16.04.1970
Efri deild: 71. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 648 í B-deild Alþingistíðinda. (756)

196. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1970

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er ekki í verulegum atriðum frábrugðið samsvarandi frv., sem legið hafa fyrir hv. Alþ. á undanförnum árum, þannig að fjáröflun til framkvæmdaáætlunarinnar er í meginatriðum með sama sniði og áður hefur verið, þannig að ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða um þetta mál, enda er fjhn. sammála um að mæla með frv. Þó hafa þrír nm. skrifað undir álitið með fyrirvara og flutt við það sérstakar brtt. á þskj. 582.

Að þessum brtt. skal ég á eftir víkja örfáum orðum, en ég tel rétt, að það komi fram í sambandi við þá heimild, sem ákveðin er skv. 5. gr. frv., að verja þeim hluta lánsins, sem er andvirði fóðurvörukaupa, eða allt að 32 millj. kr., til Framkvæmdasjóðs Íslands til endurlána í þágu kornvörubyggingar í Reykjavik, að ég hef orðið var við ótta við það, eins og kom m.a. fram í umr. í n. um það mál, að með þessu væri sköpuð hætta á því, að þetta mundi hækka verð á fóðurvörum frá því, sem nú er, og byggist það m.a. á því, sem oft hefur verið, að verð á korni hefur verið hærra í Bandaríkjunum en í Evrópulöndum. Ég tel rétt í sambandi við það, að taka það fram í fyrsta lagi, að gert er ráð fyrir því, að þær vörur, sem keyptar eru í Bandaríkjunum fyrir þetta lánsfé, séu seldar á heimsmarkaðsverði, en í öðru lagi er rétt að vekja athygli á því, að þeir aðilar, sem að þessari kornvörubyggingu kæmu til að standa og flyttu þessar fóðurvörur inn, öðluðust auðvitað engan einkarétt á því að selja þessa vöru á innlendum markaði, þannig að innflutningur á þessari vöru mundi vera frjáls eftir sem áður, og ætti það að draga úr og raunar gera að engu hættu á því, að þetta leiddi til verðhækkana. Hins vegar hafa verið vissir örðugleikar á því að nýta PL- lánin að undanförnu, sem stendur í sambandi við það, að þau verða einvörðungu notuð til kaupa á landbúnaðarvörum í Bandaríkjunum, en þessi lán eru með hagkvæmum kjörum, þannig að æskilegt er að hagnýta þau í því skyni, sem hér er um að ræða, ef á því eru möguleikar. Ég taldi rétt, að þetta kæmi fram. Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til þess að fjölyrða um þetta.

En svo að ég víki með örfáum orðum að brtt. á þskj. 582, sem fluttar eru af 3 nm., þá er hvað fyrri till. snertir um að ræða till., sem gengið hefur aftur nú á undanförnum þingum, og mér skilst, að það, sem vakir fyrir flm., sé það, að ef um handhafaskuldabréf sé að ræða, sé hætta á því, að eign þessara bréfa eða útgáfa þeirra geti að einhverju leyti torveldað eftirlit með skattaframtölum. Ég álít, að þetta sé á misskilningi byggt. Svo virðist, að sú hugsun sé töluvert útbreidd, sem mér kemur að vísu fyrir sjónir sem alger meinloka, verð ég að segja, að ef menn svíki tekjur sínar undan skatti, þá geti þeir helzt ekkert annað gert við þessar tekjur en að kaupa ríkisskuldabréf, þannig að ef menn séu með því að skrá bréf á nafn hindraðir í því að kaupa handhafaskuldabréf, þá muni viðkomandi verða góðu börnin og telja þessar tekjur fram. En að mínu áliti er þetta á miklum misskilningi byggt. Það er hægt að koma skattsviknum tekjum alveg eins og öðrum tekjum í lóg með öðrum hætti en þeim að kaupa fyrir þær tekjur eða þá peninga, sem þarna er um að ræða, ríkisskuldabréf.

Nú er það svo um allan almenning, skattsvikara jafnt sem aðra, að hann eyðir meginhlutanum af tekjum sínum. Lauslega áætlað er það varla meira en 5% eða svo, sem einstaklingar spara af tekjum sínum. Vissulega er sá möguleiki fyrir hendi að fara til Kanaríeyja í sumar- eða vetrarleyfi eða eyða þeim á einhvern annan hátt, og þá þurfa menn ekki að óttast skattayfirvöld. Jafnvel þótt menn væru svo sparsamir, þeir sem koma tekjum sínum á einn eða annan hátt undan skatti, sem vissulega eru allmargir, að þeir vildu nota þetta til eignaaukningar frekar en að eyða tekjunum, þá eru ótal margar leiðir aðrar til eignaaukningar, sem skattayfirvöld geta ekkert eftirlit haft með, en að kaupa ríkisskuldabréf. Menn geta keypt málverk, húsbúnað, heimilistæki og annað, sem menn samkv. gildandi l. eru alls ekki skyldir til að telja fram. Þó að þeir væru skyldir til þess að telja slíkt fram, virðist það enga þýðingu hafa, því að það er nokkuð, sem ekki er hægt að líta eftir. Tiltölulega auðvelt væri líka að fela eignaaukningu með fasteignakaupum og á annan hátt.

Mér finnst þetta í rauninni á fullkomnum misskilningi byggt. Það eru engar líkur á því, að þó að hægt væri að hindra það, sem maður getur vel hugsað sér, að tekjur, sem væri varið til kaupa á ríkisskuldabréfum, yrðu faldar fyrir skatti, að menn mundu þá ekki fara aðrar leiðir í því efni. Má í því sambandi vekja athygli á því, að í löndum eins og Bretlandi og Bandaríkjunum, þar sem skattaeftirlit er talið strangara en nokkurs staðar annars staðar, eru ekki til neinir eignarskattar og engar eignir yfirleitt taldar fram. Þetta bendir til þess, að þessar enskumælandi þjóðir líti þannig á, að eignaeftirlit hafi yfirleitt enga þýðingu í þessu sambandi.

En þrátt fyrir það gæti komið til mála að hafa þessi ákvæði, en þá ber á það að líta, að hætta er á því, og það er nú ein ástæðan til þess, að ég treysti mér ekki frekar en áður til þess að styðja þessa tillögu, að það mundi draga mjög verulega úr sölu bréfanna, því að þess ber að gæta, að þó að verðtryggingin sé vissulega mikil hlunnindi fyrir þá, sem kaupa þessi bréf, þá verða menn á hinn bóginn að fórna töluverðu til þess að njóta að fullu þeirra fríðinda, sem þarna er um að ræða. Þá þurfa þessir peningar að vera bundnir í 12 ár, og margir veigra sér af eðlilegum ástæðum við því að binda fé sitt í svo langan tíma, þótt ekki væri að öðrum ástæðum en þeirri, að enginn hefur tryggingu fyrir því, að hann verði á lifi eftir 12 ár og geti notið þeirra peninga, sem hann hefur lagt fyrir. Að vísu er hægt að losa þessa fjármuni fyrr, en þá njóta menn ekki að fullu þeirra vaxta og annarra fríðinda, sem þarna er um að ræða.

Varðandi síðari brtt. um að hækka framlagið til rafvæðingar í sveitum, þá er það vissulega gott málefni. Spurningin er aðeins sú, hvort möguleikar eru á því að auka þá fjáröflun, sem lagt er til að heimiluð verði skv. þessu frv. Mér hefur nú skilizt, að fjármagnsskorturinn væri svo mikill, að það hefðu verið ærnir örðugleikar á því að afla þess fjár, sem frv. gerir ráð fyrir, þannig að óraunhæft sé að hækka það framlag, sem þarna er um að ræða, þó að til góðra málefna sé.