27.10.1969
Efri deild: 6. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 702 í B-deild Alþingistíðinda. (822)

11. mál, skipun prestakalla

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Ég skal taka það fram strax í upphafi, að það er ekki af kirkjulegum áhuga, sem ég kveð mér hljóðs í þessu máli, enda er ég í hópi lítiltrúaðra og get ekki hrósað mér af því að vera neinn forgöngumaður um kirkjuleg málefni. En það, sem kemur mér til þess að koma hér upp í ræðupontu, er löngun mín til þess að biðja hæstv. kirkjumrh. um skýringar á vissum stefnumarkandi atriðum, sem mér virðast í frv. felast, svo og í ræðu hans hér fyrir málinu í upphafi.

Í þeirri ræðu fór hann m.a. fram á það, að þetta mál yrði afgr. frá n., en ekki látið sofna þar, því að hann kynni því illa, að svo væri farið með mál frá sér þing eftir þing. Ég tel þetta mjög eðlilegt. Sjálfur hef ég fundið til þessarar sömu tilfinningar, og mér finnst það mjög óviðunandi, að mál séu látin dragast á langinn og stundum svo, að þau hljóta enga afgreiðslu. Mér þykir vænt um að heyra, ef maður gæti tekið það sem eitthvað stefnumarkandi frá ríkisstj., að framvegis óski hún eftir því, að Alþ. afgr. þau mál, sem fyrir það eru lögð. Hingað til hefur þetta lítið virzt ná til annarra mála en þeirra, sem ríkisstj. leggur fram sjálf og sum kannske af meiri áhuga en önnur, sem sjá má af því, að mál, sem svipar til þessa, hefur legið og ekki verið afgr. að undanförnu, eins og ráðh. drap á.

En það, sem mér finnst þó meira stefnumarkandi og verkar nú í þá áttina á mig, sem lesara þessa frv., að það sé nú óþarfi fyrir okkur almenna þm., sem stundum erum fullir ábyrgðartilfinningar um fjárhag ríkisins, að gera ekki þær kröfur í frv. okkar eða till., sem þörf er á. Við höfum varazt að gera tillögur, sem valda verulegum útgjöldum á þessum erfiðu tímum, eins og við erum auðvitað búnir að læra sönginn um eins og aðrir. Hér er sem sagt lagt til að gera tilfæringar á prestsembættum í landinu í samræmi við þróunina, sem fer fram t.d. í búsetu manna, fólksflutningum. Það er gert ráð fyrir því, að stofnsetja þurfi ný prestsembætti, skipta þurfi sóknum, og auðvitað er ætlazt til þess, að ríkið taki alla slíka nýja embættismenn á sínar herðar og greiði þeim laun eftir þar til settum reglum. Nýliðar í þeirri stétt fái byrjunarlaun o.s.frv., og þeir, sem eru orðnir eldri í starfinu, fái hámarkslaun. Nú er í þessu frv. lagt til, að önnur prestaköll verði lögð niður, og væntanlega heldur þessi sama þróun áfram. Ég lít á það ákvæði sem stefnumarkandi, að þá á ekki að hætta að greiða laun í þeim prestaköllum, sem lögð verða niður, heldur á ríkissjóður að punga út með launin áfram og ekki bara byrjunarlaun, heldur hámarkslaun, og nú á féð að renna í sérstakan kristnisjóð, þannig að það er greinilegt, að hér er verið með væntanlegri framþróun að þenja út embættismannakerfið, eða í rauninni kannske ekki embættismannakerfið, heldur kostnað ríkissjóðs af embættismannakerfi kirkjunnar, þannig að þar getur aldrei neinn fallið úr. Það á að borga alltaf sömu upphæðina, nema við aukningu presta, þá á ríkið að borga aukninguna líka, og hjá ríkisstj., sem prédikar seint og snemma, að nú þurfi að spara. Alls konar nauðsynjamál verða að leggjast til hliðar, næstum því hversu nauðsynleg sem þau eru. Vegna fátæktar þjóðarbúsins, vegna fátæktar ríkissjóðs eru þau látin bíða. En hér er farið aldeilis að með öðrum hætti, og vil ég sérstaklega benda á þetta og spyrja um þetta, spyrja hæstv. kirkjumrh. um þetta: Er hér vitandi vits verið að marka þá stefnu, sem greinilega liggur fyrir í frv., eða er þetta ógát, sem þyrfti þá að leiðréttast í meðförum þingsins? Hver er tilætlun ríkisstj. í þessum efnum? Ég óska eftir svari við því.