06.04.1970
Efri deild: 65. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 648 í B-deild Alþingistíðinda. (754)

196. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1970

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég er ekkert að segja það eða fara fram á það, að áætlun sé gerð með þeim hætti, að það sé fyrir fram alveg ákveðið í henni, í hvaða einstaka framkvæmd fé skuli varið. Hins vegar álit ég, og ég held að við hljótum að geta verið sammála um það, að mjög auðvelt sé að gera slíka áætlun úr garði, alveg eins og þetta frv. er, sem hér liggur fyrir til umr., því að þar eru einmitt teknir upp ákveðnir málaflokkar, sem ákveðnu fé á að verja til, og líka eftir atvikum, þegar það liggur ljóst fyrir, einstök fyrirtæki eða framkvæmdir, sem þetta þurfa að fá. Munurinn er aðeins sá, að þetta frv. er sniðið fyrir landið allt og byggt á heildarsýn yfir málefni landsins alls, en staðbundna áætlun þyrfti að gera varðandi þær framkvæmdir, sem koma undir Norðurlandsáætlun, alveg með hliðstæðum hætti og gert er og staðið er að í þessari framkvæmdaáætlun. Mér skilst, að það ætti að vera alveg eins auðvelt að gera þannig staðbundna landshlutaáætlun, hvort heldur það er Norðurland, sem á í hlut, eða einhver annar landshluti, eins og áætlun fyrir landið allt, og það var þetta, sem ég átti við, og ég held, að það sé mjög vel framkvæmanlegt.