16.12.1969
Sameinað þing: 24. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 177 í B-deild Alþingistíðinda. (83)

1. mál, fjárlög 1970

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég flyt eina brtt. við fjárlagafrv., en því miður er ekki búið að útbýta því þskj., en þar sem hún er mjög einföld í sniðum þá tel ég, að það komi ekki að sök. Á síðasta þingi fluttum við nokkrir þm. Framsfl. till. til þál. um námskostnað, sem hér hefur verið drepið nokkuð á í þessum umr. Till. var að vísu breytt nokkuð í n., en hún var þó samþ. og þar með ákveðið, að ríkisstj. skyldi m.a. láta rannsaka, hver væri aðstöðumunur nemenda, sem verða að vista sig langtímum saman utan heimila sinna við nám, og hinna, sem sækja nám frá heimilum sínum og hafa þar alla vist.

Út af þessu máli hafa orðið allverulegar umr. í landinu á yfirstandandi ári. Þetta mál hefur verið mjög rætt á fundum víðs vegar um land og það hefur verið rætt í blöðum. Og það er svo að sjá, að það sé einhugur mikill um málið í heild að hlaupa undir bagga með þessum nemendum, sem búa við svo erfiðar aðstæður og þá öllu heldur foreldrar og forráðamenn þeirra, því að það eru engar öfgar, að ýmsir verða að hætta við að hugsa til náms fyrir utan skyldunámið einmitt vegna þess kostnaðar, sem orðinn er því fylgjandi að dvelja fjarri heimili sínu. Á þessu þingi hefur þetta mál borið á góma á tvennan hátt. Í fyrsta lagi flutti hv. 9. þm. Reykv. frv. um fjárhagsaðstoð við þessa nemendur í landinu, hins vegar kom fram fsp. frá hv. 2. þm. Vestf. um það, hvað liði þeirri rannsókn, sem ríkisstj. var falið með þáltill. frá því í fyrra. Í frv. hv. 9. þm. Reykv. er lagt til, að sú fjárhagsaðstoð, sem verði veitt þessum skólanemendum, sem verði að búa fjarri heimilum sínum, nemi um 25 þús. kr. á nemanda. Því frv. var vísað til menntmn. og þar er það enn án þess að hafa verið tekið fyrir til umr. og skal ég greina frá, hvers vegna það hefur ekki verið gert enn, þar sem mér er kunnugt um það, af því að ég á sæti í þeirri n. Þegar fsp. hv. 2. þm. Vestf. var til umr., þá fórust menntmrh. m.a. orð á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Á vegum menntmrn. hefur farið fram mjög ýtarleg rannsókn á því, hver er kostnaður ríkisins við skólahald á nemanda.“

Og enn fremur sagði hann:

„Hér er um að ræða margar og flóknar till. og ég sé ekki ástæðu til á þessum vettvangi að gera hinu háa Alþ. grein fyrir einstökum atriðum, en er að láta ganga frá niðurstöðum og talnaverkinu öllu í aðgengilegu formi og mun síðan láta alla hv. alþm. fá þann bækling, þegar hann hefur verið fjölritaður.“

Og enn fremur sagði hæstv. ráðh.:

„Ég eyði ekki frekar tíma hins háa Alþ. í að skýra frá tölum um þetta efni, en ítreka, að fjölrituð skýrsla um þetta, þar sem allar upplýsingar eru gefnar, sem eru á reiðum höndum, mun berast alþm. í hendur innan örlítils tíma.“

Síðan hæstv. ráðh. sagði þetta er liðinn tæpur mánuður, því að þetta var 19. nóvember, en það bólar ekkert á þessum bækling eða þessari skýrslu og menntmn. hefur engar upplýsingar fengið um þessa rannsókn og bíður alltaf með óafgreitt þetta frv., sem til hennar var vísað af þessum ástæðum. En því aðeins rek ég þetta nú, að til þess að gera till. um fjárstuðning við þessa nemendur í landinu, sem ég nefndi, er alveg óhjákvæmilegt að fá að vita, svona nokkurn veginn, hvað þeir munu vera margir. Nú hefur hæstv. ríkisstj., eða meiri hl. fjvn., sjálfsagt að tilhlutan hæstv. ríkisstj., fallizt á að leggja til við Alþ., að veittar verði 10 millj. kr. í þessu skyni. Ég met það mjög mikils, að fjárveiting fer af stað. Það er viðurkenning á þörfinni og það boðar, að sjálfsagt verði betur gert síðar. Þetta er mikils virði, en hins vegar álít ég, að þær 10 millj. í þessu skyni sé svo lítil upphæð, ef skólanemendur eiga að njóta þess nokkurn veginn allir, sem hafa hliðstæðan rétt á því, hún sé svo lítil, að það sé varla á nokkurs manns færi að skipta henni. Ég geri varla ráð fyrir því, að hv. fjvn. eða hæstv. ríkisstj. ætli sér að skipta þessari upphæð til einhverra örfárra nemenda, kannske í einhverjum tveimur til þremur skólum. Það get ég ekki skilið. Hafi henni nú dottið í hug, hæstv. ríkisstj., að þetta væri sæmilegt til þess að fullnægja hugmynd hv. 9. þm. Reykv., sem nefndi í sinni framsöguræðu 5–10 millj., þá geta menn séð, hvað þetta muni geta fallið í margra hlut. Ef hver þeirra ætti að fá svona að meðaltali 25 þús., sem er sannarlega full þörf á, því að þessi kostnaðarmismunur er ákaflega mikill, þá reiknast mér til, að það séu í hæsta lagi 400 nemendur í landinu, sem gætu hlotið þessa fjárhagsaðstoð, en í Kennaraskólanum einum voru 500 nemendur í fyrra utan af landi. Á þessu geta menn nú bara séð, hversu þetta er auðvelt. Ef aftur á móti gerð er áætlun um þennan fjölda nemenda í skólum landsins yfirleitt, sem verða að dvelja fjarri heimilum sínum, þá er það óneitanlega ákaflega erfitt fyrst maður fær ekkert að vita um þessa rannsókn, sem hefur þó verið framkvæmd og þar ættu þessar upplýsingar að liggja. Ég hef ásamt félögum mínum í Framsfl. sumum leitazt við að gera einhverja áætlun um þetta, hvað þessir skólanemendur eru margir, og ég undirstrika það, að það er ákaflega erfitt, þegar maður hefur engin gögn í höndum. En ég er hræddur um, að þeir séu aldrei færri en eitthvað milli 6–7 þús., þ.e.a.s. í öllum skólum landsins nema háskólanum, – nemendur í háskólanum hafa sérstaka aðstöðu í þessum efnum, þar sem þeir hafa námsstyrki og námslán annars staðar frá. En ef þetta reyndist nú rétt, ef það reyndist rétt, t.d. að þessir skólanemendur í landinu væru 6.500, hvað yrði nú í hlut að meðaltali af 10 millj.? Mér sýnist, að það yrði þá í kringum 1.500 kr. Það mundi varla duga til þess að borga ferðakostnað nemenda heiman frá sér og heim. Og búið. Mér finnst þetta svo lág upphæð, að það sé ekki hægt að sætta sig við hana, þó að ég meti mikils að þó var tekin einhver upphæð til í þessu skyni í till. hæstv. fjvn.

Af þessum ástæðum er það, sem ég hef leyft mér að flytja þá brtt., að þessi upphæð hækki í 25 millj. Ég veit, að það er alls ekki fullnægjandi, en ég held, að það verði þá heldur hægt að skipta þessu á skynsamlegan hátt, ef það verður þannig hækkað, heldur en þessari upphæð, sem hér er. Eins og fram hefur komið hér í umr. þá veit enginn enn, hvernig á að skipta þessu eða hverjir eiga að gera það. En það er alveg sama, hverjir eiga að gera þetta, þeir hljóta að eiga í miklum erfiðleikum, þegar upphæðin er svona lág. Og þar sem þetta mál hefur fengið mjög góðar undirtektir hjá mönnum í öllum flokkum og fær það yfirleitt alls staðar um landið, sem ég hef spurnir af, þá vona ég nú, að hv. þm. sjái sér fært að hækka þessa upphæð að þessu sinni upp í 25 millj. þó að það sé fjarri því, að nálgast það að vera fullnægjandi til þess að jafna aðstöðumun þessara nemenda, því að það hljóta menn að sjá, að hann verður ekkert jafnaður og ekkert í námunda við það með þessu, sem nú er í till. hv. fjvn.

Ég skal, herra forseti, ekki orðlengja þetta frekar. Þetta er ákaflega einfalt mál og ákaflega aðkallandi og nýtur stuðnings, ég held allra manna, ef maður hittir einhvern mann og á þetta er minnzt, svo að það verður áreiðanlega vel séð, ef hv. Alþ. sæi sér fært að hafa þetta aðeins ríflegra og ég tel mig ekki hafa sýnt mikla frekju í þeirri brtt., sem ég flyt.