27.10.1969
Efri deild: 6. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 703 í B-deild Alþingistíðinda. (823)

11. mál, skipun prestakalla

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Það er mjög eðlilegt, að þm. spyrji um, hvað ríkisstj. hyggist fyrir og hvaða stefnu hún hafi í þessu máli. Um það verð ég að segja þetta, að frv. er lagt fram sem stjórnarfrv., en það er óbundið af hálfu ráðh. og annarra, hvernig þeir snúast við þessu frv. Það er í raun og veru ekki ríkisstj. sem slík, sem markar stefnu með þessu máli, heldur, ef það er einhver stefna, sem markast með því, þá er það stefna mín, kirkjumrh. Hún nær kannske ekki fram að ganga, ég veit það ekki. En það er vitandi vits, sem ég hef lagt til, að laun. til þeirra presta, sem mundu annars hafa verið í prestaköllum, sem falla niður, gangi til kirkjunnar. Þetta er mín skoðun, að við eigum að efla kirkjuna í landinu og að það geti verið mjög veigamikið, að kirkjan með kristnisjóði fái nokkur sjálfstæð fjárráð. Hitt er svo alveg rétt, að menn getur greint á um þetta og deilt um þetta. Það verður að segjast eins og er, en þetta er stefna þess manns, sem núna er kirkjumrh.

Ég tel, að við gerum tæpast annað betra en efla kirkjuna í landinu. Ég veit, að aðrir horfa öðruvísi á það mál, en við þurfum ekki að hafa fleiri orð um það, held ég. Meðan ég fer með kirkjumálin, mun ég reyna að efla kirkjuna, eftir því sem föng standa til. Kannske verður það að engu í höndum mér, þetta frv., eins og það hefur orðið áður, en við sjáum til. Ég get ákaflega vel skilið, að fram koma raddir eins og frá hv. 1. þm. Vesturl., að Hvammur í Dölum sé sögulegt prestssetur, að vissu leyti helgur staður. Það eru Þingvellir líka, býst ég við að hann geti fallizt á með mér, og þó er lagt til, að prestssetur þar verði lagt niður. En þetta er ekkert aðalatriði, og ég mundi ekkert hafa á móti því og það mundi ekki angra mig neitt, þótt hv. þm. breyttu þessu frv. á einn eða annan hátt og settu inn sögulega og helga staði, sem þeim finnst, prestaköll, sem hér er þó lagt til að sameina öðrum prestaköllum. Þetta er ekki aðalatriði málsins. En mér hefur fundizt, að kirkjan dragist aftur úr sem stofnun og þjóðfélagsstofnun, sem ég met mikils, ef við reynum ekki hér á Alþ. að láta hana fylgjast með og fylgja í fótspor annarra svipaðra stofnana, sem við erum að reyna að endurskipuleggja, læknaskipun, dómsskipun og annað slíkt. En hvort þetta er það eina rétta, sem hér er lagt til, það get ég ekki dæmt um. Hitt vil ég segja, að ég hef þó reynt að skýra þetta frv. með hliðsjón af gagnrýni, sem fram kom við fyrsta flutning þess fyrir tveim árum, og ég hef haft full samráð við kirkjuna eða hennar höfuðmann um þetta frv. Það felst ekki í því, að biskupinn yfir Íslandi sé gersamlega sammála öllum þeim till., sem ég hef lagt hér til. Það er ekki. Ég veit, að hann vildi sumt hafa öðruvísi, en ég hef verið að reyna að þreifa mig áfram með tillögugerð, sem ég hélt að mundi verða til bóta og menn gætu sem bezt sameinazt um. En engan veginn er það svo, að ég líti á þetta frv. þannig, og ég vil segja til þeirrar n., sem fær málið til meðferðar, að það er engan veginn þannig, að það sé ekki eðlilegt, að n. skoði frv. og betrumbæti það, sem má betrumbæta. Vissulega kann mér að hafa missýnzt ýmislegt og okkar rn., þegar við vorum að reyna að undirbúa þetta frv., og mér þykir náttúrlega vænt um allar þær till., sem koma fram frá þeim mönnum, sem vilja efla kirkjuna og sakna prestakalla, hvort sem er af sögulegum eða helgum ástæðum o.s.frv., eins og kom fram hjá 1. þm. Vesturl.

Ég ætla nú ekki að gera mig neitt kristnari en aðra menn, en ég vil aðeins láta það koma fram hér, að ég óska eftir því, eins og ég sagði áður, að frv. geti fengið sína afgreiðslu. Auðvitað er eðlilegt, að fram komi brtt., og ég vil vona það, að enda þótt frv. verði ekki í sömu mynd og það er nú, þegar það kemur aftur til þessarar hv. d., megi það þó verða kirkjunni til styrktar og framdráttar, og það er vitandi vits flutt af mér sem kirkjumrh. í þeirri veru að reyna að efla og styrkja kirkjuna.