03.03.1970
Efri deild: 50. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 718 í B-deild Alþingistíðinda. (831)

11. mál, skipun prestakalla

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja brtt. á þskj. 310 ásamt 2. þm. Austf., Páli Þorsteinssyni, og 11. þm. Reykv., Kristjáni Thorlacius, sem sat hér á þingi, þegar frv. var afgr. frá menntmn. Mér þykir rétt að fara nokkrum orðum um þá till., sem við félagar höfum hér flutt, þó að hér hafi verið rætt um hana nokkuð af flestum þeim, sem hér hafa talað að þessu sinni um frv. Við höfum státað af því lengi, Íslendingar og með réttu, að við værum söguþjóð. Og á síðari árum, ekki sízt, hefur verið vaxandi áhugi á því að varðveita þá sögustaði, sem hæst ber í landinu. Ég vil minna á í því sambandi þær endurbætur og það starf, sem unnið hefur verið á hinum fornu biskupsstólum, bæði á Hólum í Hjaltadal og Skálholti í Biskupstungum. Og mér og meðflm. mínum að till. þykir, að þá væri farið í öfugan enda á málunum, ef ekki væri gerð til þess tilraun að styðja mjög að virðingu þeirri, sem Þingvellir hafa haft með þjóðinni og hafa enn. Eins og frv. um skipun prestakalla var, þegar það var lagt hér fyrir þessa hv. d., var ekki gert ráð fyrir því, að á Þingvöllum sæti prestur. Ég hygg, að þegar við rennum huganum til þeirra ára, 1974, þegar við ætlum að minnast ellefu hundruð ára byggðar á Íslandi, og til ársins 2000, þegar væntanlega verður minnzt 1000 ára kristni á Íslandi, þá þætti þeim, sem þær samkomur sæktu, það furðu gegna, ef á Þingvelli sæti ekki prestur og það upplýstist, að Þingvellir væru annexía frá öðrum stað. Um það var rætt hér, að það væri ýmsum ekki ljóst allajafna, að Þingvellir væru í Árnessýslu. Þessi tilfinning Íslendinga fyrir staðnum sannar það, að hann hefur mikla sérstöðu með þjóðinni, og það er mín skoðun og okkar flm., að Þingvellir eigi og að hafa sérstöðu í þessu frv. og í þeirri kirkjuskipan, sem hér er gert ráð fyrir að koma á. Hitt er vitað, að þeir sóknarmenn, sem kirkju eiga að sækja að Þingvöllum, eru ekkert í vafa um það, í hvaða sýslufélagi þeir eru. Og því þykir okkur rétt og um það var menntmn. sammála að breyta því ákvæði í frv., að Þingvöllur heyrði til Kjalarnesprófastsdæmis, heldur félli undir Árnesprófastsdæmi, eins og verið hefur áður. Það var samstaða um það í n. Aftur á móti sýnist okkur, að það sé rétt, að Úlfljótsvatnssókn falli undir Mosfell í Grímsnesi, eins og gert er ráð fyrir í frv., ekki sízt fyrir þá sök, að það er öllu hægara að þjóna Úlfljótsvatnssókn frá Mosfelli í Grímsnesi en ofan frá Þingvöllum vegna samgöngustaðhátta, sérstaklega að vetri til. Einnig vil ég leggja á það sérstaka áherzlu, að ég óska þess, að Þingvellir hafi algera sérstöðu sem prestssetur að því leyti, að á það verði bent, að því sé viðhaldið þarna ekki sízt til þess að undirstrika þá sögulegu minningu, sem við eigum í sambandi við þann stað. Það gefur auga leið, að þótt Úlfljótsvatnssókn væri jafnframt felld undir Þingvelli og Þingvallaprestur ætti að þjóna þeim tveimur sóknum, þá er það náttúrlega með eðlilegum hætti miklu minna starf en með þessu frv. er ætlað, að hver prestur hafi að gegna, og því ástæðulaust að fara að leggja Úlfljótsvatnssókn undir Þingvallaprestakall til þess að þar verði fleira fólk í prestakallinu. En í báðum þeim brtt., sem fjalla um skipun Þingvallaprestakalls, er gert ráð fyrir því, að sameinað verði þar embætti prestsins og þjóðgarðsvarðar. Af þeirri reynslu, sem fengizt hefur af þeirri tilhögun á undanförnum árum, í embættistíð þeirra tveggja presta, sem þau embætti hafa stundað, er ljóst, að þetta fer mjög vel saman. Til þessa hafa valizt mjög gegnir menn og margfróðir um sögu lands og staðarins, og ég hygg, að megi ætla, að það geti orðið í framtíðinni einnig, því að mér skilst, að þeir menn, sem hafa verið brautskráðir úr guðfræðideild Háskóla Íslands, séu mjög vel menntaðir og þá ekki hvað sízt í sögu, að ég nú ekki tali um kristnisögu.

Ég vil því, herra forseti, leggja á það áherzlu, að mér sýnist, að við getum við afgreiðslu þessa máls ekki sýnt Þingvöllum hæfilega virðingu með öðrum hætti en þeim að fallast á þá till., sem við þremenningarnir hér höfum lagt til, að yrði á þessu máli, og vil því ljúka máli mínu með því að óska þess, að menn sjái sér fært að samþykkja þá till., sem hér er flutt á þskj. 310.