24.04.1970
Neðri deild: 81. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 631 í B-deild Alþingistíðinda. (742)

57. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Vegna fyrirspurnar hv. 1. þm. Norðurl. e., þykir mér rétt að taka fram, að auðvitað eru hvorki ummæli mín né annarra ráðh. endanlegur úrskurður um þessi efni. Ég hygg, að það hafi í sjálfu sér rekið að því, að ef um þetta kynni að rísa ágreiningur, þá heyri það mál endanlega undir dómstólana.

En eins og hv. þm. sagði, þá reynir fyrst á þetta, ef stjórn sjóðsins ber fram slíkar kröfur. Nú hefur hún ekki hreyft slíkri kröfu, svo þess vegna er ólíklegt, að til ágreinings komi. Og jafnvel þó að það væri rétt, sem hv. þm. telur lagahlið málsins, þá mundi það hafa sáralitla þýðingu, því að ef meiri hl. Alþ. er efnislega því fylgjandi að taka þetta fé af sjóðnum, þá er hægt að ná því með öðru móti en þessu. Þá er hægt að gera það með því að færa til sviptinguna, ef svo má að orði kveða, taka hana á seinni árum, svo að stjórn sjóðsins sér það auðvitað í hendi sér, að ef Alþ. er þessarar skoðunar, þá er lagadeila út af málinu þýðingarlítil eða þýðingarlaus, vegna þess að fjárveitingarvaldið er í höndum Alþ. eða löggjafans, og hann getur komið vilja sínum fram með þeim hætti, sem ég drap á, ef ágreiningur skyldi rísa. Mér þykir hins vegar ólíklegt, að til þessa ágreinings komi, þegar af þeirri ástæðu, sem ég hef getið um.

Þar að auki ber að geta þess, að ríkið er eigandi þessarar stofnunar og hefur það þess vegna í hendi sér, hvernig með fjárveitingar og ráðstafanir fjár úr henni er farið. Þess vegna er ekki hægt að bera þessa ákvörðun löggjafans saman við það, ef hér væri um að ræða einstakling eða stofnun ríkinu óháða. Það má segja, að hér sé einungis einn vasi ríkissjóðs, þótt með sérstakri löggjöf sé, og þegar af þeirri ástæðu tel ég engan vafa á því, að það sé löglegt, sem hér er ákveðið, en það má ekki taka slíkt sem allsherjarfordæmi, þegar af þeirri ástæðu, sem ég sagði, að öðruvísi horfir með ríkisstofnanir en einstaklinga. Svo er það allt annað mál, hvort mönnum finnst hér vera farin rétt leið eða ekki. Við vitum ástæður til þess, að þetta hefur þótt nauðsynlegt, en það varðar efnishlið málsins, sem ég ætla ekki að blanda mér inn í hér, enda er fyrirspurninni einungis beint til mín um þá formlegu hlið.