25.04.1970
Neðri deild: 83. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 686 í B-deild Alþingistíðinda. (786)

196. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1970

Frsm. minni hl. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég skal nú ekki tefja mikið þessar umr. Auðvitað er þó full ástæða til þess að ræða nánar mörg atriði varðandi ráðstöfun þeirra miklu fjármuna, sem þetta frv. fjallar um. En ég skal ekki fara langt út í það. Í nál. minni hl., sem aðeins er skriflegt enn og verður ekki útbýtt fyrr en eftir helgi, er vikið aðeins að orkuöfluninni utan suðvestursvæðisins. Þetta mál er mjög ofarlega í mínum huga og af skiljanlegum ástæðum. Hvað á að segja um það t.d., hvernig dregizt hefur ár frá ári að framkvæma virkjun í Lagarfossi. Á Austurlandssvæðinu er um helmingur af allri framleiddri raforku, a.m.k. sum árin, framleiddur í dísilstöðvum. Og hallinn á rekstri Austurlandsveitu er, að því er manni skilst, svo gífurlegur, að hann hefur komizt allt upp í 20 millj. kr. á ári. — Það er óskynsamlegt að láta þetta svo til ganga og mér liggur við að segja blátt áfram heimskulegt. Það er auðvitað fyllilega álitamál, þegar verið er að ræða lántökur og ráðstöfun á mörg hundruð millj. kr. á vegum ríkisins, hvað eigi að gera í sambandi við svona mál, sem virðast algerlega upplögð mál til tafarlausra framkvæmda. Það hefur enginn leyft sér að halda því fram, að virkjun Lagarfoss sé út af fyrir sig óhagstæð. En menn hafa hins vegar verið með margs konar útreikninga, sem sumir hverjir eru nánast hlægilegir í augum leikmanna.

Þá er líka í nál. okkar í minni hl. aðeins vikið að vegalánunum. Ég dreg ekkert í efa, að það er nauðsynlegt að byggja upp hraðbrautir á þeim vegaköflum, sem undir mestri umferð liggja. Mér er alveg ljóst, að það er útilokað að halda þeim vegum færum með malarlagi, enda er umferð á þeim köflum, sem fjölfarnastir eru, komin langt yfir það, sem talið er hugsanlegt að viðhalda á malarvegum í nálægum löndum, t.d. í Noregi. En hitt er svo annað mál, að það hlýtur að koma til álita, þegar fjallað er um mál af þessu tagi, 500 millj. kr. lántökuheimildir, þá vaknar aftur spurningin, hvort það eru ekki fleiri afmörkuð og stór verkefni í vegagerð, sem ástæða er til að sinna á þennan hátt. Mér eru þar efst í huga jarðgöngin undir Oddsskarð. Þar er hátt í 2000 manna byggð annars vegar við þennan fjallgarð, byggð, sem er einangruð mikinn hluta vetrar.

Þannig er auðvitað ótalmargt, sem eðlilegt væri að skoða nánar í sambandi við þetta mál. En málið ber ekki þannig að, að það sé raunverulega hægt að brjóta þessa hluti til mergjar. Og þrátt fyrir það, þó að vitneskja um framkvæmdaáætlunina hafi legið fyrr fyrir á síðustu tveimur þingum en áður var, þá vil ég segja það, að menn hafa ekki aðstöðu til þess, þegar kemur á afgreiðslustig hér á Alþ., að fjalla eins ítarlega um þessi mál og eðlilegt væri samkv. eðli málsins.

Hæstv. ráðh. viðurkenndi það áðan í þeim orðum, sem hann sagði hér, að það væri í raun og veru óheppilegt að hafa ekki skuldabréfin framtalsskyld og yfirleitt að hafa ekki framtalsskyldu á eignum manna. Hann vildi hins vegar láta bíða með breytingar á þessu, þangað til almenn endurskoðun skattalaganna hefur farið fram. Þetta er náttúrlega matsatriði, hvað á að gera í því. En ég hef ekki af hans orðum sannfærzt um það, að það sé nein sérstök ástæða til þess að láta það bíða að taka upp framtalsskyldu á þessum bréfum. Við höfum áður í minni hl. fjhn. Nd. ár eftir ár flutt brtt. varðandi þetta atriði, og þær hafa ævinlega verið felldar af stjórnarliðinu.

Varðandi hina brtt. okkar í minni hl. verð ég að segja, að ég dreg mjög í efa, að það séu ekki not fyrir meira fé á þessu ári til rafvæðingar sveitanna. Ég dreg það mjög í efa. Mér sýnist það alveg augljóst, að heimild til aukinnar lántöku í þessu skyni gefi ríkisstj. rýmri hendur til framkvæmda á þessu ári og til undirbúningsframkvæmda fyrir næsta ár. Mér sýnist það alveg augljóst. Í annan stað er æskilegt að draga úr þeim skyndilánum, sem heimaaðilar nú síðustu missirin hafa, tilknúðir, lagt fram til þess að hraða dreifingu raforkunnar á hinum einstöku svæðum. Mér er fullkunnugt um það, að sum þau sveitarfélög a.m.k., sem staðið hafa að slíkum lánsútvegunum, geta þetta raunverulega ekki, þó að þau geri það. Í sumum tilvikum er um að ræða sveitarfélög, sem á undanförnum árum hafa staðið í margháttuðum og fjárfrekum framkvæmdum, þó að þau hafi enga tekjustofna til að leggja á annað en nauðþurftatekjur íbúanna. Þetta eru sveitarfélög, þar sem engin fyrirtæki eru rekin og engir slíkir tekjustofnar eru til þess að byggja á. Þau hafa í sumum tilvikum ekki aðeins unnið að því að byggja upp sína skóla, heldur einnig átt hlut að uppbyggingu félagsheimila og staðið að mjög mikilli fjárfestingu í sambandi við læknishéruðin og þær framkvæmdir, sem hafa farið fram á vegum þeirra, svo að dæmi séu nefnd, og eru þannig í sjálfu sér algerlega getulaus til þess að taka stór lán og standa undir vöxtum af lánum til þess að flýta fyrir rafvæðingunni í viðkomandi sveitum. Það væri þess vegna vissulega ekki nema æskilegt, að eitthvað væri hægt að draga úr þessum skyndilánum heimaaðila.

En ég tek það hins vegar fram, að fyrir mér vakir það þó fyrst og fremst með þátttöku minni í flutningi þessarar brtt. að auka framkvæmdahraðann við orkudreifinguna. Ég lít mjög alvarlegum augum á ástandið í þessum efnum og þá alveg sérstaklega á þann mikla mismun, sem nú er orðinn á milli byggðarlaga varðandi dreifingu raforku um sveitir. Þar sem dreifingunni er komið lengst, t.d. í Eyjafirði, eru innan við 3% sveitabýla utan samveitusvæða, aðeins tæp 3%. Og svo að annað dæmi sé nefnt, Rangárvallasýslan, þá er tala þeirra býla, sem ekki eru tengd samveitum þar, rétt liðlega 5%. En svo aftur á öðrum stöðum, þar sem strjálbýlla er, eru enn þá um eða yfir 70% bæja ótengd samveitunum, t.d. í Norður-Múlasýslu. Ég álít, að þetta sé stórkostlegt alvörumál. En e.t.v. er eðlilegt, að mönnum gangi misjafnlega að setja sig í spor manna undir þessum kringumstæðum. Eg held þó, að það verði allir að reyna að gera sér fulla grein fyrir því, hvað það þýðir í dag að vera án rafmagns. Það er ekki einasta, að menn hafi ekki ljós, heldur er mönnum fyrirmunað að nota þau tæki bæði innanhúss og utan, sem nú þykja sjálfsögð á hverju einasta heimili, þar sem rafmagnsveitur ná til. Og þessu til viðbótar kemur svo nú á allra síðustu missirum, að þeir, sem ekki hafa rafmagn, geta ekki heldur notið sjónvarps. Það er engin tilviljun, að í blaðaviðtali, sem ég rakst á einhvers staðar á dögunum, við bónda frá Norðurlandi, þar sem hann setur fram fimm atriði, sem hann telur undirstöðuatriði í sveitinni og öðrum nauðsynlegri, þá telur hann rafmagnið nr. eitt. Ég álít það enga tilviljun. Svo er þess einnig að gæta, eins og fram kom í þeim orðum, sem hv. 1. þm. Norðurl. e. mælti hér áðan, að biðin frá því að byrjað var á orkudreifingu um sveitir, m.ö.o. frá því að farið var að gefa undir fótinn með það að dreifa raforku svo vítt sem fært þætti um landið, er þegar orðin ákaflega löng.

Annað, sem ég hef alltaf lagt mikla áherzlu á, er, að menn fá ekki að vita, hvað er fram undan. Það hafa engar undirtektir fengizt undir það, hvorki nú á þingi né áður, þegar því máli hefur verið hreyft, að skoða verkefnið alveg til botns og gera, eftir því sem við verður komið, heildaráætlun um lok rafvæðingarinnar, dreifingu út frá samveitum svo langt sem nær og svo, hvað hægt væri að gera að öðru leyti til þess að rafvæða þann hluta byggða, sem þá yrði eftir.

Það er sagt, og ég hef síður en svo viljað draga fjöður yfir það, þegar ég hef rætt þessi mál, að núna á yfirstandandi ári fara fram miklar framkvæmdir við orkudreifinguna, miklu meiri en þær voru s.l. tvö ár og sérstaklega s.l. ár. Það er engin ástæða til þess að draga fjöður yfir þetta. Fyrrv. ráðh. raforkumála sagði hér um daginn, þegar þessi mál bar á góma af öðru tilefni hér á hv. þingi, að hann áliti það ekkert stórvirki að ljúka rafvæðingunni fyrir árslok 1973 eða 1974. Undir það vil ég alveg taka. Það er þó vel að merkja, að ef það á að verða, þá þarf áreiðanlega að taka til hendi og fylgja þessum málum mjög fast eftir. Og ég vil árétta það að lokum út af þeim umr., sem hafa orðið um þessa brtt., að ef þetta á að takast, þá mun ekki veita af þeirri viðbót til rafvæðingarinnar, sem hér er farið fram á.