16.04.1970
Efri deild: 71. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 652 í B-deild Alþingistíðinda. (758)

196. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1970

Björn Jónsson:

Herra forseti. Sá fyrirvari, sem ég og aðrir 2 hv. þm. í fjhn. höfum gert við frv., hefur nú að verulegu leyti verið skýrður af hv. síðasta ræðumanni, sem hér talaði fyrir till. okkar, sem við flytjum á þskj. 582, en ég vildi þó í örfáum orðum skýra fyrirvara minn örlítið frekar. Hann er í fyrsta lagi sá sami og ég hef reyndar haft á undanförnum árum í sambandi við frv. af þessu tagi, þ.e.a.s. um framtalsskylduna. En ekki hefur verið fallizt á nein þau rök, sem færð hafa verið fram fyrir því, að réttast væri að undanþiggja ekki þessi gjöld framtalsskyldu, enda þótt þau væru skattfrjáls, og hefur hv. formaður fjhn. og frsm. hennar nú sýnt oft og tíðum mjög mikla leikni í því að finna rök gegn því, að þessi háttur væri á hafður. Það voru engin þrot á því frá ári til árs, að hann fyndi þessari till. allt til foráttu. Einu sinni var sú mótbára, sem hann hafði hér í frammi og byggði allan sinn málflutning á, sú, að það væri ekki hægt að setja framtalsskyldu um þetta inn í lög, vegna þess að í skattalögum væru engin viðurlög við því, að menn teldu ekki fram það, sem skattfrjálst væri, og dugði þar ekkert, þótt bent væri á, að það yrði auðvitað bætt úr því, ef slík till. yrði samþykkt.

Nú eru aðrar röksemdir hafðar uppi. Þetta muni draga úr sölu, og þeir, sem kaupa þessi bréf, verði að leggja á sig hvorki meira né minna en það að binda þetta fé í 12 ár til þess að njóta þessara fríðinda. Þetta er vitanlega alls ekki rétt. Þessi bréf eru hér á almennum markaði og eru seld með tilliti til þeirra fríðinda, sem þau gefa. En hitt er alveg augljóst mál og hefur alltaf verið og því reyndar aldrei verið mótmælt, að þetta ákvæði torveldar skattaeftirlit og það í enn ríkara mæli en ákvæðin um það, að sparifé skuli ekki vera framtalsskylt, því að skattayfirvöldum er þó heimilt að fara í bankana og fá allar upplýsingar um viðskipti einstaklinga, sem þau þurfa að rannsaka, en hér er um ekkert slíkt að ræða.

Að þessu sinni höfum við ekki gengið svo langt að gera till. um, að þessi bréf væru framtalsskyld, heldur eingöngu, að þau væru skráð á nafn, og virðist sú till. vera fullkomlega eðlileg með tilliti til þess, að þá væri í raun og veru komið jafnræði á um þessi bréf og um almennt sparifé. En með þeim hætti, sem hér er viðhafður, þá er gert enn meir, hvað þessi bréf áhrærir, en almennt sparifé. En ég ætla nú ekki að hafa um þetta mörg orð, því að þetta hefur svo oft verið rætt, að það er í raun og veru að bera í bakkafullan lækinn að fara að deila um þetta nú.

Um aðra brtt. okkar á þskj. 582 hef ég engu við það að bæta, sem hér hefur þegar komið fram hjá 1. flm. till. Á hinn bóginn er það eitt atriði í sambandi við þetta frv., sem ég vil þó segja um, að ég hef í raun og veru færri aths. við að gera núna en oft áður, vegna þess að frv. fylgja ítarlegri upplýsingar en stundum hafa verið fyrir hendi um, til hvers t.d. féð á að fara. Það hefur ekki ævinlega verið fullkomlega ljóst í sambandi við framlagningu þessara frv., en fyrir því er nú gerð nákvæm grein.

Hitt kynni ég svo betur við, að hæstv. fjmrh. gerði a.m.k. munnlega grein fyrir því, hver lánskjör ættu að verða, þó að það sé ekki ákveðið í lögunum. Það mundi sjálfsagt verða tekið gott og gilt. Í því sambandi vil ég segja það, sem ég hef oft sagt hér áður í sambandi við þessi mál, að ég tel, að lánskjörin hafi verið ríflegri en ástæða hafi verið til, enda gefur það auga leið, að svo er, þar sem þessi bréf renna út frekar á klukkustundum en dögum, þegar þau eru gefin út. Ég tel það skyldu bæði hæstv. fjmrh. og Alþ. að taka ekki dýrari lán en ástæða er til. Ég er sannast að segja viss um það, að þó að lánskjörin væru eitthvað þrengri, þá yrðu ekki erfiðleikar á því að selja þessi bréf.

En það, sem mig langaði sérstaklega til þess að gera hér að umtalsefni og vildi gjarnan heyra frekari skýringar hæstv. fjmrh. á en ég hef áður fengið og mér tekizt að afla, og það er í sambandi við 5. gr. þessa frv., sem verður að teljast til nokkurs nýmælis. Ég skal nú ekki segja um það, hvort það hefur áður verið um aðrar framkvæmdir að ræða í sambandi við slík heimildarfrumvörp en þær, sem sneru að opinberum framkvæmdum. En hér er a.m.k. farið inn á þá braut með 5. gr. frv. að ákveða með l. alveg sérstaka og stórfellda fyrirgreiðslu til einkaaðila, ákveða stórfelld lán til eins einkaaðila, þ.e.a.s. svokallaðrar kornhlöðu í Reykjavík, sem þrír stórir fjármálaaðilar í landinu standa að. Ég skal ekki segja, hvort þetta er neitt einsdæmi, að slíkt sé sett inn í svona frv., en það er a.m.k. ekki algengt, og mér finnst í fljótu bragði a.m.k., að það þurfi talsverðra skýringa við af hendi hæstv. fjmrh. og talsverðs rökstuðnings, að hér sé alveg um sérstaka þjóðnytjaframkvæmd að ræða, þegar þessir aðilar eru með slíkum hætti settir skör hærra en yfirleitt allir aðrir, sem við viðskipti eða atvinnurekstur fást í landinu. Hér hljóta að liggja á lausu alveg óyggjandi rök fyrir því, að hér sé um þjóðþrifamál að ræða, sem sé þjóðhagslega hagkvæmt. Ríkissjóður er þarna að vísu ekki beinn lánveitandi, heldur er ákveðið, að annar milligönguaðili sé, þ.e.a.s. Framkvæmdasjóður, en það breytir auðvitað engu um eðli málsins. Nú kann vel að vera, þó að ekkert liggi fyrir um það, a.m.k. sem ég hef séð eða heyrt um, að þetta kunni að vera arðbært fyrirtæki fyrir þá, sem í það ætla að ráðast. Ég skal ekkert segja um það, hvorki rengja það né staðfesta, en það sem mér finnst aðalatriðið í sambandi við þetta — ja, ef fjmrh. er ekki alfarinn. Ég er nú ekki vanur að skipta mér mikið af veru hæstv. fjmrh. hér í d., en ég verð víst að halda ræðu minni áfram, því að hann vill sýnilega ekki hlusta á það, sem ég hef að segja um þetta.

En það, sem ég vildi sagt hafa um þetta, er þá það, að menn hljóta að spyrja um það, hvaða áhrif þetta fyrirhugaða fyrirtæki hefur á verðlag fóðurvara og þar með á verðlag landbúnaðarvara í landinu, sem er auðvitað ákaflega mikilvægt í okkar efnahagskerfi. Er það hyggilegt að binda kaup frá ákveðnum aðila jafnvel í fjölda ára fram í tímann á þessari vöru? Er það líklegt, að af því muni stafa hagræði í fyrsta lagi fyrir bændastéttina og í öðru lagi fyrir neytendur? Er ekki hyggilegra fyrir okkur í þessu efni að vera óbundnir um kaupin og geta sætt hagstæðasta verði eins og það er á hverjum tíma? En hæstv. ráðh. upplýsti það í framsöguræðu sinni fyrir þessu frv., að í sambandi við þetta lán, sem þarna á að veita, hefðu þessir aðilar, sem að kornhlöðubyggingunni standa, skuldbundið sig um það að kaupa korn frá Bandaríkjunum. En önnur rök en þau, að það greiddi fyrir nýtingu PL-480 lána hafði hann ekki þá um þetta mál.

Þá kemur í þriðja lagi að mínu viti til álita, hvort það sé í þágu hagstæðs verðlags á þessari þýðingarmiklu vöru, sem nú í ár er flutt inn fyrir sennilega yfir 700 millj. kr., að sameina þrjá aðalsamkeppnisaðilana um sameiginleg innkaup á fóðurvörum. En þessir aðilar munu flytja inn allt að því 80% af öllum fóðurvörum, sem til landsins eru fluttar.

Í fjórða lagi spyr ég og hef ekki fengið svör við því enn: Er hyggilegt frá verðlagssjónarmiðum á þessari mjög þýðingarmiklu vörutegund að stuðla að því, að meginhluti hennar sé fluttur inn hingað til Reykjavíkur og dreift héðan með einhverjum hætti út um landið?

Í fimmta lagi spyr ég: Hver er afstaða hagsmunasamtaka bænda til þessa máls? Og ég spyr, og kannske svara því sjálfur að einhverju leyti játandi, hvort hér sé um að ræða myndun innflutnings- og söluhrings, sem hafi aðstöðu til þess að ná svipaðri einokunaraðstöðu og t.d. olíufélögin þrjú hafa nú myndað um sölu og dreifingu á olíu. Og þá vil ég aðeins spyrja í sambandi við þá fullyrðingu hv. frsm. fjhn., sem ég vildi gjarnan fá staðfesta af hæstv. fjmrh., af því að ég tel það gilda meira í þeim efnum: Verða aðrir samkeppnisaðilar við þennan hring, sem þarna er verið að mynda um fóðurvörukaupin til landsins, studdir með hliðstæðum hætti við framkvæmdir, sem þeim eru nauðsynlegar til þess að geta staðið í samkeppni við þennan hring, sem þarna er verið að mynda um innflutning, sem nemur hvorki meira eða minna en 700–800 millj. kr. á ári, þegar mest er?

Mér hefur ekki tekizt að fá hæstv. fjmrh. til að hlusta á aths. mínar þrátt fyrir tvær tilraunir til þess, og mér hefur heldur ekki tekizt að fá svör við þessum spurningum, sem ég hef borið hér fram, og aths. frá öðrum aðilum. Og ekkert af því a.m.k., sem mér hefur tekizt að fá upplýst í sambandi við þetta mál, hefur sannfært mig um, að hér sé um neina þjóðhagslega hagkvæma framkvæmd að ræða, nema síður sé.

En það er sagt, að fóðurvörukaup samkv. PL.-480 lánum séu á heimsmarkaðsverði. Það kann að vera rétt, að þetta sé á pappírnum, en þá er a.m.k. annað tveggja, að það er bara á pappírnum eða þá að oft er tækifæri til þess að kaupa fóðurvörur í stórum stíl frá Evrópu á verði, sem er langt undir heimsmarkaðsverði. Það er nefnilega margsannað á seinustu árum og með athyglisverðum hætti, að það hefur verið unnt að fá betri kjör frá Evrópu en hægt hefur verið samkv. þessum Bandaríkjakaupum, og það hefur t.d. tekizt hjá einu litlu fyrirtæki, sem hefur aðeins brot af innflutningnum, að hvorki meira né minna að standa fyrir því að lækka fóðurverðið úr 8000 kr. á tonnið niður í 5000 kr. með kaupum frá Evrópu, og á þessu eru vitanlega mjög eðlilegar skýringar. Framboð á fóðurvörum í Evrópu er geysilega mikið, og það er ekkert árvíst, hvar kaupin eru hagkvæmust. Í fyrra var það t.d. í Frakklandi, sem bauð þá fóðurvörur niður úr öllu valdi. Þar var þá hægt að gera hagstæðustu kaupin. Danir hafa borgað jafnvel árum saman niður verð á fóðurvörum, og þar hefur þess vegna verið hægt að gera afar góð kaup miðað við heimsmarkaðsverð. Aðrir aðilar í Evrópu hafa svo lagt ýmislegt á sig í sambandi við samkeppni um þetta, m.a. sekkjað fóðrið án nokkurs aukakostnaðar fyrir kaupendur hér á landi. En sú starfsemi, virðist manni nú, að eigi að fara hér fram í Reykjavík a.m.k. að því leyti sem bændur geta ekki tekið við þessari vöru ósekkjaðri. Ég held þess vegna, að það sé alveg nauðsynlegt fyrir okkur að vera sem allra mest óbundnir um kaup á fóðurvörum og að það geti tæpast verið hagstætt og jafnvel verið hættulegt að binda þessi kaup fram í tímann, hvað svo sem líður nýtingu á lítilfjörlegum lánum.

Ég var að víkja að því aðeins, hvað ynnist við það að einskorða e.t.v. að mestu innflutninginn við Reykjavík eina. Mér er sagt, að verð á fóðurbæti sé nú í kringum 7500 kr. tonnið, og enn fremur, að eðlileg dreifing hér á Reykjavíkursvæðinu sé eitthvað nálægt fjórða parti af öllum innflutningi til landsins eða rösklega 5 þús. tonn af e.t.v. upp undir 20 þús. tonnum á ári. Mér er líka sagt, að í slíkri fóðurgeymslu sem þarna er um að ræða leggist á geymslugjald, sem muni nema allt að hálfu þúsundi króna á hvert tonn, og síðan verði flutningskostnaður hér á landi frá þessari fyrirhuguðu kornhlöðu 2–3 þús. kr. á tonnið út um landið. Mínir heimildarmenn, sem ég skal ekkert um segja að hafi allan sannleika uppi um þessi efni, telja það alveg hiklaust, að ef farið er að safna korni hingað í Reykjavík og dreifa því út um landið með ýmiss konar hætti, þá mundi það valda stórfelldri hækkun á verði fóðurbætis. Þar muni koma til, eins og ég sagði, geymslugjald, sekkjunarkostnaður, blöndun og loks flutningskostnaður. Þannig muni það verða miklu óhagstæðara að flytja það með skipum, þó með stærri skipum væri, sem tæplega kemur þó til greina, því að fraktir verða ekki miklu ódýrari í slíkum flutningi, nema um sé að ræða 15–20 þús. tonna skip, og það er frekar ólíklegt, að svo stór skip verði notuð til þessara flutninga. Því tel ég miklu hagkvæmara, um öll kaup úti á landsbyggðinni a.m.k., að flytja vöruna hingað frá V.-Evrópu með tiltölulega smáum skipum, sem dreifa vörunum sjálfum um landið á aðalhöfnunum.

Ég skal ekki hafa um þetta allt of miklar fullyrðingar, því til slíks skortir mig þekkingu og upplýsingar, sem ekki hafa hingað til legið á lausu. En ég hef hins vegar talið mér skylt að benda á, að hér kunni að vera farið inn á varhugaverða braut og það sé ekkert augljóst mál, að það sé hentugt, að þessir þrír stóru í fóðurvöruinnflutningnum myndi eins konar einokunarhring til þess að dreifa þessari vöru, og sé ég ekki ástæðu til þess að styðja slíkt með milljónatuga fyrirgreiðslu af opinberu fé, allra sízt þar sem hér er ekki um neitt atvinnumál að ræða af neinu tagi. Sumum fyndist kannske, að þessu fé væri betur varið til einhvers fyrirtækis, sem einhverja atvinnu skapaði, en hér er ekki um það að ræða.

En vegna þess, að ég verð að játa, að þrátt fyrir grunsemdir mínar um þessi mál vil ég bíða og sjá, hvort það koma fram, áður en ég fer að flytja brtt. varðandi þetta, upplýsingar fyrir 3. umr. málsins, sem sanna, að hér sé um eitthvert sérstakt þjóðþrifamál að ræða, sem ástæða sé til þess að taka inn í heimildarlög, sem aðallega hafa átt að vera miðuð við opinberar framkvæmdir, að setja þessa framkvæmd skör hærra en allar aðrar framkvæmdir, sem fyrirhugaðar eru af einkaaðilum í þessu landi.