05.03.1970
Neðri deild: 55. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 588 í B-deild Alþingistíðinda. (633)

14. mál, gagnfræðanám

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Eins og hv. frsm. menntmn. hefur tekið fram, þá er alger samstaða í menntmn. um aðalefni þessa frv. Hins vegar er, eins og hann nefndi, ágreiningur um aðeins eitt atriði, það er um greiðslu kostnaðarins af þessum framhaldsdeildum.

Í brbl. þeim, sem hér eru til umr. og lagt er til að samþ. verði, er það ákvæði, eins og hv. frsm. nefndi, að kostnaður af þessum framhaldsdeildum greiðist af ríki og sveitarfélögum í samræmi við skólakostnaðarl. frá 1967. Við 3 nm. teljum, að þetta brjóti í bága við þær reglur, sem hafa gilt og gilda enn um kostnað af framhaldsnámi, og höfum því flutt brtt. á þskj. 305 þess efnis, að kostnaður við framhaldsdeildir skuli greiddur úr ríkissjóði. Reglan er þessi, eins og hv. þm. er sjálfsagt kunn, að ríki og sveitarfélög greiða sameiginlega kostnað af öllu skólahaldi skyldunámsins og gagnfræðastigsins og hliðstæðum skólum. En þegar kemur til framhaldsnáms umfram þetta, greiðir ríkið allan kostnað af skólahaldi í landinu. Hér er því um það að ræða, hvers konar nám þessar framhaldsdeildir eru. Við lítum svo á þetta nám, þó að það fari fram í gagnfræðaskólum, að hér sé algerlega um framhaldsnám að ræða, hliðstætt því, sem er í öðrum framhaldsskólum, þ. á m. í menntaskólunum. Þetta staðfestir álitsgerð mþn. sem samdi þetta frv., að hér er um sams konar nám að ræða, því að í nál. hennar segir, að nemendur, sem staðizt hafa 1. árs próf í þessum framhaldsdeildum, skuli að fullnægðum ákveðnum skilyrðum hafa rétt til að setjast í 2. bekk menntaskóla. Auk þess segir, að nemendur, sem staðizt hafa 2. árs próf þessara framhaldsdeilda skuli hafa að fullnægðum ákveðnum skilyrðum rétt til að setjast í 3. bekk menntaskóla. Þetta nám er því algerlega hliðstætt fyrsta og annars bekkjar menntaskólanámi, og ríkið kostar alla menntaskóla. Við lítum því þannig á, að hér sé algerlega um hliðstæða skóla að ræða og hliðstætt nám og fram fer í þeim skólum landsins, sem ríkið kostar að öllu leyti. Þess vegna leggjum við til, að kostnaður af framhaldsdeildunum greiðist af ríkinu.

Eins og hv. frsm. n. hefur tekið fram, þá hefur Samband ísl. sveitarfélaga andmælt þessu ákvæði l. og auðvitað með sömu rökum. Hv. frsm. gat þess og meiri hl. n. lítur svo á, að það verði að treysta því, að þessi l. verði endurskoðuð eftir 1–2 ár. Við getum náttúrlega ekkert um það fullyrt, hvenær þessi l. kunna að verða endurskoðuð, og þó að þetta ákvæði væri á þá leið, er við þremenningarnir leggjum til, þá kemur sú endurskoðun alveg að sama gagni, ef hún fer þá fram í náinni framtíð.

Þá bárust menntmn. upplýsingar um, að það hafa farið fram samningaumleitanir eða jafnvel samningar verið gerðir milli Reykjavíkurborgar og ríkisins um kostnað af þeim framhaldsdeildum, sem stofnaðar voru hér í Reykjavík í haust, sem leið, og jafnframt var okkur tjáð, að sams konar samningum eigi þau bæjarfélög kost á að sjálfsögðu, sem hafa fengið framhaldsdeildir hjá sér. Ekki þarf að efast um, að það verður eitt og hið sama látið ganga yfir þau bæjarfélög, sem þessar framhaldsdeildir hafa.

En hvers vegna eiga þessir samningar sér stað? Hvað þarf að vera að semja um kostnað af framhaldsdeildum, sem brbl. segja, að skuli greiðast eftir ákvæðum skólakostnaðarl.? Ég sé ekki, um hvað á að fara að semja þá. Samt er þetta staðreynd. Það þarf að semja um þetta. Reykjavíkurborg hefur ekki viljað sætta sig við ákvæði frv. Þess vegna hefur komið til samninga. Að öðru leyti er mér ekki kunnugt um, hvernig þessir samningar kunna að vera, en þetta sýnir, að það er á veikum grunni þetta ákvæði í frv., eða í brbl. Væri ekki rétt að hafa það á þá leið, sem við þremenningarnir leggjum til?

Annars held ég, að þetta atriði málsins, kostnaðurinn af þessum framhaldsdeildum, sé ekki svo mikið fjárhagslegt atriði fyrir ríkissjóð. Ríkissjóður greiðir kennslukostnaðinn hvort sem er. Ég held, að þetta sé smávægilegt atriði fyrir hann, en sé óviðfelldið að brjóta hina gömlu reglu og koma kostnaðinum yfir á sveitarfélögin, því að ég er ósköp hræddur um það, að ef þetta verður gert í þetta sinn, þá verði síðar færzt upp á skaftið og fleiri skólar verði færðir inn á þessa sömu braut, að láta ríki og sveitarfélög kosta þau sameiginlega.

Það er aðeins af þessum ástæðum, sem við leggjum til, að þessi breyt. verði gerð á brbl., sem við flytjum brtt. um á þskj. 305, en ég endurtek það, að um meginefni þessa frv. erum við, þessir þremenningar, alveg sammála öðrum í menntmn. um að styðja framgang þessa máls og greiðum að sjálfsögðu atkv. með frv., hvernig sem kann að fara um þessa brtt. okkar.