20.03.1970
Efri deild: 60. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 601 í B-deild Alþingistíðinda. (659)

118. mál, endurhæfing

Frsm. (Axel Jónsson):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. þessarar hv. d. hefur haft þetta frv. til athugunar, og eins og fram kemur á þskj. nr. 436, þá mælir n. með samþ. frv. með smávægilegri viðbót, sem er að finna á þskj. 437 við f-lið 3. gr. frv. Einstakir nm. áskilja sér rétt til að flytja brtt. eða fylgja brtt., sem fram kunna að koma.

N. sendi frv. til umsagnar allra þeirra aðila, sem gert er ráð fyrir, að skipi endurhæfingarráð samkvæmt 2. gr. frv., og fékk svar frá öllum aðilunum að undanteknum Alþýðusambandi Íslands og Læknafélagi Íslands, og mæltu þeir, sem umsagnir sendu, eindregið með framgangi málsins.

Hér á landi eru engin 1. um endurhæfingu fólks með skerta starfshæfni. Mikið og mikilvægt starf við slíka endurhæfingu er þó unnið í landinu, en á þessu sviði hefur frumkvæði og framtak verið hjá félagssamtökum, þó ekki sé hér um að ræða lögboðna aðstoð hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga. Við endurhæfingu hafa þessir aðilar styrkt þessa starfsemi í landinu beint eða óbeint. Í flestum þróuðum ríkjum eru l. um endurhæfingu, er ákveða mikla fjárhagslega aðstoð við það málefni.

Í frv. því, sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir ýmiss konar aðstoð við stofnanir, sem annast endurhæfingu. Þó er ekki lagt til, að hið opinbera taki framkvæmd málsins í sínar hendur. Gert er ráð fyrir frumkvæði og framkvæmdum á vegum félagasamtaka, sem raunar hafa gefið góða raun hér á landi til þessa. Eigi að síður er nauðsynlegt, að öll slík starfsemi sé undir opinberri yfirstjórn og eftirliti, svo að tryggja megi samræmda skipulega starfsemi, sem auka mun hagkvæmni og ná betri árangri í heild, en vænta má án opinberrar íhlutunar. Nú er gert ráð fyrir því, að milli 3–5% fólks á vinnualdri sé öryrkjar, eða um 4000 öryrkjar á bótum. Það segir sig sjálft, að þó ekki takist að gera nema 1/4 af þeim hópi að veitendum í staðinn fyrir að vera þiggjendur, þá er það stórkostlegt þjóðhagslegt mál.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að fara um þetta fleiri orðum, en vitna til þeirrar ítarlegu framsöguræðu, sem félmrh. gerði við 1. umr. þessa máls, og vísa að öðru leyti til þeirrar ítarlegu umsagnar, sem fylgir frv. sjálfu, og legg til, að frv. verði samþ. með þeirri brtt. sem getur að finna á þskj. 437.