25.04.1970
Neðri deild: 83. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 691 í B-deild Alþingistíðinda. (790)

196. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1970

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Ég skal vera stuttorður og ekki karpa um þetta mál. Ég vil segja það, að það virðist svo sem hv. 4. þm. Norðurl. v. sé ánægður með ástand og horfur í atvinnu- og efnahagsmálum okkar kjördæmis. Þetta eru alveg nýjar upplýsingar fyrir mig. Það var ekki hægt að skilja annað á hans ræðu, en þar væri allt með prýði í þessum efnum, og hann var hálfundrandi yfir því, sem ég ræddi við ríkisstj., um hugsanlega aðstoð við forráðamenn þessara byggðarlaga, er þeir kæmu til viðræðna við ríkisstj. um uppbyggingu atvinnufyrirtækja fyrir norðan.

Afstaða þessa þm. til brtt. minni hl. virðist ætla að verða alveg óbreytt. Ég sagði aldrei í minni ræðu, að ég vonaðist til, að ræða mín mundi sannfæra hann. Það sagði ég ekki, en hins vegar sagði ég, að það væri búið að halda hér góðar ræður fyrir till. minni hl., og ég vonaði, að þær ræður hefðu sannfært hann. Ég ætla svo ekki að orðlengja þetta, en endurtek það, að ég vakti athygli á því, að í þessu frv. fer allt það fjármagn, sem lagt er til að það skapi, til framkvæmda utan okkar kjördæmis. Ég sagði það ekki vegna þess, að ég væri að telja það eftir. Ég undirstrikaði það. Ég bað hæstv. ráðh. að hafa það í huga, þegar okkar kjördæmi þyrfti á úrbótum að halda í atvinnu- og efnahagslífinu, að þá væru þeir til viðtals á þann veg, að það mundi duga okkur í framtíðinni til að byggja okkar byggðarlög upp, atvinnu- og efnahagslega.