13.01.1970
Efri deild: 33. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 580 í B-deild Alþingistíðinda. (612)

137. mál, verslun með ópíum o.fl.

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Á síðari hluta þingsins 1967–1968 voru gerðar hér á þinginu breyt. á l. um verzlun með ópíum og meðferð á ópíum og fleiri skyldra lyfja, sem voru frá 1923. Einnig hafa síðar verið gefin út l. um eiturefni sérstaklega. Það hefur komið í ljós, að ástæða þykir til að gera breyt. á l. um tilbúning og verzlun með ópíum, þar sem það kemur m.a. í ljós, sem telja má, að kannski hafi verið vangá við endurskoðunina, að þar er ekkert ákvæði um bann við vörzlu eða meðferð lyfja þeirra og efna, sem l. taka til eða úrskurða má að falla skuli undir ákvæði l. og eru ólöglega flutt inn, eða jafnvel kannske framleidd hér á landi. Ekki hafa þessi l. heldur ákvæði um upptöku slíks varnings eða ágóða af verzlun með hann.

En síðan þessi l. voru sett, var gefin út reglugerð, að mig minnir um miðjan nóvembermánuð s.l., þar sem tekin voru, eða felld undir, eins og l. gerðu ráð fyrir að gera mætti með reglugerð, fleiri lyf og efni af skyldri tegund, svo sem hass, LSD og önnur slík lyf, sem hv. þm. eru kunn og hafa valdið allmiklum umræðum og áhyggjum um meðferð þeirra í nágrannalöndum okkar og að sumu leyti hjá okkur, þótt segja megi, að tæpast horfi til stórvandræða, en um innflutning þeirra hefur verið haft samráð, bæði milli löggæzlu, dómsmrn. og tollgæzlunnar á undanförnum tímum. Einnig hefur verið haft eftirlit eða statistik haldin yfir ávísanir á slík efni, sem til lyfja eru talin, til þess að fylgjast með notkun þeirra og þá hugsanlegri ofnotkun hér á landi.

Það má segja, að það sé mál út af fyrir sig, og hér í Sþ. liggur fyrirspurn um þau mál sérstaklega og vanalyf, sem svo hafa kallazt, eða ávanalyf réttara sagt, og hvaða meðferð þau hafi sætt og hvaða varúðarráðstafanir hafi verið gerðar. Sú fsp. liggur fyrir til heilbrmrh., sem mun svara þeirri fsp., þegar þar að kemur, og gera nánar grein fyrir því einnig í Sþ.

En meginefni þessarar till. er að setja strangari ákvæði um meðferð á ópíum og öllum þeim skyldu efnum, sem undir þessi l. falla, í fyrsta sinn, og í öðru lagi að herða mjög refsiákvæði l., sem telja má úrelt. Það er lagt til hér, að þau séu mjög mikið hert, og það er nýmæli, að lögð er fangelsisrefsing við stórfelldum brotum á þessum l. og hámarkstíminn 6 ár. Það er skilgreint í l., hvað stórfelld brot eru, og þessi þungu viðurlög eru í samræmi við svipaðar reglur, sem gilda í nágrannalöndum okkar. Ég held, að ég þurfi ekki á þessu stigi málsins að skýra þetta frv. frekar heldur en þessa tvo meginþætti, sem í þeim felast og talið hefur verið af þeim sérfræðingum, sem um þau mál fjalla, að nauðsynlegt væri að bæta inn í l. samhliða ýmsum öðrum ráðstöfunum, sem gerðar hafa verið og er verið að gera í framkvæmd í sambandi við lyf eða efni af svipuðum uppruna getum við sagt.

Ég vil leyfa mér að leggja til, herra forseti, að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og til hv. heilbr.- og félmn.

Ég get nú lagt það í raun og veru á vald forseta að úrskurða um það, hversu löggjafarmálefni, sem þetta frv. er í miklu ríkara mæli, herðing á refsingum og eftirlit með þeim, fer, en ef það væri ekki heilbrigðismálan., eins og sennilega eftir eðli málsins, væri réttara, að málið færi til hv. allshn.