24.03.1970
Neðri deild: 66. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 602 í B-deild Alþingistíðinda. (664)

118. mál, endurhæfing

Sjútvrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég bið afsökunar á því að röddin er hálfbrostin, menn virða mér það vonandi til vorkunnar, þegar þess er gætt, að mikil átök hafa verið í nafnaköllum undanfarna daga.

Frv. það, sem hér er til umr., hefur verið afgr. af hv. Ed. og var samþ. þar með ofurlítilli breytingu, eins og fram kemur í nál. heilbr: og félmn. Ed.

Saga þessa máls eða þessa frv. er í fáum orðum þessi: Hinn 8. marz 1967 var samþ. þál. á Alþ., þar sem skorað var á ríkisstj. að undirbúa löggjöf og leggja fyrir Alþ. frv. til l. um öryrkjaheimili og endurhæfingarstöðvar. Með bréfi, dagsettu 14. september 1967, var Öryrkjabandalagi Íslands falið að semja drög að frv. til l. um öryrkjaheimili og endurhæfingarstöðvar. Bandalagið fól dr. Oddi Ólafssyni yfirlækni þetta verkefni í samráði við hin sérstöku öryrkjafélög og bandalagið. Hefur hann unnið að samningu frv., samkvæmt þessu og haft jafnframt samráð við félmrn. Árangur þess starfs dr. Odds er frv. það, sem hér liggur fyrir. Við samningu þessa frv. var höfð hliðsjón af till. Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 99 frá 1955 um atvinnuþjálfun fatlaðra manna til viðreisnar þeim. Till. þessi er prentuð sem fskj. með frv.

Svo sem greinir í 1. gr. frv., fjallar það fyrst og fremst um atvinnuþjálfun. Meira en 5% þeirra landsmanna, sem eru á vinnualdri, vinna ekki vegna meiri eða minni örorkusjúkdóma. Vitað er, að allmiklum fjölda af þessum hópi mætti koma til vinnu með skipulögðum, samræmdum aðgerðum, þ.e. ýmiss konar félagslegri hjálp, rannsóknum, námi, þjálfun og sérstöðu til vinnu. Þessu frv. er ætlað að stuðla að bættri aðstöðu í þessu efni. Endurhæfing fólks með skerta starfshæfni er keðja samræmdra aðgerða, sem hefst með tæknisfræðilegri endurhæfingu og lýkur að jafnaði með starfsendurhæfingu.

Í frv. er, eins og áður segir, gert ráð fyrir frumkvæði og framkvæmdum á vegum félagssamtaka, sem hefur gefið góða raun hér á landi til þessa. Eigi að síður er nauðsynlegt, að öll slík starfsemi sé undir opinberri yfirstjórn og eftirliti, svo að tryggja megi samræmda og skipulega starfsemi, sem auka mun hagkvæmni og ná betri árangri í heild en vænta má án slíkrar opinberrar íhlutunar. Yfirstjórn endurhæfingarinnar samkvæmt frv. verður falin sérstakri n., sem ráðh. skipar eftir tilnefningu, svo sem nánar er lýst í 2. gr. frv., en í 3. gr. frv. segir, hvert skuli vera hlutverk endurhæfingarráðsins.

Áætlun sú, sem um ræðir í upphafi gr., skal vera til 10 ára. Slík áætlunargerð skal vera til 10 ára, ekki sízt vegna þess, að fjármagn það, sem til ráðstöfunar er til endurhæfingarstarfsemi, er af mjög skornum skammti. Ber því brýna nauðsyn til, að fé því, sem fyrir hendi er á hverjum tíma, verði ráðstafað til þeirra verkefna, sem mest þörf er að leysa, og tryggja jafnframt skipulega framkvæmd og koma í veg fyrir, að framkvæmdir, sem ákveðnar kunna að verða og byrjað er á, stöðvist í miðjum klíðum vegna fjárskorts.

Um aðstoð þá, sem lagt er til, að veitt verði, vísast til 7., 9., 10. og 11. gr. frv. Endurhæfingar- og vinnustöðvar verða ekki reknar hallalaust, ef takast á að ná því takmarki, sem þeim er ætlað, en það er að þjálfa þá til vinnu, sem vegna orkutaps eru með meira eða minna skerta starfsgetu og geta því ekki séð sér farborða. Til þess að annast endurhæfingu er nauðsyn á þjálfuðu starfsliði, svo sem sjúkraþjálfara, félagsráðgjafa og iðjuþjálfara. Í frv. eru engin ákvæði um menntun slíks starfsliðs. Hins vegar mun vera í ráði, að Háskóli Íslands taki upp kennslu í þessum greinum nú á næstunni, svo að ætla má, að skortur slíks starfsliðs verði ekki til baga í framtíðinni.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um frv. á þessu stigi málsins, en legg til, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.