16.04.1970
Efri deild: 71. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 620 í B-deild Alþingistíðinda. (726)

57. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Frsm. meiri hl. (Jón Árnason):

Herra forseti. Það kemur fram í grg. fyrir frv. til l. um breyt. á l. um Fiskveiðasjóð Íslands, að við afgreiðslu fjárl. fyrir árið 1969 og 1970 voru ekki teknar upp í fjárlög fjárveitingar til Fiskveiðasjóðs, svo sem l. nr. 75 13. maí frá 1966 kveða á um. Ástæðan fyrir því mun hafa verið sú, að með l. um ráðstafanir til lækkunar ríkisútgjalda, er Alþ. samþykkti á árinu 1968 fyrir árið 1969, var gert ráð fyrir, að beint framlag til sjóðsins fyrir það ár félli niður. Frv. til l. um breyt. á l. um Fiskveiðasjóð Íslands, sem fól þessa breytingu í sér, var þá einnig borið fram á þinginu, en náði ekki fram að ganga.

Svo sem ég hef greint frá, var við afgreiðslu fjárl. fyrir yfirstandandi ár einnig gert ráð fyrir niðurfellingu á framlagi úr ríkissjóði til sjóðsins. Forsenda fyrir þessum ákvörðunum, eins og segir í grg. fyrir frv., voru þær ráðstafanir, sem gerðar voru annars vegar með l. nr. 58 1968, þar sem ákveðið var að verja 124 millj. kr. sem stofnframlagi til Stofnfjársjóðs fiskiskipa, og í öðru lagi með l. nr. 79 1968 um ráðstafanir í sjávarútvegi vegna breytingar á gengi íslenzkrar krónu. Þessar og aðrar ráðstafanir, sem gerðar hafa verið til þess að treysta grundvöll sjávarútvegsins, var talið að réttlættu þá breytingu á lögum sjóðsins, sem hér var lagt til að gerð verði.

Það er augljóst mál, svo sem reyndar kemur fram í grg. fyrir frv. þessu, að greiðslubyrði Fiskveiðasjóðs á yfirstandandi ári verður mikil vegna greiðslu erlendra lána sjóðsins, sem eru vegna skipasmíða undanfarinna ára, en þó einnig vegna fyrirhugaðra lánveitinga til skipasmíði, sem nú á sér stað hjá innlendum skipasmíðastöðvum. Við afgreiðslu fjárl. var þetta viðurkennt af hálfu hæstv. fjmrh., sem jafnframt gaf þá yfirlýsingu, að ríkisstj. mundi gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að afla Fiskveiðasjóði þess fjármagns, sem honum er nauðsynlegt. Þrátt fyrir það, að Fiskveiðasjóður Íslands er einn öflugasti stofnfjársjóður, sem Íslendingar eiga, er sjóðnum stöðugt þörf á auknu fjármagni. Fjármagnsþörfin í íslenzkum sjávarútvegi má segja að sé ótæmandi. Nýtízku fiskiskip kosta stórar fjárupphæðir, og í flestum tilfellum verða útvegsmenn að fá að láni mestan hluta þess fjármagns, sem fiskiskipin kosta.

Þegar aflabrest hefur borið að höndum, sem því miður hefur oft átt sér stað, hefur það jafnan komið illa niður á Fiskveiðasjóði, þannig að viðskiptamenn sjóðsins hafa ekki getað staðið í skilum með greiðslu afborgana og vaxta af lánum sínum. Hefur þetta oft valdið sjóðnum miklum erfiðleikum vegna skuldbindinga hans. Ég fullyrði, að ein bezta ráðstöfun, sem gerð hefur verið íslenzkum sjávarútvegi til handa og hagsbóta, eru 1. um Stofnfjársjóðinn, þar sem ákveðið er, að ákveðna prósentu af brúttótekjum fiskiskipa skuli leggja í Stofnfjársjóð, er síðan greiði afborganir og vexti viðkomandi fiskiskips, eftir því sem tekjur hvers og eins ná til. Þessi ráðstöfun hefur einnig komið Fiskveiðasjóði mjög til góða, þar sem hún tryggir á öruggan hátt verulegan hluta þeirra tekna, sem sjóðurinn byggir rekstur sinn á. En þrátt fyrir þessar og aðrar þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið af hálfu hins opinbera til þess að tryggja rekstur og afkomu Fiskveiðasjóðs Íslands, er það álit meiri hl. sjútvn., að með tilliti til hinna miklu fjárhagslegu skuldbindinga, sem á sjóðnum hvíla, og til að mæta fyrirsjáanlega auknum kröfum um lánveitingar, verði ekki hjá því komizt, að ríkissjóður leggi sjóðnum til nokkurt fjármagn með föstu fjárframlagi árlega. Fyrir því hefur meiri hl. n. leyft sér að bera fram brtt. við frv., svo sem fram kemur á sérstöku þskj.

Brtt. þessar fela það í sér, að árlegt framlag ríkissjóðs til Fiskveiðasjóðs Íslands verði 35 millj. kr. Hins vegar telur meiri hl. n., að ekki verði hjá því komizt að samþykkja niðurfellingu á framlagi fyrir árin 1969–1970, svo sem frv. kveður á um, enda er það í samræmi við afgreiðslu fjárl. fyrir umrædd ár. Kemur þá fjárveiting ríkisins til Fiskveiðasjóðs samkv. þessari brtt. fyrst til framkvæmda á árinu 1971.

Um afgreiðslu málsins af hendi sjútvn. varð ekki samkomulag. Minni hl. hefur skilað séráliti um málið og flutt brtt. samkv. því á þskj. 576. Þær brtt., sem þar um ræðir, eru í fyrsta lagi varðandi greiðslur ríkissjóðs til sjóðsins. Þar er gerð till. um, að greiðsla verði í fyrsta lagi hin sama sem verið hefur í gildandi l., en þó er kveðið á, að upphæðin skuli aldrei vera lægri en 35 millj. kr.

Nú er það svo, að tekjur sjóðsins hafa á undanförnum árum reynzt æði-sveiflukenndar með þessu lagaákvæði, sem gilt hefur. Þegar aflabrest hefur borið að höndum, hefur upphæðin lækkað verulega, en vitanlega, þegar betur hefur gengið og um meira framleiðslu- og útflutningsmagn hefur verið að ræða, hafa tekjur sjóðsins aukizt. Nú er ekki gott að ákveða þetta fyrirfram eða sjá það fyrir, þegar gengið er frá fjárl. árlega. Þess vegna telur meiri hl. n., að réttara sé að kveða á um, að einhver ákveðin upphæð verði lögð fram úr ríkissjóði árlega í þessu skyni, og hefur því leyft sér að bera fram þessa till. um 35 millj. kr. árlegt framlag.

Hin till. n. felur í sér breytingu á skipun sjóðsstjórnarinnar. Það ákvæði var allmikið rætt innan n., og menn voru ekki alveg á einu máli um það. Það kom fleira til greina en það, sem kemur fram í till. minni hl., sem hér er borin fram, þ.e. að Sþ. kjósi eftir hverjar kosningar 5 manna stjórn hlutbundinni kosningu, en eins og nú er, skipa bankarnir sjóðsstjórnina, og ráðh. skipar formann.

Fram kom einnig það sjónarmið í umr. n. um þetta atriði l. um Fiskveiðasjóð, hvort ekki kæmi til greina, að sjóðsstjórnin yrði þannig skipuð, að bankarnir þrír, þ.e. Seðlabankinn, Útvegsbankinn og Landsbankinn, skipuðu sinn manninn hver, en síðan kæmu tveir til viðbótar, annaðhvort væru þeir báðir frá útvegsmönnum ellegar annar frá útvegsmönnum og hinn frá sjómannasamtökunum. Það getur verið álitamál, hvort rétt sé að hafa þennan hátt á. Við í meiri hl. vildum ekki flytja till, að þessu sinni um breytingar á fiskveiðasjóðstögunum varðandi þetta atriði, þó að því sé ekki að leyna, að innan meiri hl. eru einnig skoðanir um, að breyta beri þessu ákvæði um stjórn sjóðsins. Ég hef því ekki um þetta atriði meira að segja.

Herra forseti. Ég hef í stuttu máli gert grein fyrir áliti meiri hl. sjútvn. varðandi afgreiðslu þessa frv., og að svo mæltu sé ég ekki ástæðu til að orðlengja frekar um málið. Ég vil treysta því, að hv. þdm. geti fallizt á brtt. meiri hl. n. og frv. þannig breytt hljóti samþykki og verði síðan að lokinni þessari umr. vísað til 3. umr.