16.04.1970
Efri deild: 71. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 622 í B-deild Alþingistíðinda. (727)

57. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Frsm. minni hl. (Bjarni Guðbjörnsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, um breyt. á l. um Fiskveiðasjóð, hefur legið um tíma fyrir sjútvn., en nm. ekki orðið á eitt sáttir um afgreiðslu þess. Meiri hl. sjútvn. vill samþykkja frv. þannig, að niður falli framlag til sjóðsins fyrir árin 1969 og 1970.

Meginröksemdin fyrir niðurfellingu framlaga ríkissjóðs allt frá árinu 1968 koma fram í nál. meiri hl. og eru þær, að með l. frá 1968 um Stofnfjársjóð fiskiskipa hafi verið gerðar þær ráðstafanir, sem ættu að duga Fiskveiðasjóði til tekjuauka þannig, að sjóðurinn gæti staðið við skuldbindingar sínar. Þessi röksemdafærsla fær ekki staðizt þegar af þeirri ástæðu, að hér liggur fyrir í grg. fyrir þessu frv., að greiðslubyrði Fiskveiðasjóðs á næsta ári verður mjög mikil vegna erlendra lána vegna skipasmíða undanfarinna ára og einnig vegna fyrirhugaðra skipasmíða innanlands. Til þess að gera sjóðnum kleift að standa við eðlilegar skuldbindingar nú á þessu ári verður að afla sjóðnum fjármagns eftir öðrum leiðum.

Það kemur einnig fram í framkvæmdaáætluninni, sem liggur fyrir þessari hv. d., að vanta muni um 141 millj. kr. til þess að útlánaáætlun Fiskveiðasjóðs fái staðizt, og verður að útvega nýtt fé sem því nemur. Ég á dálítið erfitt með að átta mig á því, hvað vinnst við svona tilfærslu. A.m.k. er mér lítt skiljanleg sú afstaða útgerðarmanna að leggja til, að fellt verði niður framlag ríkissjóðs, sem nemur ca. 90 millj. kr. fyrir tvö árin, en samþykkja síðan erlendar lántökur, sem svo yrði varið til framhaldslána. Skuldaviðskipti við Fiskveiðasjóð og gengistap undanfarinna ára hafa verið mikið rædd manna á milli, og ég hélt satt að segja, að flestir væru búnir að fá nóg af slíku og þeim kvöðum, sem á útvegsmenn hafa verið lagðar í því sambandi. Skal ég stuttlega drepa á það síðar.

Úr því að minnzt er á hin erlendu lán Fiskveiðasjóðs vegna skipakaupa, má minna á það, að ef hann hefði þessar tekjur, sem meiri hl. sjútvn. leggur til að falli niður fyrir árin 1969 og 1970 og sennilega mundu nema um 80 millj. kr. a.m.k., þá gæti hann leyst úr brýnustu þörfum þeirra manna, sem eru nú að sligast undan erlendu skuldunum vegna síðustu gengisfellingar.

Að vísu er heildardæmið nokkru stærra, því að það mun vanta um 144 millj., til þess að útvegsmenn fengju það, sem þeir hafa óskað eftir, eða 80% af gengistapi höfuðstólsins. Ég segi 90 millj. kr., vegna þess að ég hef að vísu ekki endanlegt uppgjör fyrir árið 1969, en eftir þeim upplýsingum, sem ég hef, hefur Fiskveiðasjóður fengið í tekjur af útflutningsgjaldi 32 millj. 488 þús. kr. á s.l. ári, auk þess skömmu eftir áramótin, sem tilheyrir gamla árinu, nær 11 millj., auk þess, sem Fiskveiðasjóðurinn hefur fengið yfir 3 millj. úr gengishagnaðarsjóði. Þess vegna þykir mér það varlega áætlað eða a.m.k. ekki ofáætlað, þó tekjurnar væru reiknaðar um 45 millj. kr. hvort árið, 1969 og 1970. En þetta er sú upphæð, sem meiri hl. sjútvn. leggur til, að verði tekin af Fiskveiðasjóði. Það virðist alls ekki ljóst nú í dag, hvernig sá vandi verður leystur, sem þarna er við að glíma, og þess vegna getum við, sem skipum minni hl. sjútvn., ekki fallizt á að fella niður framlag áranna 1969 og 1970.

Það eru engin rök í þessu efni, þó að þetta hafi ekki verið tekið inn á fjárlög út af fyrir sig. Þó að ég sé ekki lögfræðingur, held ég, að fjárlög geti ekki breytt landslögum í þessu efni.

En það eru fleiri en við, sem skipum minni hl. sjútvn., sem eru þeirrar skoðunar, að Fiskveiðasjóður eigi ekki að verða af þessum tekjum, sem hér er lagt til, að falli niður. Fyrir skömmu sat Fiskiþing á rökstólum hér í borg. Á sameiginlegum fundi sjútvn. beggja d. hins háa Alþ. mætti sendinefnd frá Fiskiþingi. Erindi n. frá Fiskiþingi var að bera fram mjög alvarlegar kvartanir yfir þeirri þröngsýni Alþ. að fella m.a. niður framlag til Fiskveiðasjóðs — og reyndar bættu þeir við: — og til Aflatryggingasjóðs. Það mætti ekki minna vera en lögboðin gjöld væru greidd sjóðnum. Orð fyrir nm. frá Fiskiþingi hafði hinn reyndi útvegsmaður, Einar Guðfinnsson í Bolungarvík. Á þessum fundi kom greinilega fram, að það var litið mjög alvarlegum augum á þetta hringl, að fella niður lögboðin gjöld hjá sjóði, sem vantaði tilfinnanlega fjármagn, svo að útlánaáætlun gæti staðizt. Landssamband ísl. útvegsmanna mun einnig hafa mótmælt niðurfellingu framlagsins og ýmsir aðrir. En það stoðar ekkert.

Við teljum, að Fiskveiðasjóður þurfi á þessum tekjum að halda og hann eigi lagalegan rétt til þeirra. Þess vegna höfum við flutt þá brtt. á þskj. 576, sem hér hefur verið greint frá, og væntum þess, að hv. þdm. viðurkenni þetta sjónarmið og veiti brtt. stuðning sinn.

Í sambandi við Stofnfjársjóðinn hefur það verið ein af röksemdunum, að I. um Stofnfjársjóð hafi orsakað það, að Fiskveiðasjóður væri mun betur stæður en ella. Þetta er alveg rétt. Ég hef áður á þessum stað lýst yfir því, að ég tel þá ráðstöfun hafa verið mjög happadrjúga, og get gjarnan endurtekið það. En það út af fyrir sig leysir ekki þennan vanda, og það hlýtur að hafa verið gert ráð fyrir þeim tekjum, sem Fiskveiðasjóður fær frá Stofnfjársjóði fiskiskipa, í greiðsluáætlun sjóðsins fyrir árin 1970. Annað er óhugsandi. En þrátt fyrir það vantar a.m.k. 141 millj., eftir því sem um getur í framkvæmdaáætluninni, ef leysa ætti úr vanda útvegsmanna, ég segi: ef, það er auðvitað engin hemja, að það skuli ekki vera gert. Í rauninni eru allir sammála um það, þó að það sé verið að rífast um, hver á að gera það. Það er engin hemja að láta skuldir hrúgast upp í viðskiptabönkunum vegna báta, sem keyptir hafa verið erlendis frá á undanförnum árum, og útvegsmenn liggja þar með frosnar skuldir sér til mikils kostnaðarauka og til baga í viðskiptum við bankana.

Um hina brtt. á sama þskj. get ég verið fáorður. Það er rétt, að töluvert var rætt um breytingar á stjórn sjóðsins og menn voru sammála um, að breyting væri æskileg. En ekki varð neitt samkomulag um, á hvern hátt það yrði gert. Ég er ekki að segja, að þessi lausn, sem við höfum lagt hér fram, sé sú eina rétta, en þetta var mikið rætt í n., og sýndist sitt hverjum í þessu efni. Með þessu er ég ekki að lasta það, þó að bankastjórar séu í stjórn sjóðsins, síður en svo. Það getur eflaust verið ágætt í mörgum tilfellum. En það mættu gjarnan koma fram fleiri sjónarmið þar líka. Útvegsmenn hafa aldrei getað látið sín sjónarmið koma fram í stjórn sjóðsins, svo að mér sé kunnugt. Við höfum sem sagt lagt til á þskj. 576, að breytingar verði gerðar á stjórn sjóðsins.

Viðvíkjandi fyrri brtt. vil ég aðeins að lokum geta þess, þar sem við höfum tekið fram, að upphæðin yrði aldrei lægri en 35 millj. kr., að þetta er sama upphæð, sem meiri hl. leggur til, að verði fast árlegt framlag. Okkar till. hefur aðeins það fram yfir, að ef vel árar, þá fær sjóðurinn meira, og ég tel það sanngjarnt, að í góðum árum safnist fyrir hjá Fiskveiðasjóði eða hann eignist meira en ef illa árar. Þá virðist meiri hl. og minni hl. sjútvn. vera sammála um upphæðina, svo að þar greinir ekki mikið á milli.