20.04.1970
Neðri deild: 78. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 670 í B-deild Alþingistíðinda. (773)

196. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1970

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég leyfi mér að þakka hæstv. fjmrh. fyrir þau svör, sem hann gaf við fsp. mínum, sem eru tæmandi, þótt ég sé ekki jafnánægður með niðurstöður af þeim. Í sambandi við Rifshöfn, þá vil ég upplýsa það um þá hugmynd Rifshafnarstjórnar að nota fyrstu fjármunina til þess að dýpka höfnina, að frá henni hefur verið horfið. Það er af þeirri einföldu ástæðu, að garðar þeir, sem lagðir voru fyrir nokkrum árum, eru ekki frágengnir og þeir eru nú í hættu. Og það hefur Rifshafnarstjórn sannfært sig um nú einmitt á s.l. hausti, að það er ekki hægt að halda áfram þeirri hugmynd að dýpka höfnina. Það verður að ganga frá görðunum fyrst. Ég vil því mjög biðja hæstv. ríkisstj. að athuga möguleika á því, hvort ekki er hægt að útvega fé til þess að gera þetta á þessu ári, vegna þess að málinu er stefnt í hættu.

Ég skal ekki fara að deila við hæstv. fjmrh. um það, hvort hægt væri að koma í verk meiri framkvæmdum í raforku á þessu sumri en þessir fjármunir stefna að. En hitt legg ég megináherzlu á, að ný áætlun um lok rafvæðingar rafmagnsveitnanna verði gerð á næsta hausti, og það verði þá stefnt að því á árinu 1970 að ljúka af 11/2 km og hefja framkvæmd í því, sem næst verður tekið.