17.11.1969
Neðri deild: 15. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 576 í B-deild Alþingistíðinda. (600)

16. mál, æskulýðsmál

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Frv. um æskulýðsmál hefur verið fyrir Alþ. nokkrum sinnum undanfarin ár. Menntmrh. skipaði 1963 n. til þess að semja frv. um þessi mál. Frv. var lagt fyrir Alþ. 1967–1968, en náði ekki afgreiðslu. Málið var tekið upp aftur sem þmfrv. í óbreyttu formi á þinginu 1968–1969, en hlaut þá heldur ekki afgreiðslu. Menntmrh. hefur nú flutt þetta frv. á nýjan leik, en gert á því nokkrar breytingar frá því, sem áður var.

Þegar frv. var í fyrsta skipti fyrir þessari hv. d., var það mjög ítarlega athugað af menntmn. og mun hafa orðið samkomulag með nm. um að stuðla að ýmsum breytingum á frv. Menntmrh. hefur nú látið endurskoða frv., m.a. með tilliti til þeirra breytinga, sem augljóst virtist, að þessi d. mundi óska eftir.

Menntmn. hefur nú fengið málið enn einu sinni til meðferðar og hefur n. rætt frv. og fengið á sinn fund fulltrúa frá Æskulýðssambandi Íslands og formann þeirrar n., sem upphaflega samdi frv. Eftir þær viðræður hefur n. orðið sammála um að leggja til þrjár breytingar við frv., eins og það nú liggur fyrir. Brtt. þessar er að finna á þskj. 100.

1. brtt. er við 2. gr., sem fjallar um Æskulýðsráð ríkisins og skipan þess. Í frv. segir, að skipunartími skuli vera 3 ár, en samkvæmt ábendingu frá stjórnendum Æskulýðssambands Íslands leggur menntmn. til, að þarna komi 2 ár, og er það í samræmi við venjulegan kjörtíma stjórna hjá þeim samtökum, sem eiga að standa að Æskulýðsráði. Virðist augljóst, að það sé hyggilegt að hafa þarna samræmi á milli.

2. brtt. er við 4. gr. frv., en hún fjallar um skipan æskulýðsfulltrúa ríkisins. Þetta er vafalaust mikilsverðasta gr. frv., og verður að líta svo á, að með því að setja ákveðinn starfskraft til að samhæfa æskulýðsstarfsemi áhugasamtaka og styrkja þau, stígi ríkið raunhæft skref í þessum málum. Samkvæmt frv. er gert ráð fyrir að skipa æskulýðsfulltrúa ríkisins að fengnum till. Æskulýðsráðs ríkisins, og skulu laun hans greiðast úr ríkissjóði samkvæmt hinu almenna launakerfi ríkisstarfsmanna. Þarna er gert ráð fyrir, að æskulýðsfulltrúi verði opinber starfsmaður á venjulegan hátt.

En sú hugmynd kom fram í n. og hlaut stuðning þeirra, sem n. ræddi við um frv., að einmitt í málefnum æskulýðsins mætti búast við miklum breytingum á verkefnum og vandamálum, breytingum á hugsunarhætti og áhugamálum unga fólksins, en þess vegna væri ástæða til að ráða æskulýðsfulltrúa aðeins um ákveðið árabil. Menntmn. hefur fallizt á þetta sjónarmið og telur það eiga við einmitt um þetta embætti jafnvel frekar en önnur, og hefur þetta vandamál þó verið rætt á ýmsum öðrum sviðum. N. leggur því til, að menntmrh. skuli ráða æskulýðsfulltrúa til 5 ára í senn að fengnum till. Æskulýðsráðs ríkisins, og greiðist laun hans úr ríkissjóði.

3. brtt. er við 9. gr. Þar er talað um aðra starfsemi í þágu æskufólks en greint er frá í 6.–8. gr. og stuðning við þá starfsemi. Greinin hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Heimilt skal að styðja einstök verkefni í þágu æskufólks, þ. á m. nýjungar og tilraunir í æskulýðsstarfi svo og ráðstafanir, sem miða að lausn sérstakra æskulýðsvandamála, er skapast kunna.“ Lagt er til, að þarna verði bætt við: „enn fremur til námskeiða og annars fræðslustarfs einstakra samtaka.“

Í sambandi við þetta mál var rætt um það í n., hvort æskulýðsfulltrúi væri líklegur til að reyna að sópa í fang opinberrar skrifstofu verkefnum æskulýðssamtaka. Það er skoðun okkar, að það eigi ekki að gerast, heldur eigi æskulýðsfulltrúinn fyrst og fremst að styðja samtökin, en starfið sjálft verði eins og hingað til í höndum samtaka æskumanna og áhugamanna um æskulýðsmál, eins og gerð er grein fyrir hér í 1. gr. Með því að heimila, að styðja megi námskeið og fræðslustarf einstakra samtaka, er undirstrikað, að Æskulýðsráð og æskulýðsfulltrúi eigi, þegar þess er kostur, að styðja þau samtök, sem til eru í landinu, til að vinna hin ýmsu verkefni frekar en að vinna þau sjálf á sínum vegum.

Herra forseti. Menntmn. lýsir einróma stuðningi við frv. og óskar þess, að það nái fram að ganga á þessu þingi með þessum þremur breyt., sem ég nú hef lýst.