20.04.1970
Neðri deild: 78. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 669 í B-deild Alþingistíðinda. (772)

196. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1970

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Vesturl. hefur spurt hér um tvö atriði, sem mér er mjög ljúft að svara.

Annað er um framkvæmdir í Rifshöfn. Því miður er ekki gert ráð fyrir því í framkvæmdaáætluninni, eins og hún liggur fyrir, að ráðizt verði í framkvæmdir við Rifshöfn á þessu ári. Vafalaust hefði það verið æskilegt, það er annað mál, en það tókst ekki að ná saman endum með áætlunina. Það er gert ráð fyrir, ef ég man rétt, 8.8 millj. kr. til landshafna, og er gert ráð fyrir, að lokið verði framkvæmdum, sem nú standa yfir, í Njarðvíkum og í Þorlákshöfn. Það, sem gerði nauðsynlegt að ráðast í Þorlákshöfn, var það, að það urðu sérstakar skemmdir þar, sem fram komu, og þess vegna óumflýjanlegt að leggja í það nokkurt fé. Það veldur því, að dýpkun sú, sem ráðgerð var á Rifi, mundi verða skv. þessu að bíða í eitt ár, en mundi þá með eðlilegum hætti, skilst mér, eftir því sem vitamálastjóri hefur gefið upp, vera forgangsframkvæmd á næsta ári.

Varðandi línulagnir um sveitirnar, þá vil ég aðeins upplýsa, að skv. þeirri lánsfjáröflun, sem hér er gert ráð fyrir, en til þessara þarfa er nú í fyrsta skipti í framkvæmdaáætlun aflað lánsfjár, er gert ráð fyrir því og raunar vitað, eins og hv. þm. líka réttilega tók fram, að með þessum hætti er auðið á þessu og næsta ári að ljúka lagningu allra héraðsveitna, sem eru innan 1.5 km að meðaltalsvegalengd milli bæja. Það er ráðgert, að á þessu ári verði til ráðstöfunar til lagningar héraðsveitna miklum mun hærri fjárhæð en nokkru sinni áður eða samtals um 60 millj. kr., og verður því mjög mikið átak gert í þessum efnum nú í sumar. Vegna þess að hv. þm. orðaði það, hvort ekki væri auðið að afla meira fjár, til þess að hægt væri að ljúka þessum framkvæmdum í sumar, vil ég aðeins upplýsa það, að það mun ekki hafa neina þýðingu, þó það verði aflað meira fjár, vegna þess að það er ekki hægt að framkvæma meira á þessu sumri en hér er gert ráð fyrir, þannig að framkvæmdir mundu færast á milli ára og því ekki hafa neina grundvallarþýðingu, þótt meira fjár væri aflað til framkvæmdanna nú. Þetta tel ég nauðsynlegt, að komi fram, vegna þess að með þessum hætti, þótt menn kynnu að segja sem svo, að það væri æskilegt að ljúka þessu verki í ár, þá mun það tæknilega, eftir því sem mér er tjáð af rafmagnsveitunum, ekki vera framkvæmanlegt. Ég tel, að mjög vel megi una við það átak, sem nú á að gera, og ljúka þessum framkvæmdum á næsta ári. Það auðvitað breytir engu um það, að hægt væri að marka á næsta hausti, ef mönnum sýndist svo, stefnu um það, hvert framhaldið eigi að vera, þótt ekki verði búið að ljúka þessu fyrr en á árinu 1971. Einhverja stefnu þarf að sjálfsögðu í því efni að marka, þannig að ég held, að það geti vel farið saman skoðanir manna um það efni, eins og hv. þm. lýsti þeim hér, en ég álit, að það sé ekki auðið að afla meira fjár í þessu sambandi og tel, að það hafi heldur ekki neina þýðingu miðað við þær upplýsingar, sem ég hef um, hvað ráðgert er að vinna mikið á þessu sumri og hvað auðið er tæknilega séð að leysa af hálfu Rafmagnsveitna ríkisins á þessum vettvangi.