09.12.1969
Sameinað þing: 21. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 145 í B-deild Alþingistíðinda. (65)

1. mál, fjárlög 1970

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að ræða það fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir, í heild, enda hafa fjvn.–menn minni hl. dregið glöggt fram megin einkenni þess, svo glöggt, að ég hef engu þar við að bæta. En ég vil í tilefni af meðferð þessa máls láta í ljós furðu mína yfir því, að það skuli ekki hafa tekizt hjá hæstv. ríkisstj. í tæka tíð að reikna út þá tollalækkun, sem fyrirsjáanlega leiðir af inngöngu Íslands í Fríverzlunarsamtök Evrópu. Ég hlýt að verða að gagnrýna þau vinnubrögð, ég vil segja það tómlæti og andvaraleysi, sem lýsir sér í því að hafa ráðgert . . . (Gripið fram í.) Ég kem að því, hvað ég á við með þessu. Það hefur verið yfirlýst stefna ríkisstj. í marga mánuði, að við skyldum tengjast þessu bandalagi og vitað mál, að til þess að svo geti orðið verður strax í upphafi, strax í marz að fara fram 30% tollalækkun á varningi, sem fluttur er til landsins frá þessum löndum að minnsta kosti. Ég álít, að þetta dæmi hefði átt að vera búið að reikna, þegar fjárlagafrv. var lagt fram og að minnsta kosti, þegar frv. fer til 2. umr. og þegar aðalatkvæðagreiðsla um það á að fara fram, en það skilst mér að sé á morgun. Því hefur verið lýst yfir jafnframt, síðast nú í þessum umr., að það tekjutap, sem fyrirsjáanlegt er fyrir ríkissjóð af þessum ráðstöfunum, verði unnið upp með hækkun söluskatts. Það er augljóst, að slík kollsteypa í innheimtu ríkisteknanna, eins og þessi breyting verður, þegar hún er komin í kring og verður talsverð strax, en mjög mikil, þegar allt er um garð gengið, hún hlýtur að setja mjög mikil mörk sín á okkar þjóðfélag. Hér í þessari umr. hafa verið birtar glöggar tölur um það, hvernig afkoma launafólks hlýtur að vera, miðað við verðlag og kaupgjald í landinu. Sá samanburður laut að vísu aðeins að tryggingabótum, en ég hygg, að í Tímanum fyrir nokkrum dögum hafi verið gerður svipaður samanburður hvað varðar launatekjur annars vegar og ýmsa kostnaðarliði hins vegar. Nú liggur það að mínum dómi alveg ljóst fyrir, ja, það hefur að minnsta kosti ekki annað komið fram enn, að þær breytingar í innheimtu ríkistekna, sem ráðgerðar eru, hljóti enn að auka á þennan mun og gera þessa aðstöðu fólksins að miklum mun erfiðari. Og ætlar Alþ. ekki að hafa áhrif á þessa þróun, eða kemur það ekki fjárlögunum við?

Form. fjvn. sagði hér í ræðu sinni áðan, að, að hans dómi og væntanlega hæstv. ríkisstj. einnig væri ekki unnt að afgreiða fjárl. með greiðsluhalla, en sagði jafnframt, að aukin fjáröflun hlyti að bíða eftir frv. ríkisstj. um söluskatt og svipuð ummæli skilst mér, að hæstv. fjmrh. hafi viðhaft hér í ræðu í dag, sem ég gat því miður ekki hlýtt á. En þetta ber þá svo að skilja, að bæði tollatapið eigi að vinna upp með söluskatti og auk þess þann skakka, sem er á fjárlagafrv. eins og það nú er, eftir að fjvn. hefur skilað því til 2. umr. Það þýðir m.ö.o. það, að í tilefni af þessari breytingu ætlar ríkissjóður að innheimta meiri tekjur, en hann lætur. Þetta þýðir þá það, að erlendur fatnaður og ýmiss konar varningur, sem álitinn hefur verið óþarfari heldur en margt annað og tollaður hærra vegna þess, hann á að lækka, en matvælin og aðrar nauðsynjar eiga að hækka, ekki bara sem nemur tollalækkunum heldur líka þeim mismun, sem orðinn er á fjárlagafrv. Á þá nýja þjóðfélagið að vera svona? Ég hygg, að margur spyrji þeirrar spurningar. En ef það á ekki að vera svona, eða nýja þjóðfélagið á ekki að miðast við það, að ríkistekjurnar innheimtist fyrst og fremst af lífsnauðsynjum fólksins, þá sýnist mér, að þrennt komi til greina. Í fyrsta lagi

að hafa söluskattinn mismunandi, – er það ráðgert? Í öðru lagi: Á að undanþiggja ýmsa vöruflokka nýja söluskattinum eða kannske öllum söluskattinum eða í þriðja lagi, á að bera uppi þennan mismun með auknum bótum úr almannatryggingum? Ég held, að alþm. þurfi að vita þetta áður, en að þeir greiða atkvæði um fjárl., jafnvel þó við 2. umr. sé. Og fyrr en þetta liggur fyrir, tel ég, að Alþ. viti ekki, hvaða fjárl. það er að samþykkja.

Ég tel vera komið alveg nóg af því, að alls konar ráðstafanir séu gerðar án þess að Alþ. komi þar nærri. Og ég held, að það væri skynsamlegri stefna og raunar sjálfsögð og sú stefna, sem alltaf hefði átt að vera viðhöfð, að fjárveitingar og fjármagnsgreiðslur úr ríkissjóði færu um hendur Alþ. og væru skv. ákvörðunum þess, en ekki eins og tíðkazt hefur upp á síðkastið í vaxandi mæli, að mál eru látin óafgreidd, þingi slitið eða frestað og þá farið að taka ákvörðun um stórfelldar greiðslur úr ríkissjóði án þess að Alþ. komi þar nokkurs staðar að og hafi nokkuð um það að segja. Ég geri alveg ráð fyrir því, að svar við þessum athugasemdum sé það, að þetta verði allt saman klárt við 3. umr. Nú, það er náttúrlega betra en ekki, en ég hlýt að endurtaka það, sem ég sagði áðan, að ég tel það óskiljanlegan undirbúning á fjárl. að ætla sér það vitandi vits að ganga til svo stórfelldra breytinga og hafa ekki tilbúinn útreikning á því, hvað það kosti og hafa ekki tilbúna útreikninga á því, hvernig eigi að bera það uppi. Eftir hverju var beðið? Var beðið eftir því, að Alþ. samþykkti þáltill.? Ef það er, þá spyr ég: Verður það búið, þegar fjárlög verða afgreidd, eða er einhver beygur í ríkisstj.–mönnum um það, að kannske nái till. ekki fram að ganga? Ef svo er, þá mætti kannske segja, að vinnubrögðin væru skiljanleg.

En eins og ég sagði hér í upphafi þessa stutta máls, þá ætlaði ég ekki að taka þátt í almennum umr. um fjárl., en ég tel, að þessar athugasemdir megi koma fram. Það hefur verið mín skoðun, að allir liðir fjárl. eigi að liggja fyrir, sem allra flestir a.m.k., þegar við 2. umr., þegar aðal atkvgr. um málið fer fram og a.m.k. svo stórfelldar breytingar eins og þær, sem hér um ræðir. En ég hef á þskj. 158 flutt eina litla brtt. og ég ætla, herra forseti, að leyfa mér að gera í mjög stuttu máli grein fyrir henni.

Með l. frá 19. maí 1964 um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra var gæzluvistarsjóði ákveðið árlegt framlag 7 1/2 millj. kr. af tekjum Áfengisverzlunar ríkisins af áfengissölu. Árið 1964, þegar þessi l. voru sett, þá nam þetta framlag um það bil 2.3% af þessum gjaldstofni, tekjum áfengisverzlunarinnar. Sjóðurinn fær nú enn þá þessar 7 1/2 millj. kr. á ári af tekjum áfengisverzlunarinnar, en tekjustofninn hefur hækkað úr 320 millj. kr. í 580 millj. kr. á árinu 1968 og þessi tekjustofn er ráðgerður í fjárlagafrv. því, sem hér liggur fyrir, 812 millj. kr. En enn þá á gæzluvistarsjóðurinn að fá 7 1/2 millj. kr. Framlagið á næsta ári nemur þá 0.9% af áætluðum tekjum áfengisverzlunarinnar og ég get þess hér í leiðinni, að ef hins vegar sama prósenta gilti um framlagið á næsta ári eins og gilti 1964, þegar framlagið var fyrst upp tekið, þá ætti þessi sjóður að fá 18 millj. 676 þús. kr. á næsta ári. Ég hygg, að það sé ekki fjarri lagi, að hér sé mestmegnis um dýrtíðaraukningu að ræða, ef þetta ætti að haldast í hendur, þá vantar gæzluvistarsjóð 11 millj. kr. á næsta ári til þess að vera jafnvel settur og hann var, þegar l. um hann voru sett. Ég veit, að öllum hv. þm. eru kunnug verkefni þessa sjóðs, ég þarf ekki að eyða mörgum orðum að því að lýsa því, en það er fyrst og fremst að reisa og reka hæli fyrir drykkjusjúklinga. Þessi mál hafa það mikið verið rædd hér á hv. Alþ., að ég skal stytta mál mitt mjög um það, en ég vil þá aðeins minna á, að á síðasta þingi flutti ég ásamt hv. 4. þm. Sunnl., Birni Fr. Björnssyni, frv. til l. í Ed., þar sem gert var ráð fyrir því, að gæzluvistarsjóður fengi framvegis 2 1/2 af tekjum áfengisverzlunarinnar, sem mundu þá vera á næsta ári 20 millj. kr.

Þetta frv. hlaut enga afgreiðslu í Ed., því var vísað til n. og þaðan kom það aldrei. Ég ætla nú að spara mér alla gagnrýni á þau vinnubrögð nú, af því að tíminn er naumur, en vitanlega eru slík vinnubrögð algerlega fráleit og lýsa því tómlæti, sem maður skyldi ekki trúa að óreyndu, að væri fyrir hendi á Alþingi Íslendinga í þessum málum og málefnum þeirra manna, sem þarna eiga um sárt að binda og góðs af að njóta. Ekki bara sjúklinganna sjálfra, heldur ekki síður þess fólks, sem þeim stendur næst og býr við þetta böl, sem ég geri ekki tilraun til þess að lýsa með orðum.

Á s.l. vetri var talsverð hreyfing á málefnum þessara umkomuleysingja, ég hygg, að þá hreyfingu megi að nokkru leyti a.m.k. rekja til umræðna, sem fram fóru í borgarstjórn Rvíkur þá um þessi mál. Í þeim umr. tóku þátt fulltrúar allra flokka, sem þar eiga sæti og talsmenn þessara flokka, læknar, sálfræðingar, prestar og kennarar auk annarra voru á einu máli um það, að þessi mál mættu ekki lengur bíða og þau fáheyrðu tíðindi, vil ég segja, gerðust, að allir flokkar í borgarstj. Rvíkur sameinuðust í tillögugerð, þar sem gert var ráð fyrir því, að félagsmálaráði borgarinnar væri falin sérstök framkvæmd þessa máls og m.a. yrðu teknir upp samningar við hæstv. ríkisstj. um það að bæta úr þessu ástandi, og ég fékk þau svör, þegar ég gekk eftir afgreiðslu á því frv., sem ég minntist hér á áðan, að það væri ekki talið heppilegt að breyta lögunum, en það mundu verða gerðar aðrar ráðstafanir, sem að gagni mættu koma í þessu efni. Og ég hygg, að félagsmálaráð borgarinnar eða fulltrúar þess hafi líka gengið á fund ríkisstj. og fengið nokkra áheyrn, a.m.k. rámar mig í það að hafa lesið það í Morgunblaðinu, að vel hefði verið undir málaleitanina tekið og það mundu verða gerðar verulegar ráðstafanir, eftir því sem skilja mátti, til þess að laga þetta ástand. Nú, svo kemur fjárlagafrv. fyrir almannasjónir og vissulega er það rétt að hæstv. ríkisstj. hefur fengið einhverja bakþanka af því að kannske væri nú ekki alveg nægjanlega fyrir þessum málum séð, því að til viðbótar við 7 1/2 millj. úr gæzluvistarsjóði hefur verið látið af hendi rakna, eftir því sem athugasemdir segja, þó að mér sýnist nú tölur benda til annars, 1 1/2 millj. kr. til aukinna byggingarframkvæmda í þessum þýðingarmiklu sjúkrahúsmálum. Ég tel þetta algjörlega ófullnægjandi afgreiðslu og ég er alveg sannfærður um það, að það var ekki þessi meðferð, sem borgarstjórnin í Reykjavík ætlaðist til, að málaleitan félagsmálaráðs fengi hjá hæstv. ríkisstj. Vissulega skiptir það engu máli, hvort fjármagnið er fyrst flutt í ríkissjóð og síðan þaðan til gæzluvistarsjóðs, eða hvort farið væri að þeirri leið, sem upphaflega var ráðgerð, að gæzluvistarsjóður fengi beint fjármagn sitt frá áfengisverzluninni, það skiptir engu máli, ég er ekki að ræða um það, heldur hitt, að ég tel þessa fjárhæð allt of litla og ég hygg, að reynslan verði sú, að hún geri lítið betur en að standa undir þeim heimilum, sem þegar eru rekin og kosta þau, en það er fyrst og fremst drykkjumannaheimilið í Gunnarsholti eða Akurhóli, sem ég hygg að það heiti. Ég var alltaf að vona það, meðan á meðferð fjvn. stóð á fjárlagafrv., að þá yrði nú munað eftir þessum lið, það yrði látið eitthvað meira af hendi rakna í þessu skyni heldur en raun bar vitni og ég talaði um það við flokksbræður mína í n., að þeir gleymdu ekki þessu. Ég hygg, að þeir hafi ekki gert það, en nú eru brtt. fjvn. komnar fram og þar er ekki varið neinu fjármagni í þessu skyni og engin till. um það gerð. Þess vegna vil ég nú ráðast í það, þó að ég sé ekki þeirrar skoðunar, að til mikils sé að flytja brtt. við fjárlagafrv. og ætli mér ekki að gera það, þá vil ég samt gera tilraun til þess að vekja á ný máls á þessu atriði og heyra það og sjá endanlega, hvort ekki sé einhver vilji fyrir hendi til þess að bæta aðstöðu þessa sjóðs, því að ef þetta verður látið óbreytt standa, þá verður ástandið í þessum málum eins og það er og versnandi, það er alveg víst. Ég held, að ekki þurfi verulegar fjárhæðir til þess að laga hér eitthvað til, ég sé jú það, að fjvn. hefur tekið til greina 50 þús. kr. hækkun til félagsins Vernd, sem er félag áhugamanna, sem starfar að þessum málum, það er gott, að þeir fá viðurkenningu, en þetta mál leysir ekki Vernd og þetta mál leysa ekki félög áhugamanna, þó að þau séu allra góðra gjalda verð. Áhugamenn hafa að vísu með nokkrum styrk ráðizt í það að reisa drykkjumannahæli í Víðinesi, þar er rekstur góður, mjög til fyrirmyndar og hælið alltaf fullt. Það getur tekið við 25 sjúklingum, það er langur biðlisti þar og sjáanlegt, að það getur ekki meira í bili a.m.k. Reykjavíkurborg hefur tekið gamla Farsóttahúsið til afnota fyrir drykkjumenn, sem hvergi eiga höfði sínu að, að halla. Það tekur á móti 10 mönnum á hverri nóttu, það er mannúðarstarfsemi, það er ekki sjúkrahús, þar er enginn læknir, sem þar getur komið til. Ég hygg, að allir séu út af fyrir sig ánægðir yfir því, að það heimili skuli hafa verið sett á stofn, en það breytir ekki því vandamáli, sem ég er hér að reyna að gera grein fyrir.

Ég skal ekki þreyta ykkur, hv. þm., á lengri ræðuhöldum um þetta, þó að vissulega mætti margt um þetta segja, meira heldur en ég hef gefið mér tíma til í þessari stuttu ræðu, en ég flyt þessa till. í trausti þess, að hv. þm. sjái það eins og ég, að þetta ástand getur ekki varað, það er til skammar fyrir þjóðfélagið að láta það vera eins og það er.

Ég ætla svo, herra forseti, að láta þessari ræðu lokið, ég mun gera tilraun til þess að fá atkvgr. um till. frestað, þannig að hún bíði til 3. umr. og það geri ég í þeirri einlægu von, að hv. fjvn., hæstv. ríkisstj. og allir, sem hér eiga hlut að máli, vilji koma til móts við þessa litlu málaleitan.