25.04.1970
Neðri deild: 83. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 683 í B-deild Alþingistíðinda. (784)

196. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1970

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Mig langar til að segja nokkur orð í sambandi við það frv. til l., sem heimilar ríkisstj. að taka lán vegna framkvæmdaáætlunar fyrir árið 1970.

Vil ég þá fyrst víkja örlítið að brtt. minni hl. við 7. gr., þar sem lagt er til, að upptalningin í 7. gr., hvernig verja skuli lánsfé, breytist þannig, að í stað 15 millj. kr. til rafvæðingar í sveitum komi 30 millj. kr. Ég vil mæla með þessari till., og mér finnst, að hún eigi í fyllsta máta rétt á sér. Ég verð að segja það, að ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum með afstöðu hv. 4. þm. Norðurl. v., þegar hann tók til máls. Ég vissi, að hann var frummælandi meiri hl., en ég hélt, að hann sæi sér fært að styðja þessa brtt. Undir þessum umr., sem hér hafa farið fram, má vel vera, að hann og aðrir flokksbræður hans, sem í sveitum búa, sjái sér fært að endurskoða afstöðu sína til hennar.

Við vitum það, að hundruð sveitabýla bíða í ofvæni eftir rafmagni, hundruð bænda og fjölskyldur þeirra hafa um áratugi verið afskipt í orkumálum, og það er liðin meira en hálf öld frá því, að rafvæðing landsins hófst, og þó að landið sé stórt og fjarlægðir miklar, þá er það mín skoðun, að það sé ekki vansalaust, að enn skuli vera hundruð býla á Íslandi, sem ekki hafa rafmagn til heimilisnota. Það er vegna þessarar skoðunar minnar og annarra, sem minni hl. fjhn. hefur komið með þá brtt., sem ég minntist á.

Það hefur verið minnzt á það, að þó að brtt. yrði samþ., væri ekki hægt að framkvæma meira en fyrir það fjármagn, sem þegar er áætlað, þar sem svo væri skipað málum, að starfsmenn rafveitna hefðu svo mikið á sinni könnu, að það væri ekki hægt að sinna því. Nú vildi ég leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh., hvort það væri ekki hægt að fjölga verkfræðingum, tæknifræðingum og öðrum þeim tæknimönnum, sem eiga að sjá um áætlanagerð og undirbúning, og auka vinnukraft þannig, að þetta gæti tekizt. Það er sagt í sambandi við rafvæðingu í sveitum í aths. við frv., að með þeirri 15 millj. kr. lánsfjáröflun til sveitaveitna, sem hér liggur fyrir, sé ætlunin að flýta lúkningu rafvæðingar býla, þar sem meðalfjarlægð milli býla, sem tengd eru veitum, er eigi meira en 1.5 km, miðað við að fjárveiting 1971 verði svipuð og í ár. Ásamt heimtaugagjöldum verði með nokkurri lánsfjáröflun til viðbótar unnt að ljúka þessari rafvæðingu á því ári. Ég vil nú leyfa mér að skora á hæstv. ríkisstj. að reyna að flýta þessu enn meir og að láta árið 1971 ekki líða allt, án þess að þessi býli fái rafmagn.

Í sambandi við þessa fjarlægð milli bæja, 1.5 km, á hvaða hátt sem hún hefur verið fundin, þá orkar það nú stundum tvímælis, t.d. þegar vatnsaflsstöðvar inn á milli trufla þannig þetta kerfi, að einstaka bændur sjá fram á það, eins og löggjöfin er í dag, að þeir fái jafnvel aldrei rafmagn. Ég þekki fleiri en eitt tilfelli í mínu kjördæmi, þar sem þannig er háttað. Ég get upplýst það hér, að jörðin Höfði í Austur-Skagafirði er meðal þeirra. Við Lónkot, næsta bæ norðan Höfða, lýkur línunni frá Siglufirði, og á næsta bæ sunnan Höfða er vatnsaflsstöð, og af því að þar var sett lítil vatnsaflsstöð á sínum tíma, þá kemur Höfði ekki til með að fá rafmagn, eins og nú háttar. Mér finnst þetta mjög vanhugsað, og atriði eins og þetta þarf endurskoðunar við.

Því hefur verið haldið fram og sjálfsagt með réttu, að aldrei hafi verið meira fjármagni varið til rafvæðingar en einmitt nú. Ekki ætla ég að draga það í efa. Sjálfsagt er þetta alveg rétt. Það væri ekki fullyrt nema það væri rétt. En við skulum bara hafa í huga, hvers virði krónan er. Hún er orðin svo lítil, að hún varla sést, og hafandi það í huga er ástæða til að endurskoða það fjármagn, sem áætlað er að fari í rafvirkjanir 1970–1971.

Það hefur komið fram í ræðum þeirra, sem hafa talað á undan mér, að þeir telja, að það fjármagn, sem hér er tekið að láni, eigi allt að fara til framkvæmda 1970 og 1971. En ég vil vekja athygli á því, að sumt af þessu láni á að fara til endurgreiðslna á skuldum, endurgreiðslna vegna framkvæmda, sem þegar hafa átt sér stað. Þá vil ég líka aðeins vekja athygli á því, að allt það fjármagn, sem á að afla samkv. þessari lántöku, fer í Reykjanesbraut, fer í vegaframkvæmdir samkv. Vestfjarðaáætlun, það fer í Hafnarfjarðarveg í Kópavogi, það fer í landshafnir, dýpkun í Njarðvík og viðgerð á Þorlákshöfn, og svona gæti ég lengi talið upp. Ég er ekki að rifja þetta upp eða benda á þetta vegna þess, að ég sjái ofsjónum yfir því, að þessir staðir fái þetta fjármagn. Þeim veitir ekki af. En ég vil bara minna á þetta og óska eftir því, að hæstv. ráðh. hafi þetta í huga, þegar forsvarsmenn Norðurl. v. koma innan tíðar á fund ráðh. til að fá ýmsa fyrirgreiðslu við framkvæmdauppbyggingu í kjördæminu.