25.04.1970
Neðri deild: 83. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 672 í B-deild Alþingistíðinda. (779)

196. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1970

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég held það hafi verið í fyrra, þegar framkvæmdaáætlun fyrir 1969 var til umr., að þá spurði ég hæstv. fjmrh. að því, hvað væri fyrirhugað með virkjunarrannsóknir á Norðurlandi. Það var sérstaklega í sambandi við Dettifossvirkjun, sem ég spurði þessarar spurningar. Ég man ekki betur en ég fengi það svar, að það mundi kosta 25–30 millj. kr. að fullrannsaka Dettifossvirkjun. Ég man ekki betur en það kæmi fram í svari hæstv. ráðh., að það að láta gera frumrannsóknir á þessum stað mundi kosta 5 millj. kr., og það væri fyrirhugað að gera á næsta sumri, þ.e.a.s. á s.l. sumri. Ég veit, að atvinnumálanefnd Norðurl. mun hafa líka mælt mjög með því, að þetta yrði gert. Nú langar mig til að spyrja hæstv. fjmrh. að því, hvort þessi rannsókn hafi farið fram á s.l. sumri.

Það kemur fram í þessari áætlun, að það á að verja 26 millj. kr. í heild til þess að athuga eða gera virkjunarrannsóknir víða á landinu, en það er ekki tilgreint, hvað eigi að sitja fyrir, heldur eru ýmsir staðir þar nefndir. Nú vil ég spyrja hæstv. ráðh. líka að því, hvort það sé fyrirhugað að athuga um virkjunarmöguleika við Skjálfandafljót. Eins og hv. þm. vita, hefur verið í ráði að flytja jafnvel hluta af Skjálfandafljóti til Laxár, en hins vegar hefur ekki verið athugað, svo að ég viti til, um möguleika að virkja við Íshólsvatn, þó að ýmsir leikmenn álíti þar góða möguleika. Ég veit, að ýmsir Norðlendingar leggja mikið kapp á, að þetta verði athugað, og þess vegna vil ég fá það upplýst, hvað er fyrirhugað í þessu efni.