09.12.1969
Sameinað þing: 21. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 158 í B-deild Alþingistíðinda. (71)

1. mál, fjárlög 1970

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. Það voru aðeins nokkur atriði, sem ég tel mig þó verða að minnast á og leiðrétta. Í fyrsta lagi vildi ég segja það varðandi atvinnumálatill., sem hv. þm. gerði enn hér að umtalsefni og ég hafði sagt áðan, að væri ekki tímabær, að með því átti ég ekki við, að horfinn væri allur áhugi fyrir því að halda áfram því starfi að halda uppi fullri atvinnu í landinu. Það var gert samkomulag um það við stéttarfélögin í fyrra, að atvinnumálanefndirnar og atvinnumálanefnd ríkisins starfaði til tveggja ára og það hefur verið fullur kraftur á því starfi og að sjálfsögðu verður það að skoðast með hliðsjón af niðurstöðum þeirra aðila og nánara samkomulagi, hvað þörf verður að gera í þessum efnum. En á þessu stigi liggur ekkert fyrir um það, hvaða fjármagns verður þörf í því sambandi og hvort þarf að afla þess með þessum hætti eða má afla þess með öðrum hætti og ég sé ekki, að Alþ. sé gerð nein óvirðing með því á nokkurn hátt, þó að till. um það kynni að koma fram síðar, ef þörf væri á. Það kom til kasta Alþ. á s.l. ári eða á árinu í ár að ákveða um það fé, sem aflað var þá til atvinnumálanefndanna, þó að það væri ekki beinlínis í sambandi við fjárlög, þannig að auðvitað segir ekki sú afstaða, sem ég lýsti á þessu stigi málsins, til um það eða gefur neina ábendingu í þá átt, að minni áhugi sé fyrir því, en áður var nema síður sé að reyna með öllum ráðum að halda uppi atvinnu, en það, sem ég sagði og lagði ríkasta áherzlu á áðan og vil endurtaka, er það, að auðvitað er grundvallaratriðið það, að atvinnufyrirtækin geti haft þann starfsgrundvöll, að þau geti starfað með fullum þrótti, eins og hefur orðið reyndin á, þegar leið á árið, m.a. fyrir tilverknað atvinnumálanefndanna og ýmsa aðstoð ríkisstj. eftir öðrum leiðum, og það vitanlega veltur þar af leiðandi mest á því, hvernig verður um það efni nú á næstu mánuðum.

Varðandi það, að fjárlög hafi hækkað með meiri hraða en áður hefur þekkzt, þá benti ég á það áðan og skal ekki fara að endurtaka það, að þetta er ekki rétt. Þau hafa ekki hækkað með meiri hraða. Tölurnar eru að vísu stærri og krónurnar fleiri, en á árunum 1950–1960 hafa fjárlög hækkað mjög svipað og ekki minna frá ári til árs. Það skiptir ekki meginmáli, eins og ég sagði, að vera að karpa um þetta, en þetta er nú einu sinni svo og þegar hv. þm., sem er talnaglöggur maður, skoðar það, þá mun hann komast að raun um, að sú er reyndin.

Varðandi þreytandi og leiðinlega gagnrýni, þá vil ég ekki, að það misskiljist, sem ég átti við með orðum mínum um það hér áðan. Auðvitað dettur mér ekki annað í hug en það sé bæði réttur og skylda stjórnarandstæðinga að gagnrýna. Og eðlilegt er, að maður eins og hv. 3. þm. Vesturl., sem er mjög fróður maður af langri reynslu um fjármál ríkisins, komi fram með ýmsar skoðanir og gagnrýni. En það, sem ég átti við, var það, að mér finnst það þreytandi og leiðinlegt að þurfa sífellt að vera að karpa um atriði, sem eru svo fjarstæð öllu sennilegu og eru ekki nein venjuleg gagnrýni, heldur fullyrðingar algerlega út í hött, eins og að segja það í nál., að hægt sé með skynsamlegri stjórnarstefnu, eins og það er orðað, að útvega jafnvel milljarða króna í viðbót í tekjur fyrir ríkið, án þess að það þurfi þá að koma fram sem nýjar álögur á þjóðina. Svo átti ég einnig við, að ósköp er þreytandi að hlusta á tal um það, að hægt sé að spara og hægt sé að spara í stórum stíl, án þess að það komi þá fram hugmyndir í þá átt. Ég vil taka það skýrt fram, svo að það valdi engum misskilningi, enda held ég, að ég hafi sagt það í ræðum mínum að undanförnu, að ég tel, að samvinna við undirnefnd fjvn. hefði verið góð og n. hefði lagt sig fram í sínu starfi. En það er auðvitað ekki hægt að ætlast til þess, þó að það sé sjálfsagt, að rn. hafi forystu um tillögugerð, að ekki komi till. einnig úr öðrum áttum og þá frá öðrum nm., ef þeim finnst ástæða til. En að sjálfsögðu er það rétt hjá hv. þm., að það er skylda rn. að leggja málefni fyrir n. og það held ég, að hafi verið gert óspart, eftir því sem tilefni hafi gefizt til og eins og ég sagði, þá vill svo vel til, að báðir undirnefndarmenn úr stjórnarandstöðuliðinu eru mjög reyndir menn í fjármálum og þekkja þar vel til, þannig að þeim ætti að vera það mjög innan handar að koma með ábendingar í þessa átt.

Ég vil taka það skýrt fram, að það hefur aldrei verið að fyrra bragði, að ég hafi farið að reyna að notfæra mér í málflutningi, að þessir hv. þm. væru í þessari n. og þess vegna farið að storka þeim með því, að þeir hafi ekki komið með till., heldur hefur það ætíð verið þannig, ef það hefur verið gert og ég hef aðeins gert það af gefnu tilefni, að ég hef bent á, að hv. þm., –fyrst og fremst er það hv. 3. þm. Vesturl., sem hefur mest látið á því bera, — ættu þarna sæti og hefðu þarna allt árið um kring aðstöðu til þess að koma með sínar ábendingar, sem ég skal játa, að áður var mjög erfitt, meðan menn höfðu ekki lengri tíma en meðan fjvn. starfar að undirbúningi fjárl.

Þetta vildi ég aðeins, að kæmi fram, til þess að menn misskildu það ekki þannig, að ég ætlaði mér að nota þessa n. sem eitthvert skálkaskjól. Því fer víðs fjarri og ég mæli mig ekki undan neinni ábyrgð, en ætlast þá líka til rökstuddra till. á móti frá þeim aðilum, sem gagnrýni halda uppi.

Um bílamálin langar mig aðeins til þess að segja það að lokum, að það er auðvitað algerlega út í hött hjá hv. þm., að fsp., sem hér var flutt í fyrra, hafi komið bílamálunum af stað. Ástæðan til þess, að ég gat svarað fsp. án nokkurs undirbúnings að segja mátti, var beinlínis sú, að það var búið að afla allra gagna um þetta mál. Og þegar hv. þm. og minni hl. fjvn. kom með þessa ábendingu í sínu þskj. í fyrra, nál. um bílamálin, þá voru þessar till. eða drög að þeim, að vísu með mismunandi úrræðum, búnar að liggja fyrir fjvn. í allmargar vikur til athugunar, þannig að það var alveg vitanlegt, hvaða skoðanir voru uppi í þessu efni. Hitt benti ég á, að þetta væri ekki einfalt mál og það skipti máli, að við reyndum að ná samstöðu um það. Sú samstaða hefur náðst og út af fyrir sig get ég látið mér það alveg í réttu rúmi liggja, þó að hv. 3. þm. Vesturl. eigni sér eða einhverjum fyrirspyrjanda hér í þingi, að eitthvað hafi gerzt í málinu. Það hefur fengizt niðurstaða í málinu og ég tel miklu skipta, að um það hefur orðið samstaða, þannig að það er höfuðatriði og kjarni þessa máls.

Ég sé svo hvorki ástæðu, herra forseti, til að lengja þessar umr. né hefja neinar orðahnippingar aftur við hv. þm., enda gaf hann ekki að öðru leyti neitt tilefni til þess í sinni ræðu.