24.04.1970
Efri deild: 77. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 611 í B-deild Alþingistíðinda. (701)

161. mál, dýralæknar

Frsm. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Þetta frv. til l. um dýralækna, sem hér liggur fyrir til 2. umr., hefur landbn. haft til athugunar. Frv. þetta er samið af Dýralæknafélagi Íslands eða nefnd á þess vegum og hefur síðan verið nánar athugað í landbrn. Í því eru allmörg nýmæli og ýmis atriði þeirrar skipunar, sem á dýralæknamálum hafa verið, betur skilgreind og skýrð en áður hefur verið.

Það helzta, sem hér er um að ræða, er, að nokkur breyting hefur verið gerð á skiptingu landsins í umdæmi, og hefur landbn. virzt, að það væri allt með eðlilegum hætti og til bóta, sem þar hefur verið ákveðið.

Þá er í þessu frv. að finna heimild til þess að ráða dýralækni án fastrar búsetu til þess að gegna dýralæknisþjónustu í forföllum héraðsdýralækna, sem er að sjálfsögðu mjög mikilvægt að fá heimild til.

Þá gerir frv. ráð fyrir því, að greidd verði staðaruppbót á laun héraðsdýralækna í tekjurýrustu héruðunum, sem nánar eru tilgreind í frv.

Þá gerir frv. ráð fyrir því í þriðja lagi, að yfirdýralæknir setji héraðsdýralæknum erindisbréf, þar sem kveðið er á um starfssvið þeirra, m.a. það, að dýralæknar skulu hafa heilbrigðiseftirlit með kjötvinnslustöðvum og mjólkurbúum, og er það að sjálfsögðu nauðsynlegt og í samræmi við það, sem gerist í nálægum löndum. Þá er gert ráð fyrir því í frv., að fast áhaldasafn fylgi hverju dýralæknisumdæmi, og er það ætlað til þess að auðvelda dýralæknum, sem nýkomnir eru frá námi að hefja störf, því að mörg þeirra áhalda, sem þeir þurfa að hafa með höndum, eru nokkuð dýr, og því ekki þess að vænta, að menn, sem hafa stundað kostnaðarsamt nám, séu þess umkomnir að afla sér þeirra um leið og þeir hefja sitt starf. Á sama hátt er að finna þarna heimild til þess að veita nokkurn stuðning við bílakaup manna, sem á sama hátt eru að hefja störf. Sá stuðningur er hugsaður með lánveitingum m.a.

Landbn. leggur til, að frv. verði samþ. Hins vegar hafa tveir nm. skrifað undir nál. með fyrirvara, og flytja þeir tvær brtt. við frv., sem aðrir nm. gátu ekki fallizt á. Þetta frv. var sent stjórn Búnaðarfélags Íslands til umsagnar, og í umsögn stjórnarinnar eru m.a. þessi tvö atriði, sem hér er gerð till. um að breyta í frv., sem stjórnin lagði nokkra áherzlu á, að kæmu fram.

Í fyrsta lagi er það, að dýralæknir, sem þjónað hefur héraði í 10 ár, eins og segir í frv., fái 6 mánaða orlof á fullum launum til þess að endurnýja sig í starfi, en þá leggja þeir til hér í brtt., að þetta verði gert á 5 ára fresti. Við aðrir nm. teljum, að þar sem þetta er nú alveg nýtt í l. varðandi dýralækna, þá sé hér ekki ómyndarlega af stað farið og er hliðstætt við það, sem er hjá ýmsum embættismönnum öðrum, að fá þetta orlof á 10 ára fresti, og við væntum þess, að það muni verða til stórra bóta frá því, sem það er, þótt það sé ekki þéttara en svo.

Í öðru lagi lagði stjórn Búnaðarfélagsins til, að heimilt yrði að greiða af opinberu fé fyrir ferðakostnað, þegar dýralæknirinn þarf að fara um langan veg í vitjanir, og tekið þá til, að það skuli vera, þegar vegalengdin er orðin yfir 40 km.

Meiri hl. n. gat ekki heldur fallizt á þessa brtt. og er það fyrst og fremst af þeim sökum, eða tveimur sökum má segja. Í fyrsta lagi, að þetta hefur ekki verið kannað að neinu ráði, af okkur a.m.k., hvað hér væri um mikla fjármuni að ræða. Í öðru lagi sýnist okkur, að þetta muni ekki leysa allan vanda í þessu máli. Það má segja, að það leysi kannske vandann fyrir dýralæknana sjálfa að því leyti til, að þeir menn, sem lengra eru frá aðsetursstað dýralæknisins, muni frekar vitja þeirra, ef þeir geta vænzt þess að þurfa ekki að greiða ferðakostnaðinn alla leiðina. Hins vegar má benda á það, að það getur alveg eins komið til greina að hafa einhverja verðjöfnun á þessum hlutum milli manna í umdæminu, og við teljum, að aðrar leiðir, sem betur þyrfti þá að skoða en enn hefur verið gert um þetta, kæmu til greina til þess að leysa þennan vanda.

Það er því niðurstaða meiri hl. n., að frv. verði samþ. óbreytt, en n. öll mælir með frv.