fjármagnið, sem þessar stofnanir hafa yfir að ráða, er líka afar takmarkað. Og það er mikil nauðsyn að auka þar við. Ég vil í sambandi við þetta geta þess, að á fundi hjá fjvn. gat framkvæmdastjóri rannsóknaráðsins, Steingrímur Hermannsson, hugmyndar, sem hann var með í sambandi við rannsóknamálin, sem var þess efnis, að stofnaður verði sérstakur sjóður, sem veitti mönnum greiðslu fyrir ákveðið verk og það væri bundið því, að þeir skiluðu þessum verkum, til þess að þeir gætu notið þess framlags, sem sjóðurinn veitti. Ég held, að hér sé um athyglisverða till. að ræða. Eins og ég sagði áðan, þá þarf meiri festu í þessi rannsóknamál okkar og það er höfuðatriðið í þeim, að það, sem rannsakað er og þær niðurstöður, sem nást í gegnum rannsóknina, komi fyrir almenningssjónir og hægt sé að nýta þá þekkingu, sem þar fæst. Ég vil í sambandi við rannsóknamálin víkja aðeins að kalrannsóknum. Eins og kunnugt er þá hefur kal valdið landbúnaði gífurlegu tjóni nú þrjú síðustu árin. Hér er um mjög stórt mál að ræða, sem verður að reyna að leita lausnar á, því að allir vona, að lausnin sé finnanleg. Í sambandi við það hefur komið fram, að ýmislegt hefur verið gert í kalrannsóknum hér á landi, en niðurstöður af því, sem gert hefur verið, hafa ekki verið birtar eða þær teknar saman á einn eða annan hátt. Þetta kom fram í rannsóknum, í frásögnum hjá vísindamönnum þeim, forstöðumönnum atvinnudeildar landbúnaðarins, sem komu til okkar á fund í fjvn. Það, sem mestu máli skiptir í þessu, er í raun og veru að ná því saman, sem gert hefur verið og vita, hvort hægt er að byggja á því frekari rannsóknir. Í þetta mál hefur verið skipuð sérstök n. Nú finnst venjulegum leikmanni eins og mér, að eðlilegra hefði verið, að atvinnudeildin eða sú deildin, sem sér um rannsóknir á landbúnaði, hefði fengið þetta verkefni og hún hefði ákveðið ákveðna menn í það. Nú hefur þessi n., sem skipuð er til þess að fjalla um kalrannsóknir, leitað til fjvn. um fé til starfsins. Hún er skipuð af ríkisstj. og er á hennar vegum og auðvitað er það ríkisstj. að fjármagna það verk á þann hátt, sem hún telur nytsamlegastan og er ekki hægt hjá því að komast, fyrst þessi leið var valin. En þetta sýnir, hvað þessi mál eru í lausu lofti og linlega á þeim tekið, að þannig skuli vera að þessu staðið, að svo geysilega miklu máli eins og kalrannsóknirnar eru.

En það, sem mestu máli skiptir í sambandi við okkar vandamál í íslenzku þjóðfélagi nú og þetta fjárlagafrv. gengur að mestu leyti fram hjá, það eru atvinnumálin. Ég sýndi fram á það við 1. umr., að það væru meira að segja felldar niður fjárveitingar, sem veitt var til atvinnumála á yfirstandandi ári, að þær væru ekki teknar með í þetta fjárlagafrv. Á vegum ríkisins er hægt að standa að atvinnuvegum eða standa að því að auka atvinnu með tvennum hætti.

Í fyrsta lagi er hægt að gera það með því að veita fé úr ríkissjóði til verklegra framkvæmda, þótt í verulegum mæli sé, eða útvega þá og í öðru lagi með því að styðja atvinnuvegina og hafa forystu um atvinnuuppbyggingu í landinu. Á vegum núverandi hæstv. ríkisstj. er algert stefnuleysi um forystuna í atvinnumálum og það, sem hún hefur gert þar, hefur verið unnið fyrst og fremst utan Alþ. og hún hefur verið knúin til þess í samningum, sem að sumu leyti hafa farið fram um önnur efni. Ríkisstj. hefur ekki sinnt atvinnumálum þjóðarinnar svo sem skyldi, eins og dæmin sanna, sem ég nefndi hér áðan, um Fiskveiðasjóð, Framleiðnisjóð og Aflatryggingarsjóð o.fl. og því hefur farið sem farið hefur um atvinnumál hér á landi, að atvinnuleysi er orðið hér verulegt. Við fjárlagaafgreiðslu á s.l. ári fluttum við í minni hl. fjvn. till. um að verja til atvinnumála 350 millj. kr. Við lýstum því yfir, að við værum til samstarfs um það, hvernig þessa fjár yrði aflað, að hverju leyti það yrði tekið með lántöku eða á annan hátt og ef því hefði verið sinnt, þá hefðum við ekki sett það fyrir okkur. Þessi till. var felld og ekki talin vera þörf fyrir hana eða á neinn hátt framsýni í að koma fram með hana, heldur kvað við þann tón, sem oft er nú uppi hér gagnvart okkur í stjórnarandstöðunni, að það væri , ábyrgðarleysi. En hver var svo reynslan? Það hefur kannske verið liðinn mánuður eða tæplega það, þá var ríkisstj. sjálf búin að semja við verkalýðsfélögin, sem á dögum vinstri stjórnarinnar var talið til glötunar, þá var ríkisstj. sjálf búin að semja um þetta mál, hún samdi að vísu um 300 millj., en bætti við á milli 40–50 síðar. Og hún setti sjálfa sig í það að fá að láni þetta fé, sem hún þannig samdi um. Það, sem skilur á milli okkar og hæstv. ríkisstj., er það, að við vildum láta afgr. þetta mál á hv. Alþ. Við vildum láta Alþ. móta stefnuna í málinu og gangast fyrir því, sem síðar varð, að ríkið varð að útvega féð, við fjárlagaafgreiðslu í des., en ríkisstj. samþ. það með verkalýðsfélögunum í janúar og lét svo Alþ. samþ. það síðar, þegar til framkvæmdanna kom. Nú höfum við gert till. um svipaða fjárhæð til atvinnumála. Við treystum nú á það, að hæstv. ríkisstj. hafi nú breytt um skoðun frá í fyrra, að hún vilji nú ganga að málinu með eðlilegum hætti og láta Alþ. afgr. það nú þegar við fjárlagaafgreiðslu, eins og venja á að vera um fjármál. Við erum, eins og við vorum í fyrra, reiðubúnir til samstarfs um málið og að laga það í hendi, til þess að samstaða geti komið um það, sem ég treysti hv. fjvn. til þess að geta unnið að. Við höfum gert ráð fyrir því, að fjvn. hefði áhrif á það, hvernig þessu fé er ráðstafað. Við munum einnig taka það til ath., ef mönnum sýnist annað geta verið eðlilegt og við teljum eðlilegt, að Atvinnujöfnunarsjóður hafi framkvæmd á þessu máli, en að sumu leyti hefði mér fundizt það geta komið til mála, að hann lánaði það, en ég geri það ekki að neinu atriði, né framkvæmd málsins, ef hægt er að fá samstöðu um málið í heild. Við vitum það allir hv. alþm., að það hefur verið atvinnuleysi á landinu allt þetta ár og það er núna vaxandi. Og það verður að gera ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir áframhaldandi atvinnuleysi. Alþ. er rétti aðilinn til þess að gera ráðstafanir gegn því og við eigum í sambandi við fjárlagaafgreiðslu að taka málið til afgreiðslu.

Nú mun ég ekki frekar en hv. 2. þm. Vesturl., frsm. meiri hl. fjvn., ræða hér um tekjuhlið fjárlagafrv., því að það liggur í loftinu, að það geti orðið gerbreyting á því, hvernig hún skuli uppbyggð. Það skiptir líka verulegu máli, hvernig að því máli verður staðið. Það er stór þáttur í því vandamáli, sem hv. Alþ. var að fjalla um hér í gær, hvernig staðið verður að tekjuöflun ríkissjóðs, eftir að þær breytingar verða gerðar, ef af EFTA–aðild verður. Í sambandi við frv. það, sem ég og fleiri flytjum hér á hv. Alþ., um afnám söluskatts af nauðsynlegustu matvælum og þjónustugjöldum, þá benti ég á það, að málið væri mjög brýnt nú, ef að því ráði yrði horfið að gera söluskatt að meiri tekjustofni fyrir ríkissjóð heldur en nú er. Það skiptir stórkostlegu máli fyrir alla neytendur í þessu landi, hvort söluskattur á kjötvöru, á fisk og á smjör verður hækkaður eða hvort hann verður felldur niður. Það er með öllu óhugsandi, að hæstv. ríkisstj. láti sér detta í hug að hækka söluskattinn á þessum vörum.

Það mundi hafa þær afleiðingar, sem ekki verða séðar fyrir, bæði í sambandi við kaupkröfur og annað og svo í sambandi við sölu á þessum vörum, eins og kjöti hér innanlands. Þess vegna skiptir það meginmáli í sambandi við tekjuöflunina, hvernig hæstv. ríkisstj. ætlar sér að standa að henni. Ég verð líka að segja það, að nauðsynjavörur eins og olía til húsakyndingar, rafmagn og hitaveitugjöld, þetta er að minni hyggju allt undir sama hatti og þessar nauðsynjavörur eru gjöld, sem hvert eitt einasta heimili í landinu verður að greið og það skiptir því meginmáli, að ekki sé hækkaður söluskattur á þeim. Ég vil því treysta því, meðan ekki er annað sýnna, að til þess arna verði tekið og ekki stefnt að því að hækka söluskatt á þessum nauðsynjum heldur verði horfið að því ráði að fella hann niður, eins og frv. okkar gerir ráð fyrir og ég treysti því einmitt, að í sambandi við þessa fjárlagaafgreiðslu komi það í ljós. Að öðru leyti ætla ég ekki að ræða frekar tekjuhlið frv.

En í sambandi við till. okkar vil ég bæta því við, að eitt af því, sem við gerum ráð fyrir, er, að það verði varið fjárhæð til aðstoðar við togarakaup. Við framsóknarmenn höfum lagt fram frv. hér í Ed. um þetta mál og hér er um mikið stórmál að ræða. Í sjónvarpsviðtali við forstjórann fyrir Bæjarútgerð Akureyrar kom það greinilega fram, að það fyrirtæki treysti sér ekki til að endurnýja flota sinn og svo mun vera með önnur fyrirtæki í þessu landi og þess vegna hefur farið eins og farið hefur, að togaraútgerðin hefur gengið saman og við, þessi mikla fiskveiðiþjóð, eigum ekki aðra togara en gamla. Hér er um að ræða stórt verkefni, sem ekki virðist neinn ráða við nema ríkið sjálft og við leggjum til, að ríkið láti þessa fjármuni af hendi til togarakaupa. Við höfum ekki á þessu stigi málsins farið frekar út í það, hvernig að þeim tekjum verði staðið, því að það er okkur öllum ljóst, að fleiri en ein leið er þar til og það er ekki það, sem við erum að berjast um, heldur hitt, að staðið verði fyrir því, að togarar verði keyptir til landsins. Við höfum einnig gert ráð fyrir því í þessum till. okkar, að fé verði varið til þess að halda uppi vinnu fyrir skólafólk í landinu á vegum atvinnumálanefndar ríkisins. Var lánuð allnokkur fjárhæð á yfirstandandi ári sveitarfélögum gegn jafnháu framlagi frá þeim og við gerum ráð fyrir því, að sami háttur verði á hafður. Þá höfum við einnig gert ráð fyrir því í þessum till. okkar, að þeir, sem njóta launagreiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins, fái nokkra hækkun á þeim vegna aukinnar dýrtíðar. Enn fremur er lánsheimild vegna byggingar íbúðarhúsa.

Ég hef þá í máli mínu hér að framan skýrt þau aðalatriði, sem ég vildi koma að í sambandi við þetta fjárlagafrv. En að lokum vil ég, herra forseti, benda á þetta, sem niðurstöðu af því, sem ég hef hér sagt: Í fyrsta lagi: viðreisnarstefnan hefur gengið sér til húðar, það sannar getuleysi ríkissjóðs og hallarekstur hans, sem er þrátt fyrir hækkun fjárl. og gífurlegar umframtekjur, sem verið hafa undanfarandi ár og að fjármögnun verklegra framkvæmda er gerð með lánsfé. Því aðeins verður hægt að koma ríkissjóði út úr fjármálakreppu þeirri, sem hann er nú í, að breytt verði um stefnu, þar sem skipulag og félagshyggja stjórni aðgerðum og forysta í atvinnumálum ráði ferðinni. Með þeirri stefnu getur ríkissjóður aftur farið að valda verkefnum sínum og hafa þau áhrif í málefnum þjóðfélagsins, sem nauðsyn ber til að hann hafi.