27.10.1969
Efri deild: 6. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 702 í B-deild Alþingistíðinda. (821)

11. mál, skipun prestakalla

Axel Jónsson:

Herra forseti. Það hlýtur ávallt að verða nokkurt tilfinningamál, þegar verið er að sameina prestaköll og prófastsdæmi, en ég hef heyrt það á mörgum kirkjunnar mönnum, að þeir telja, að þetta frv. gangi jafnvel fremur of skammt en of langt. En það er svo annað mál, að oft hlýtur að verða nokkur vandi að ákvarða, hvar prestur skal sitja o.s.frv., o.s.frv. En þetta frv. er fyrst og fremst að mínu viti staðfesting á þeirri breytingu, sem orðið hefur á undangengnum árum og áratugum í okkar þjóðlífi, eins og raunar síðasti ræðumaður kom hér inn á. Ég hef og heyrt frá kirkjunnar mönnum, að þeir telji það eðlilegt; að þau embætti, sem biskupi verður heimilt að ráða í, verði þetta frv. að l., verði auglýst til umsóknar, þegar þar að kemur.

Tilefni þess, að ég kvaddi mér hljóðs, er fyrst og fremst síðasti liður í 1. gr. frv., XV., Reykjavíkurprófastsdæmi. Við sjáum varðandi hin prófastsdæmin 14, að þar er mjög ítarleg skilgreining á þeim, en ég vil vekja athygli hv. menntmn. d. á því, hvort ekki væri eðlilegt að setja ítarlegri skilgreiningu um Reykjavíkurprófastsdæmi. Það tekur yfir tvö sveitarfélög auk Reykjavíkur. Það tekur yfir Seltjarnarnes, en þar mun verða byggð kirkja bráðlega, og það tekur einni yfir Kópavogskaupstað, sem er sjálfstætt prestakall. Ég tel eðlilegt, að þetta komi þarna fram, með tilliti til þeirrar ítarlegu skilgreiningar, sem er á öðrum prófastsdæmum í frv., sem hér liggur fyrir, og vil ég því beina því til hv. menntmn., hvort ekki sé ástæða til þess að setja þarna gleggri ákvæði.