16.04.1970
Neðri deild: 76. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 614 í B-deild Alþingistíðinda. (710)

181. mál, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn

Frsm. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Fjhn. þessarar hv. d. hefur haft frv. þetta til athugunar og mælir með því, að það verði samþykkt. Eins og fram kemur í grg. frv. er hér um að ræða hækkanir, annars vegar í 1. gr. frv. á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum úr 15 millj. í 23 millj. Bandaríkjadollara, og í 2. gr. frv. er gert ráð fyrir að hækka framlag Íslands til Alþjóðabankans úr 15 millj. í 18.4 millj. Bandaríkjadollara. Þá er lagt til í 2. gr. frv., að ríkisstj. verði heimilað að taka lán í Seðlabankanum til þess að standa straum af 10% af framtagi sínu., þ.e.a.s. 340 þús. Bandaríkjadollara.

Eins og fram kemur í grg. með frv. við 2. gr. skal við aukningu framlagsins greiða 10% af framlaginu, en 90% eftir nánara samkomulagi og væntanlega, eins og þar stendur, á nokkrum árum og þess vegna heimild aðeins fyrir 340 þús. Bandaríkjadollara lántöku til ríkisstj. hjá Seðlabankanum. Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til, herra forseti, að fjölyrða um frv.

Það kemur fram í grg., að hér er um að ræða endurskoðun á kvóta Seðlabankans hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, sem gerð er á 5 ára fresti, svo og kvóta ríkisstj. hjá Alþjóðabankanum. Kvóti sjóðsins svo og ríkisstj. hjá Alþjóðabankanum voru í upphafi 1 millj. Bandaríkjadollara, en er, eins og nú er komið, 15 millj. á báðum stöðum og gert ráð fyrir að hækka kvóta Seðlabankans hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum úr 15 millj. í 23, en kvóta ríkisstj. hjá Alþjóðabankanum úr 15 millj. í 18.4 millj. N. leggur því til, að frv. verði samþ. óbreytt og því að umr. lokinni vísað til 3. umr.