25.04.1970
Neðri deild: 83. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 688 í B-deild Alþingistíðinda. (787)

196. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1970

Frsm. meiri hl. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfáar aths. út af ræðu hv. 5. þm. Norðurl. v.

Hann lét í ljós, að hann hefði orðið fyrir vonbrigðum með afstöðu mína til þeirrar till., sem hv. minni hl. n. leggur fram við 8. gr. Var á honum að skilja, að hann vonaðist til þess, að afstaða mín breyttist, eftir að ég hafði heyrt hans ræðu. Nú er það svo, að ég mótaði mína afstöðu að undangenginni athugun, og mér fannst nú ræða hv. þm. ekki byggjast á þeim grunni, að líklegt væri, að hún hefði áhrif á, að ég eða aðrir breyttu sinni afstöðu þar um.

Um þetta 15 millj. kr. aukalánsfé er í fyrsta lagi það að segja, að hvergi hefur í till. né í ræðum manna hér að framan verið imprað á því, hvernig þessa lánsfjár á að afla. Það er auðvitað frumskilyrðið til þess, að það sé hægt að ráðstafa því. Svo virðist mér nú, að ef farið væri, í samræmi við það, sem hv. 5. þm. Norðurl. v. talaði hér um, að óska eftir því, að hæstv. orkumálaráðh. réði aukinn fjölda tæknifræðinga, verkfræðinga og annarra sérfræðinga til þess að sinna þessum málum, þá mundi nú eitthvað af þessu fé fara til þeirra hluta. Með þessu er ég vitaskuld ekki að draga fjöður yfir það, að þörfin er fyrir hendi að rafvæða þær byggðir, sem eftir eru, og get tekið undir það, sem t.d. hv. síðasti ræðumaður sagði þar um.

Ýmislegt í ræðu hv. 5. þm. Norðurl. v. var, að mér virtist, einnig á misskilningi byggt, fleira en þetta. Hann sagðist vonast til þess, að árið 1971 liði ekki án þess, að þau svæði, sem hafa 1.5 km eða minna á milli bæja, verði tengd samveitum. Það er ætlað, eftir þeim áætlunum, sem fyrir liggja, að þessu verði þá lokið. Þá minntist hann á það, að vatnsaflsstöðvar á einstökum bæjum hefðu hindrað, að rafmagn yrði lagt um sveitir. Ef um þetta er að ræða, þá er það ekki nema fyrir þá sök, að þeir bændur, sem vatnsaflsstöðvarnar hafa, hafa ekki viljað taka ríkisrafmagnið. Þá minntist hv. þm. einnig á það, að nokkuð af þessu fé færi til greiðslu á gömlum lánum. Það er rétt. Af því fé, sem ætlað er að verja til raforkuframkvæmda á þessu ári, sem er um 66 millj. kr. og miklu meira en nokkru sinni áður, þá er ætlað að 4 millj. fari til endurgreiðslna á eldri lánum.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess, herra forseti, að lengja þessar umr., en ég minni á, líka með tilliti til þess, sem hv. þm. sagði hér áðan, er hann taldi upp einstakar framkvæmdir, sem ætlað er að vinna eftir þessari framkvæmdaáætlun, að hann vænti þess, að litið yrði til Norðurlandskjördæmis vestra í einhverri mynd, þá hefði hann gjarnan mátt minnast á t.d. 11. tölulið í ráðstöfunarfé fjárfestingarlánasjóða og fyrirtækja, sem er lán vegna Norðurlandsáætlunar, 152.5 millj. kr. Þá vil ég einnig benda þessum hv. þm. á það, ef hann hefur ekki þegar gert það, að kynna sér, hvað fyrirhugað er að vinna að raforkuframkvæmdum á þessu ári í okkar kjördæmi.