27.10.1969
Efri deild: 6. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 704 í B-deild Alþingistíðinda. (824)

11. mál, skipun prestakalla

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég hygg nú, að það sé ekki röng stefna að færa saman eitthvað af prestaköllum, enda er það í samræmi við þá þróun, sem orðið hefur í þjóðfélaginu og þeir ræðumenn, sem hér hafa talað, hafa raunar bent á í þessu sambandi. En þáð er í tilefni af því, sem kom fram hjá hv. 4. þm. Reykn. um skipan þessara mála hér í Reykjavíkurprófastsdæmi, sem mig langar til þess að segja það sem mína skoðun, að ég tel það rétt ráðið, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir, að í Reykjavík skuli vera safnaðarráð og þetta ráð eigi m.a. að gera till. um skiptingu prófastsdæmis í sóknir og prestaköll og um breytingar á þeim, eins oft og þörf er, óg að sú skipting skuli að jafnaði miðuð við, að einn prestur sé í hverju prestakalli. Ég held nefnilega, að það sé næstum því ofætlun að ætla sér að skipa þessum málum með lögum til frambúðar vegna þeirra öru þjóðfélagsbreytinga, sem eiga sér stað, og þess vegna tel ég, að þetta sé rétt stefna, að það séu mennirnir heima fyrir og þeir, sem hafa með safnaðarmálin að gera á viðkomandi stöðum, sem komi sér saman um þessar breytingar, og spurning er, — og það er þess vegna, sem ég kvaddi mér hljóðs, til þess að n. athugaði það, — hvort ekki mætti koma til móts við ýmsar raddir, sem hljóta að heyrast fleiri en frá 1. þm. Vesturl. um það, að menn séu ekki sammála um það heima fyrir, hvaða staður það er, sem valinn er. Væri ekki einmitt ráð að setja upp sams konar stofnun í fleiri prófastsdæmum, þannig að það væri raunverulega á valdi sóknarnefndanna og þeirra, sem þar eru til kallaðir, að skipa þessum málum, bæði nú og framvegis, en að Alþ. taki sér það ekki fyrir hendur að ákveða það hér, hverjir eigi að vera saman um prófastsdæmi og hvar prestssetrið eigi að vera? Ég hygg næstum því, að það hljóti að nást betri samstaða um þessi mál, ef þessi leið væri farin.