20.03.1970
Neðri deild: 63. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 729 í B-deild Alþingistíðinda. (847)

11. mál, skipun prestakalla

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Eins og fram kom hjá dómsmrh., gerir þetta frv. ráð fyrir að fækka prestaköllum utan Reykjavíkur úr 109 í 92, en eftir meðferð málsins í Ed. verður fækkun prestakallanna 16, og þar af er um 7 prestaköll að ræða af þessum 16, sem á að fækka um í Vestfjarðakjördæmi. Ég ætla ekki að gera neinn ágreining út af því, en þó hef ég leyft mér að flytja þegar brtt. um það, að Árnesprestakall falli ekki niður. Hæstv. dómsmrh. gat þess í ræðu sinni áðan, að eins og fram kemur í aths. með frv. hafa mörg þeirra prestakalla, sem nú er lagt til að sameina öðrum köllum, verið prestslaus árum saman eða jafnvel áratugum saman, þannig að segja má, að meginstefna frv. er í raun og veru sú að viðurkenna staðreyndir, sem þegar liggja fyrir, og samræma skipulag þjóðkirkjunnar í verulegum atriðum því þjóðfélagsástandi, sem fyrir hendi er í dag. Ég vil leyfa mér að segja það, hvað snertir Árnesprestakall, þá hefur þar ekki verið prestslaust árum eða áratugum saman. Þar þjónaði sami prestur árin 1961– 1962 og aftur 1966 – 1969, og því þykir mér nokkuð undarlegt, að prestakall, sem er þó með töluvert á þriðja hundrað íbúa og hefur haft þjónandi prest svo lengi og er eitt afskekktasta prestakall á landinu, skuli vera tekið út úr eða lagt til með þessu frv. að leggja það niður. Það hafa borizt áskoranir frá þessu prestakalli frá rúmlega 100 manns að fella ekki niður þetta prestakall, en það var ekki tekið tillit til þess í Ed. Alþ., og ég vil því freista þess að flytja þessa brtt. í trausti þess, að hv. menntmn. líti á, að hér sé um sérstaklega afskekkt prestakall að ræða. Það fólk, sem þar býr, á sama rétt og aðrir á þjónustu kirkjunnar, og það má segja, að nær ógerlegt sé að þjóna Árnesprestakalli frá Hólmavík yfir vetrarmánuðina, því að vegalengdin er um eða yfir 100 km, og mætti jafna því við að þjóna t.d. Þykkvabæ frá Reykjavík, og væri það þó ólíkt auðveldara. Sömuleiðis má einnig benda á það, að Hólmavíkurprestakall nær til 5 kirkna, sem ætti að vera nóg, hvað þá heldur að bæta við prestakalli í 100 km fjarlægð. Fólkið, sem byggir þetta afskekkta prestakall, óskar almennt eftir því að hafa prest. Reynslan verður að skera úr um það, hvort prestur fæst í þetta prestakall, og ég sé ekki ástæðu til þess, að Alþ. sé að leggja þetta prestakall niður þvert ofan í óskir þessa fólks á sama tíma og nokkur prestaköll hafa verið tekin inn í þetta frv. frá frv., sem flutt var hér, að mig minnir fyrir 3 árum.

Ég treysti því, að hv. menntmn. líti á þessa brtt. mína með velvilja og hv. þdm. sjái, að hér er um sanngirnismál að ræða og að þetta afskekkta prestakall fái að haldast áfram í prestakallaskipun.