16.12.1969
Sameinað þing: 24. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í B-deild Alþingistíðinda. (84)

1. mál, fjárlög 1970

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég vil fyrst taka fram, að við fjórir þm. Austf. fluttum við 2. umr. till. um aukin framlög til skólabyggingar á Fáskrúðsfirði, til skólasundlaugar á Reyðarfirði og til gagnfræðaskólabyggingar í Neskaupstað. Við flytjum þessar till. ekki aftur við 3. umr., með sérstöku tilliti til þess, að í framsöguræðu sinni gat hv. frsm. og formaður fjvn. um, að fjvn. hefði mikinn hug á að beita sér fyrir fjárveitingu einmitt til þessara framkvæmda á næstu fjárl., þannig að þær gætu þá tekið fullan skrið. Og sérstök heimild er einnig tekin inn varðandi gagnfræðaskólann í Neskaupstað í till. fjvn. þannig vaxin, að mögulegt er gert að fara af stað með þá byggingu á næsta ári, ef hægt verður að leysa byrjunarerfiðleika í sambandi við fjármál hennar. Í trausti þess, sem þarna hefur komið fram, flytjum við ekki þessar till. nú við 3. umr.

Þá kem ég að því, að ég flyt hér ásamt þremur öðrum þm. till. á þskj. 188 og fjallar hún um það, að Ríkarður Jónsson verði í hópi þeirra, sem heiðurslaun fá á fjárl. Ríkarður Jónsson er einn af fremstu brautryðjendum okkar í höggmyndalist og liggja eftir hann mikil afreksstörf í þeirri grein, sem ómetanlegt gildi hafa fyrir þjóðina. Þá hefur Ríkarður Jónsson með verkum sínum hafið til aukins vegs hina fornu listgrein, tréskurðinn, með þeim hætti, að þjóðkunnugt hefur verið áratugum saman. Störf Ríkarðar Jónssonar eru annars svo alkunn og viðurkennd, að ég mun ekki auka neinu við þekkingu hv. þm. á þeim með því að mæla fleiri orð um þetta, en það er von okkar flm., að sem flestir hv. þm. fallist á að sýna listamanninum þann sóma að bæta honum í þann fríða hóp, sem sérstök laun eru ætluð á 4. gr. fjárl.

Svo vil ég áður en ég fer í sæti mitt minna á, að ég tók áðan fram í fyrir hv. þm. Vestf., þegar hann mælti fyrir till., sem forsetar þingsins flytja um að gera málverk af atburðinum á Þingvöllum 1944, þegar lýðveldi var sett á fót og málverk af kristnitökunni og sagði í því sambandi, að rétt væri að hafa í huga hinn glæsilega þátt Þorgeirs Ljósvetningagoða í því máli öllu saman. Ég skaut þá inn í „og Síðu-Halls“ og gerði það mjög svo af ásettu ráði og ætla að koma því inn í þingtíðindin, hvers vegna ég gerði það. Ekki dettur mér í hug að draga neitt úr þeirri sæmd, sem Þorgeir Ljósvetningagoði á að njóta fyrir þátt sinn í lausn kristnitökumálsins, en ég vil, að menn geri sér grein fyrir því, að kristnitakan var ekki eins manns verk. Ég tel engan vafa á því, að séu heimildir grandskoðaðar og eðli málsins athugað, kemur í ljós, að kristnitakan var samningamál á milli flokka á Alþ. Íslendinga og aðalsamningamennirnir voru tveir. Annars vegar Síðu-Hallur, fyrir kristna flokkinn og hins vegar Þorgeir Ljósvetningagoði, fyrir heiðna flokkinn og það er ekkert um að villast, að það, sem Þorgeir Ljósvetningagoði lagði fram, var niðurstaðan af þeim samningaviðræðum, sem átt höfðu sér stað, þar sem þessir tveir menn voru aðal oddvitarnir, en höfðu svo að sjálfsögðu samráð við sína flokksmenn. Um þetta tel ég ekki þurfa að efast, en ég greip fram í vegna þess, að ég hef oft orðið var við einmitt þann skilning, að kristnitakan – sjálf ákvörðunin – hafi verið eins manns verk, verk Þorgeirs Ljósvetningagoða. Vitanlega var hún hans verk og annarra manna, – sennilega tveggja manna verk mest, þessara tveggja manna. En það kom í hlut Þorgeirs Ljósvetningagoða að segja þessa gerð upp. Ég legg áherzlu á að koma þessu inn í þingtíðindin, vegna þess að ég álít, að það málverk, sem að sjálfsögðu á að gera af kristnitökunni, eigi að bera einmitt þetta með sér og að það sé mjög þýðingarmikið. Ég hygg, að hér geti varla verið um misskilning að ræða á því, sem fram fór. Eftir þeirri reynslu, sem ég og aðrir hafa af því, hvernig farið er með vandamál á þingum, þá hlýtur þetta að vera kjarni málsins varðandi meðferð þess. Ég legg áherzlu á, að þessu verði ekki gleymt. Þá vil ég lýsa því yfir, að ég er mjög mikill stuðningsmaður þess, að komið verði upp þeim sögulegu málverkum, sem hv. þm. ræddi um, og sjálfsagt einhverjum fleirum.