21.10.1969
Neðri deild: 4. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 584 í B-deild Alþingistíðinda. (629)

14. mál, gagnfræðanám

Menntmrh:

(Gylfi Þ. Gíslason): Herra forseti. Þetta frv. er til staðfestingar á brbl., sem út voru gefin 27. ágúst s.l. Efni I. er það, að með þeim er heimilað með leyfi menntmrn. að stofna til allt að tveggja ára framhaldsdeilda við gagnfræðaskóla, er taki við nemendum að loknu gagnfræðaprófi eða landsprófi miðskóla samkv. nánari ákvæðum, sem sett verði í reglugerð. Jafnframt er kveðið svo á, að kostnaður við þessar deildir skuli greiddur af ríki og sveitarfélögum í samræmi við lög nr. 49 1967 um skólakostnað.

Skólarannsóknir menntmrn. hafa undanfarin ár athugað möguleika á fjölgun námsbrauta fyrir gagnfræðinga og landsprófsmenn. Á undanförnum árum hefur komið í ljós vaxandi áhugi gagnfræðinga á framhaldsnámi. Þar til nýju kennaraskólal. voru sett fyrir nokkrum árum, áttu gagnfræðingar ekki völ á neins konar framhaldsnámi að loknu gagnfræðaprófi. En í hinum nýju lögum um Kennaraskólann voru sett ákvæði um það, að auk landsprófsmanna skyldu gagnfræðingar með vissum skilyrðum eiga aðgang að Kennaraskólanum. Reynslan varð sú, að í Kennaraskólann sóttu fleiri nemendur, bæði landsprófsmenn og þó einkum gagnfræðingar, en forráðamenn Kennaraskólans og kennarasamtök töldu nauðsynlegt vegna kennaraþarfar.

Landsprófsmenn hafa fram að þessu fyrst og fremst átt um tvær aðalnámsbrautir að ræða til framhaldsnáms, þ.e.a.s. menntaskóla og Kennaraskóla auk hins tiltölulega nýja Tækniskóla Íslands með vissum skilyrðum. Það hefur því verið ljóst um nokkurt skeið, að nauðsyn væri á því að fjölga mögulegum námsbrautum fyrir gagnfræðinga og landsprófsmenn. Þær athuganir hafa skólarannsóknir menntmrn. haft með höndum. S.l. sumar var athugun skólarannsóknanna svo langt komin, að rétt þótti að láta kanna hugmyndir skólarannsóknanna í n., þar sem fulltrúar helztu skólastiga og embættismenn, sem málið snerti, ættu sæti.

Hinn 4. júlí s.l. skipaði menntmrn. þess vegna n. til þess, eins og sagði í erindisbréfinu, að gera till. um, með hvaða hætti sé nú þegar í haust hægt að opna þeim, sem staðizt hafa landspróf og gagnfræðapróf, fleiri námsleiðir en þeir eiga nú kost á. Var forstöðumaður skólarannsókna, Andri Ísaksson, skipaður formaður n., en aðrir nm. voru fræðslumálastjóri, Helgi Elíasson, skólastjóri Kennaraskólans, dr. Broddi Jóhannesson, skólastjóri Tækniskóla Íslands, Bjarni Kristjánsson, skólastjóri Iðnskólans, Þór Sandholt, og formaður Skólastjórafélags gagnfræðaskólanna, Ólafur Þ. Kristjánsson skólastjóri.

N. skilaði einróma áliti hinn 15. ágúst. Var álitið þá þegar kynnt sveitarstjórnum og kannað, hvort þær og þá hvaða sveitarstjórnir hefðu áhuga á því þegar í haust að stofna til framhaldsdeilda samkv. þeim grundvallarhugmyndum, sem fram komu í áliti þessarar n., sem venjulega hefur verið kölluð námsbrautanefnd. Urðu undirtektir mjög jákvæðar mjög víða um landið, auk þess sem þær hugmyndir, sem fram voru settar um þetta nýja framhaldsnám, hlutu mjög eindreginn stuðning allra þeirra kennarasamtaka, sem létu til sín heyra um málið. Reynslan hefur orðið sú, að nú í haust hafa framhaldsdeildir farið af stað í Reykjavík, á Akranesi, á Akureyri og í Neskaupstað. Ráðagerðir voru uppi um framhaldsdeildir í Hafnarfirði, Kópavogi og Selfossi eða Hveragerði, en af því varð ekki að þessu sinni. Má hins vegar fullvíst telja, að samhliða aukningu framhaldsdeildanna á þeim stöðum, þar sem þær nú starfa, muni þessir staðir a.m.k. efna til þessa framhaldsnáms á næsta hausti og án efa fleiri staðir, þegar meiri tími hefur fengizt til undirbúnings.

Þetta framhaldsnám er þannig skipulagt eða ráðgert, að um er að ræða kjarna í náminu, þ.e.a.s. sameiginlega kennslu fyrir alla nemendur og í öðru lagi kjörsvið, fjögur talsins, þ.e.a.s. uppeldiskjörsvið, hjúkrunarkjörsvið, tæknikjörsvið og viðskiptakjörsvið, og síðan kennslu á sjálfsvaldi skólans. Með þessari tilhögun á námsefni hinna nýju framhaldsdeilda er reynt að haga málum út frá þeim sjónarmiðum, sem nú eru efst á baugi í skipulagi framhaldsskóla í þeim löndum, sem lengst eru komin í þessum efnum. Grundvallarhugsunin er sú að hafa annars vegar fastan kjarna, sem sé sameiginlegur öllu náminu, og hins vegar sem frjálsast val á námsgreinum fyrir nemendurna, þannig að hæfileikar þeirra fái að njóta sín sem bezt. Í þriðja lagi er um að ræða nokkurt nám, sem sé á sjálfsvaldi skólanna, en ekki skipulagt af hálfu fræðsluyfirvalda. Er nánari grein gerð fyrir þessum hugmyndum öllum og till. þeirrar n., sem ég nefndi, í ítarlegu nál., sem ég gerði í morgun ráðstafanir til, að menntmnm. beggja hv. þd. fengju til athugunar í sambandi við meðferð málsins í þinginu. Ef aðrir hv. þm. hafa áhuga á nál., er það til reiðu í menntmrn.

Í þeim fjórum framhaldsdeildum, sem fóru af stað þegar á þessu hausti, eru nemendur sem hér segir: í Reykjavík eru alls 120 nemendur í hinum nýju framhaldsdeildum, þar af 40 í tæknideild, 40 í viðskiptadeild, 20 í uppeldisdeild og 20 í hjúkrunardeild. Á Akranesi eru 15 nemendur í deildinni og allir í tæknideild. Á Akureyri eru 8 nemendur í tæknideild og 9 í viðskiptadeild eða samtals 17. Í Neskaupstað eru 14 nemendur, þar af 5 í viðskiptadeild, en 29 í uppeldisdeild. Það er því augljóst af þessu, að flestir nemendur hafa lýst áhuga á tækninámi, þ.e.a.s. sótt tæknideildina, 77 af 166. Næst flestir hafa reynzt hafa áhuga á viðskiptanáminu eða viðskiptadeildinni eða 54 af 166 en 20 í uppeldisdeild og hjúkrunardeild hvorri um sig. Í Reykjavík eru starfræktir 5 bekkir, er fá sameiginlega kennslu í námskjarna, en skipt er í 6 deildir á kjörsviði, þar sem tvískipta þarf í tæknideild og viðskiptadeild. Á landinu öllu eru því alls 9 bekkir, en 12 deildir á kjörsviði.

Skylt þessu, má segja, að sé það, að áfram verður rekinn 1. bekkur menntaskóla á Ísafirði, eins og verið hefur um allmörg undanfarin ár, og verða þar nú í vetur 14 nemendur. En eins og hv. alþm. er án efa kunnugt, hefur þegar verið ákveðið, að menntaskóli taki til starfa á Ísafirði þegar á næsta ári, þannig að þá verður ekki aðeins um 1. bekk að ræða eins og í vetur, heldur um tvo bekki og síðan áframhaldandi bekkjafjölda, þar til fullskipun menntaskóla á Ísafirði er náð.

Ég vona, að þessi inngangsorð mín dugi til þess að skýra kjarna þess máls, sem hér er um að ræða. Ég er þeirrar skoðunar og held, að það sé sammæli þeirra skólamanna, sem þetta hafa kynnt sér, að hér hafi verið um bráðnauðsynlega viðbót og endurbót á íslenzku skólakerfi að ræða. Ég legg áherzlu á, að hér er um byrjunarspor að ræða. Starfsemin í vetur verður að mörgu leyti tilraunastarfsemi, sem af verður að læra við nýja viðbótarbekki á næsta ári og við framhald þess bekks, sem nú hóf þetta nýja starf á þessu ári. Engar endanlegar ákvarðanir hafa verið teknar um það, í hvaða formi þetta viðbótarnám skuli vera, og þar á ýmislegt eflaust eftir að standa til bóta, en mikilsvert er, að fyrstu sporin hafa verið stigin og jafnmikilsvert að kunna að læra af þessum fyrstu sporum.

Að svo mæltu leyfi ég mér, herra forseti, að óska þess, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.