20.04.1970
Neðri deild: 78. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 668 í B-deild Alþingistíðinda. (771)

196. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1970

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð, sem ég vildi segja í sambandi við 1. umr. um frv. hæstv. fjmrh. um heimild ríkisstj. vegna framkvæmdaáætlunarinnar. Í sambandi við það, sem kom fram í ræðu hæstv. fjmrh. um skýrslu þá, sem útbýtt hefur verið til hv. þm., vil ég taka það fram, að ég tel það til mikilla bóta og mjög gott að hafa einmitt fengið hana í hendur, áður en þetta mál er hér til afgreiðslu.

Ég ætla ekki við þessa umr. að fara að ræða þá skýrslu eða það, sem fram kemur í henni, en það eru fyrst og fremst tvö atriði, sem mig langar að víkja að og fá upplýsingar um.

Fyrra atriðið er í sambandi við landshafnirnar. Það er gert ráð fyrir því, að til landshafna verði lánsútvegun 8.6 millj. kr. Nú hefur það verið svo um landshöfnina á Rifi á Snæfellsnesi, að framkvæmdir hafa ekki verið þar tvö síðustu árin, en það var hins vegar gert ráð fyrir því í afgreiðslu stjórnar landshafnarinnar, að til framkvæmda kæmi á árinu 1970. Landshafnarstjórn fékk vitneskju um það fyrir nokkru, að í þessum 8.6 millj. kr. væri ekki gert ráð fyrir því, að fé yrði útvegað til framkvæmda á Rifi. Í því sambandi leitaði landshafnarstjórn til hæstv. samgmrh. og tjáði honum meðferð þessa máls áður og ósk um það, að til framkvæmda kæmi á árinu 1970, enda er það brýn nauðsyn til þess að geta gengið frá því verki að nokkru leyti, sem þarna hefur verið unnið á undanförnum árum, og sumu stefnt í hættu, ef ekki verður frá gengið, eins og þeim varnargörðum, sem þarna hafa verið gerðir. Nú hefur ekki orðið nein breyting á þessu, frá því að við í stjórn Rifshafnar fréttum um þetta, og því vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. fjmrh., hvort það sé gert ráð fyrir því, að nokkuð af þessu fé gangi til Rifshafnar til framkvæmda á árinu 1970 eða hvort það mál hafi fengið afgreiðslu í hæstv. ríkisstj. á annan hátt.

Í sambandi við það, sem hér er til rafvæðingar í sveitum, þá vil ég geta þess, að þegar fjárlög voru til afgreiðslu á s.l. hausti, þá ræddum við nokkuð í hv. fjvn. um aukið fé til að dreifa rafmagni í sveitirnar. Og það varð að samkomulagi hjá okkur í n. að geyma okkur þetta mál, þangað til frv. um framkvæmdaáætlun yrði hér til meðferðar. Eftir að þing kom svo saman í vetur eftir áramótin, ræddum við þetta í n. á ný, og form. tók þá að sér að kanna málið. Árangurinn af þessu hefur orðið sá, að nú er því slegið föstu eða frá því gengið í sambandi við þessa áætlun, að á árunum 1970 og 1971 skuli lokið við að dreifa rafmagni upp á 11/2 km.

Út af fyrir sig er ég ánægður yfir því, að þetta skuli þó hafa tekizt. Þó harma ég hins vegar það, að ekki hafi verið lengra gengið í þessu efni og því verki lokið á yfirstandandi ári, af því það er ekki um neina verulega fjárhæð að ræða, svo að á næsta ári væri hægt að halda áfram og taka næsta vegalengdatímabil eða a.m.k. upp að 2 km.

Ég vildi í framhaldi af þessu leyfa mér að fara fram á það við hæstv. ríkisstj. og hv. n., að hún athugaði, hvort ekki væri hægt að fá þar nokkru um þokað, svo að hægt væri að ljúka á árinu 1970 því að dreifa rafmagni upp á 11/2 km. Þá væri hægt á næsta hausti að ganga frá nýrri áætlun, sem ég tel brýna nauðsyn bera til, og legg höfuðáherzlu á, að þá verði gengið frá rafmagnsmálunum í heild, hvað á að fara langt í því að dreifa frá samveitu með línum, hvaða vegalengd á að taka inn á það kerfi og enn fremur hvernig á að mæta þörfum þeirra, sem þá verða eftir. Hér er ekki orðið um neitt stórmál að ræða, en hins vegar knýjandi mál að fá úr þessu skorið, því að þeir, sem eftir sitja og enn bíða eftir rafmagni, eru að vonum orðnir langeygðir, og er verið að gera margs konar ráðstafanir til þess að reyna að brúa það bil. Og það væri allt annað að þessum málum að vinna, ef til væri heildaráætlun um, hvað langt ætti að fara og hvenær því skyldi lokið og hvernig væri farið með þá, sem þá yrðu eftir. Á þetta tvennt vildi ég leggja verulega áherzlu og vænta þess, að það fáist um það einhverjar upplýsingar í sambandi við afgreiðslu þessa frv. hér um framkvæmdaáætlun, hvernig með þessa þætti verði farið.

Ég ætla svo ekki að fara að ræða hér um húsnæðismálin, þau verða hér til sérstakrar meðferðar, og um vegamálin, eins og hæstv. fjmrh. gat um áðan, eru möguleikar skv. vegáætluninni að útvega meira lánsfé en hér er gert ráð fyrir, og vænti ég þess, að það verði tekið til athugunar síðar.