09.12.1969
Sameinað þing: 21. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í B-deild Alþingistíðinda. (66)

1. mál, fjárlög 1970

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt nokkrum öðrum framsóknarmönnum að flytja brtt. við 6. gr. Því miður er þessi brtt. ekki komin úr prentun, en það kemur kannske ekki að sök, því að þetta er ekki langt mál. Eins og ég sagði er það nýr liður við 6. gr., að greiða Framleiðnisjóði landbúnaðarins 20 millj. kr. Eins og hv. alþm. vita, þá fluttum við nokkrir framsóknarmenn hér fyrr á þinginu frv. um breytingu á framleiðnisjóðslögunum. Ástæðan var sú, að skv. lögunum átti greiðslan að falla niður nú fyrir árið 1970. Við vonuðum, að hæstv. ríkisstj. mundi taka þetta mál upp, ekki sízt vegna þess ástands, sem hefur skapazt nú í landbúnaðinum, m.a. af völdum þess tíðarfars, sem var á liðnu sumri. Þessi von hefur enn brugðizt og vildum við því ekki láta það hjá líða að taka málið upp hér. Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um þessa till., því að það eru aðeins örfáir dagar síðan ég flutti þetta mál hér í þinginu og rakti þá ástæðurnar fyrir því að allverulegu leyti. Ég vil geta þess, að þetta var þá afgreitt til n. og n. er búin að vísa þessu máli til umsagnar ýmissa aðila, þannig stendur það.

Það voru fyrst og fremst tvö höfuðverkefni, sem fyrir okkur vakir að vinna að með þessari fjárveitingu, eins og kom fram í ræðu minni um daginn. Það er í fyrsta lagi að styrkja tilraunir með ýmsa heyverkun og reyna að fá samanburð á slíkum verkunum. Við sáum það, hversu illa bændastéttin er við slíku tíðarfari búin sem var s.l. sumar og slíkt má ekki endurtaka sig. Það er ekki bændastéttin ein, sem hefur sína hagsmuni þarna, það er þjóðin öll, það eru hagsmunir þjóðarinnar allrar, að þessi mál verði leyst á sæmilegan hátt. Í öðru lagi þá vakir það fyrir okkur, að farið verði að gera eitthvað í því að endurbyggja og endurbæta sláturhúsin í landinu, það er mikil þörf á því.

Það var nú gleðilegt að heyra í hæstv. menntmrh. hér í gær, en hann er nú ekki hér viðstaddur, þannig að ég verð nú víst að fresta því að ræða við hann um landbúnaðarmálin, en það kom fram í hans ræðu, að hann var allt í einu farinn að eygja möguleika á því að flytja út landbúnaðarafurðir og það má segja, að það séu mikil tímamörk hjá þessum manni, hæstv. menntmrh., að hann skuli vera farinn að eygja það. En þar sem hann er ekki hér viðstaddur, þá ætla ég nú ekki að ræða þessi mál í þetta sinn, heldur að reyna að geyma það þangað til hann verður viðstaddur.

Ég vonast til þess, að þessi till. okkar nái fram að ganga, ég veit, að hv. þm., hvar í flokki sem þeir standa, hljóta að viðurkenna þörfina á því og í trausti þess, að fjvn. athugi málið, þá mun ég óska eftir því, að ekki verði greidd atkv. um till. við þessa umr., heldur verði því frestað til 3. umr. og till. verði athuguð á meðan og athugað, hvort hægt er að fá eitthvert samkomulag um afgreiðslu á henni í nefndinni.