09.04.1970
Efri deild: 67. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 606 í B-deild Alþingistíðinda. (682)

167. mál, Bjargráðasjóður Íslands

Frsm. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Hæstv. félmrh. gerði grein fyrir efni þessa frv. við 1. umr. hér í þessari hv. d. Ég sé því ekki ástæðu til að hafa ítarlega framsöguræðu með því nál., sem birt er á þskj. 503. Heilbr.- og félmn. hefur haft frv. þetta til meðferðar.

Afurðatjónadeild Bjargráðasjóðs var nýlega efld með framlagi framleiðenda landbúnaðarvara, sem er 1/4% af söluverði framleiðslu þeirra og þá jafnt þeirra, sem framleiða kartöflur, og annarra. Hins vegar hefur ekki verið gert ráð fyrir, að þeir gætu notið aðstoðar deildarinnar, og virðist það þó sjálfsagt, svo mjög sem sú framleiðslugrein er nauðsynleg, en um leið áhættusöm.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, gerir ráð fyrir að bæta úr því misrétti, og mælir n. með því, að frv. verði samþ. óbreytt. Ég vil geta þess, að einn nm., Auður Auðuns, var fjarverandi, þegar frv. var afgr. frá n. Að öðru leyti var n. sammála um að mæla með því, að frv. yrði samþ. óbreytt.