12.03.1970
Efri deild: 54. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 725 í B-deild Alþingistíðinda. (840)

11. mál, skipun prestakalla

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Í fjarveru form. menntmn., hv. 2. þm. Reykv., Auðar Auðuns, hef ég tekið að mér að mæla með örfáum orðum fyrir brtt. við frv. til I. um skipun prestakalla o.s.frv., sem fluttar eru af menntmn. á þskj. 399. Það er í fyrsta lagi við 1. gr. frv., XV. lið, að aftan við orðin „Í Reykjavíkurprófastsdæmi“ bætist: sem nær yfir Reykjavíkur- og Kópavogsprestaköll; þannig að enginn vafi sé á um það, að Kópavogsbúar eigi rétt á prestsþjónustu samkv. þessum l. eins og aðrir landsmenn, og vænti ég, að á það verði fallizt.

Í öðru lagi flytur n. brtt. við 21. gr., 6. tl., en samkv. frv. er gert ráð fyrir því, að eitt af hlutverkum kristnisjóðs skuli vera, eins og það er orðað, að styrkja námsmenn til undirbúnings undir prestsstarf og önnur kirkjuleg störf. Af þessu mundi leiða, að þeir, sem stunda nám við guðfræðideild háskólans, ættu þá rétt á styrkjum úr kristnisjóði. En nú hafa þeir eins og aðrir stúdentar við háskólann rétt til lána úr lánasjóði stúdenta og annarra fyrirgreiðslna, sem stúdentum eru veittar samkv. almennum reglum. N. taldi óeðlilegt, að guðfræðinemar hefðu þannig greinileg forréttindi umfram alla aðra stúdenta, og leggur því til, að þessu verði breytt þannig, að meðal hlutverka kristnisjóðs skuli vera það að styrkja framhaldsnám guðfræðinga og annarra starfsmanna kirkjunnar til undirbúnings undir kirkjuleg störf.

Svo flytur menntmn. í þriðja lagi brtt. við 23. gr. þess efnis, að nýr málsl. komi eftir 1. málsl., svo hljóðandi: „Kirkjuráð semur árlega fjárhagsáætlun fyrir sjóðinn, og skal hún samþykkt af dóms- og kirkjumrn.“ Þar sem fé til kristnisjóðs kemur aðallega eða að öllum meginhluta frá hinu opinbera, þótti eðlilegt og í samræmi við annað að kveða svo á um, að fjárhagsáætlun fyrir sjóðinn skuli samþ. af dóms- og kirkjumrn., þannig að kirkjuráð hafi þannig ekki algerlega óbundnar hendur í þessu efni. Það hygg ég, að sé í fullu samræmi við annað, sem þessu er sambærilegt.

Þá hef ég leyft mér að flytja brtt. á þskj. 400, sem eru algerlega formlegs eðlis og fluttar samkv. ábendingu skrifstofustjóra Alþingis. En í 24. gr. frv., eins og það liggur nú fyrir, segir, að fyrirsögn 1. nr. 98 19. júní 1933, um læknishérað og prestakallasjóði, orðist þannig: „Lög um læknishéraðasjóði“. Nú er það óneitanlega andkannalegt að breyta þannig með lagaákvæðum fyrirsögn annarra laga, ef það yfirleitt er heimilt. Ég legg því til, að þessi grein falli niður, en í stað þess bætist ný mgr. aftan við 26. gr., svo hljóðandi:

„Þá er lög þessi hafa öðlazt gildi, skal gefa lög nr. 98 19. júní 1933 út að nýju með fyrirsögninni: Lög um læknishéraðasjóði.“

Slíkt mundi auðvitað vera eðlilegra, og vænti ég ekki, að þetta þurfi nánari skýringa með.

Einstakir hv. þm. hafa flutt frekari brtt. en þær, sem ég hef nú gert að umtalsefni, en um afstöðu n. til þeirra er það eitt að segja, að um þær hafa einstakir nm. óbundnar hendur.