24.04.1970
Efri deild: 77. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 612 í B-deild Alþingistíðinda. (702)

161. mál, dýralæknar

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Ég get tekið undir það, sem hv. 5. þm. Sunnl. sagði almennt um þetta frv., sem hér liggur fyrir, og mun ég gera frekari grein fyrir þeim brtt., sem hv. 2. þm. Austurl. flytur ásamt mér á þskj. 635. Fyrri brtt. er um að breyta 14. gr. frv., þar sem segir, að héraðsdýralæknar eigi rétt á 6 mánaða fríi frá störfum á fullum launum fyrir hver 10 ár, sem þeir hafa þjónað. En breytingin er í því fólgin að stytta þennan starfstíma dýralækna úr 10 árum í 5 ár, svo að þeir fái 6 mánaða frí á 5 ára fresti.

Ástæðan fyrir því er sú, að á sviði læknavísinda eiga sér stað mjög örar breytingar, og til þess að læknar fylgist vel með þeim, er nauðsynlegt fyrir þá að fá frí miklu oftar en á 10 ára fresti.

Hin brtt. er um það, að þegar dýralæknar þurfa að fara í nauðsynlegum lækniserindum yfir 40 km vegalengd, að þá borgi hið opinbera þann kostnað við ferðina, sem er umfram 40 km, en sá, sem ferðin er farin fyrir, borgi að fullu fyrstu 40 km. Greiðslur þessar skal inna af hendi eftir reglum, sem ráðh. setur. Vegalengdir eru mjög víða á landinu allmiklar og mjög erfitt fyrir þá, sem búa fjarri dýralæknum að hafa not af þekkingu þeirra sakir mikils kostnaðar, þegar vegalengdin er mikil. Þess vegna er þessi brtt. fram komin, og á hún að jafna aðstöðumuninn, ef að l. verður. Þarna er farið fram á, að hið opinbera minnki samkvæmt settum reglum þann aðstöðumun, sem bændur hafa, sem búa í víðlendum læknishéruðum. Þess vil ég geta, að hér lá fyrir hv. Alþ. 1967 frv. til l. um dýralækna. Það frv. var samið af n. skipaðri af Dýralæknafélagi Íslands. Voru þessi ákvæði, sem eru í brtt. okkar, í því frv. Það er því eindregin ósk Dýralæknafélags Íslands, að þessi ákvæði komi inn í 1., því að þeir þekkja bezt, hvar skórinn kreppir að í þessum efnum. Þá vil ég einnig minna á það, eins og raunar hv. 5. þm. Sunnl. kom inn á, að Búnaðarþing hefur oftar en einu sinni farið fram á, að þessi ákvæði í brtt. okkar verði lögfest.

Hér er því um það að ræða, hvort jafna á aðstöðumun bænda, til þess að þeir geti haft not af þeirri þjónustu, sem dýralæknar veita, og hér er einnig um það að ræða, að dýralæknar, sem eru í starfi, geti tileinkað sér jafnan þær nýjungar, sem gerast á þeirra læknissviði víðs vegar í heiminum. Ég ætla, að hv. þm. sé vel ljóst, hvaða þýðingu þetta kann að hafa fyrir þessa starfsemi landbúnaðarins, og ég vænti þess, að brtt. verði samþykktar.