24.04.1970
Neðri deild: 81. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 630 í B-deild Alþingistíðinda. (740)

57. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Frsm. meiri hl. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Ég veit ekki, hvort ég er rétti aðilinn til þess að svara fram kominni fyrirspurn hv. 1. þm. Norðurl. e. Það má vel vera, að á þessu atriði þurfi sérstakar lögskýringar. Frá mínu sjónarmiði horfir málið þannig við: Þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið í sambandi við afgreiðslu fjárlaga varðandi niðurfellingu framlagsins til Fiskveiðasjóðs, eru auðvitað gerðar með vitund og samþykki meiri hl. Alþ. Þótt þannig hafi farið við afgreiðslu frv., sem flutt var í fyrra um niðurfellingu framlagsins, að frv. hafi verið fellt með jöfnum atkvæðum, þá var samt sem áður við afgreiðslu fjárlaga það ár ekki gert ráð fyrir framlaginu. Varðandi það, hvort þær ráðstafanir, sem þannig eru til komnar, standist frá lagalegu sjónarmiði, treysti ég mér ekki til að fullyrða um, en mér finnst þó, að séu slíkar ráðstafanir gerðar með vitund og vilja meiri hl. Alþ., þá hljóti þær að hafa fullt gildi.