03.03.1970
Neðri deild: 54. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 604 í B-deild Alþingistíðinda. (671)

167. mál, Bjargráðasjóður Íslands

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Í 12. gr. l. um Bjargráðasjóð frá 1967 er talin upp sú starfsemi, sem á kost á því að fá lán úr afurðatjónadeild Bjargráðasjóðs, en það er, að þessi lán má veita til að afstýra óeðlilega mikilli förgun búfjár og vegna afurðatjóns á nautgripum og sauðfé af völdum alvarlegra smitsjúkdóma og til að bæta stórtjón vegna dauða nautgripa og sauðfjár af völdum sjúkdóma.

En það er ekki gert ráð fyrir því, að hægt sé að veita lán úr þessari deild Bjargráðasjóðs vegna erfiðleika við ræktun kartaflna. Ástæðan til þess, að þetta er svo, er talin vera sú, að frv. að l. nr. 82 1967, um Bjargráðasjóð, hafi upphaflega verið samið af stjórnskipaðri n. árið 1964, og í grg. þess frv. hafi verið vakin athygli á því, að í frv. sé ekki gert ráð fyrir, að uppskerubrestur á kartöflum verði bættur úr áfurðatjónadeild sjóðsins, og í samræmi við það, að gjaldskylda til sjóðsins í því frv. var eingöngu bundin við innvegna mjólk og kindakjöt.

En frv. að l. nr. 82 1967 var í meginatriðum samhljóða þessu frv. n. frá 1964, en þó höfðu verið gerðar á því nokkrar breyt. og m.a. þær, að gjaldskylda til afurðadeildar var látin ná til allra söluvara landbúnaðarins í stað þess að binda þær við það, sem áður var tekið fram um afurðir búfjárins eingöngu.

En með því að kartöfluframleiðendur greiða nú eins og framleiðendur annarra landbúnaðarvara 1/4% af söluverðmæti framleiðslu sinnar til afurðatjónadeildar landbúnaðarins, þykir eðlilegt, að þeir eigi þess kost að njóta aðstoðar frá deildinni svo sem framleiðendur annarra landbúnaðarvara, þegar þeir verða fyrir stórfelldum uppskerubresti, svo sem raun varð á sums staðar á s.l. sumri, enda hafa þeir þegar leitað til Bjargráðasjóðsins um slíka aðstoð, en bjargráðastjórn hefur ekki talið sér heimilt að veita slíka aðstoð að óbreyttum lögum sjóðsins. Þetta er tilefni þess, að þetta frv. er flutt.

Ég þarf ekki að hafa um þetta frekari orð. Það er eðlilegt, að þeir, sem hafa orðið fyrir tjóni af þessum sökum, fái möguleika til aðstoðar úr afurðatjónadeild eins og aðrir búvöruframleiðendur. Á s.l. ári er talið, að tjón kartöfluræktarmanna hafi af völdum úrkomu og annars orðið verulegt, og þess vegna eðlilegt, að þeim verði veitt aðstoð annaðhvort með bótum eða með lánum eftir því, sem stjórn Bjargráðasjóðsins ákveður.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og til heilbr.- og félmn.