23.03.1970
Neðri deild: 65. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 696 í B-deild Alþingistíðinda. (802)

125. mál, leigubifreiðar

Frsm. (Ásberg Sigurðsson):

Herra forseti. Frv. til l. um leigubifreiðar, sem hér liggur fyrir, hefur verið til meðferðar í samgmn. og hefur hún orðið sammála um að mæla með því, að það verði samþ. óbreytt. Frv. er niðurstaða af heildarendurskoðun, sem samgmrn. hefur látið fram fara á l. nr. 1 frá 1966, um leigubifreiðar, svo og l. nr. 22 frá 1967, um breyt. á þeim lögum.

Lög um þetta efni voru fyrst sett árið 1953. Þetta eru heimildarlög, sem bæjarstjórnum og sýslunefndum er í sjálfsvald sett, hvort þau notfæra sér eða ekki. Samkv. frv. er bæjarstjórnum og sýslunefndum heimilt að ákveða, að fengnum till. hlutaðeigandi stéttarfélaga, leigu-, sendiferða- og vörubifreiðastjóra, að allar slíkar bifreiðar skuli hafa afgreiðslu á bifreiðastöðvum, sem fengið hafa viðurkenningu bæjarstjórna eða sýslunefnda, miðað við félagssvæði viðkomandi stéttarfélaga. Einnig er samgmrn. heimilt eftir beiðni hlutaðeigandi stéttarfélaga sömu aðila að takmarka fjölda þeirra bifreiða á félagssvæðunum, ef fjöldi íbúa á svæðinu er 700 eða fleiri, enda komi til meðmæli þeirra bæjarstjórna og sýslunefnda, sem félagssvæðið fellur undir. Verði bæjarstjórnir og sýslunefndir, sem félagssvæði bifreiðastjórafélaganna fellur undir, ekki sammála um, hvort mæla skuli með takmörkun eða ekki, þegar þær greinir á um, við hvaða bifreiðafjölda takmörkun skuli miðuð, sker rn. úr. Þetta er nýtt atriði, sem reynslan hefur sýnt, að nauðsynlegt var að lögfesta. Þá er í frv. einnig skilgreint m.a., hvað leiguakstur til vöruflutninga er, og loks eru sektarákvæði frv. færð til samræmis við breytt verðlag nú.

Telja verður, að breytingar þessar séu til bóta, enda fram komnar vegna þeirrar reynslu, sem fengizt hefur í þau 17 ár, sem lög um þetta efni hafa verið í gildi. Frv., ef að lögum verður, skapar skýrari reglur á þessu sviði og stuðlar að því að bæta þá þjónustu, sem viðkomandi aðilar veita í þjóðfélaginu.

Herra forseti. Ég ítreka, að hér er aðeins um heimildarlög að ræða, og samgmn. hefur að athuguðu máli orðið sammála um að mæla með því óbreyttu. Ég vona, að hv. dm. geti einnig fallizt á það álit.