16.12.1969
Sameinað þing: 24. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 180 í B-deild Alþingistíðinda. (85)

1. mál, fjárlög 1970

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég vil fyrst við þessa 3. umr. minna á till., sem ég flutti við 2. umr. þessa máls, um aukið framlag til gæzluvistarsjóðs, 5 millj. kr. Ég tók þessa till. aftur við 2. umr., áður en atkvgr. fór fram, í þeirri von að hv. fjvn. mundi eitthvað líta á þetta mál. Sú von hefur brugðizt, engar till. hafa verið gerðar um hækkun fjárveitingar í þessu skyni og kemur þá mín till. að sjálfsögðu til atkv. nú við þessa umr. Ég hef ekki enn gefið upp alla von um það, að einhver leiðrétting fáist á þessum málum, en ég ætla ekki að endurtaka þann rökstuðning, sem ég flutti hér við 2. umr. um þá brýnu nauðsyn, sem á því er að gera gæzluvistarsjóði auðveldara að rækja það mikilvæga hlutverk, sem honum er fengið, að byggja lækningaheimili fyrir drykkjusjúklinga. En það, sem ég ætla að segja hér í aðeins örfáum orðum, er það, að á því þskj., sem búið er að samþ., að komi til afgreiðslu hér, án þess að því hafi verið útbýtt, hef ég ásamt hv. 5. þm. Vestf. flutt örlitla brtt. við fjárl. Þessi till. er ákaflega einföld og ég hygg, að það komi þá ekki að sök, þó að þm. hafi ekki skjalið fyrir framan sig, þegar hún er rædd, en till. er um það, að Þjóðdansafélagi Reykjavíkur verði veittur ofurlítill utanfararstyrkur, 105 þús. kr., eins og félagið hefur farið fram á í bréfi til fjvn. 29. okt. s.l., án þess að hafa fengið áheyrn hjá þeirri hv. n.

Hér í borginni er, eins og ég hygg, að flestum hv. þm. sé kunnugt, starfandi mjög fjölmennur félagsskapur, sem nefnist Þjóðdansafélag Reykjavíkur. Félagið hefur lagt mikið af mörkum bæði í fé og þó einkum í vinnu félagsmanna til að kanna og safna efni, sem ella hlaut að glatast íslenzkri menningu að meira eða minna leyti, eða var lítt þekkt og óaðgengilegt. Þannig má t.d. nefna viðhafnarbúninga þjóðarinnar á liðnum öldum, leiki hennar og dansa. Þjóðdansafélag Reykjavíkur hefur látið gera allmarga slíka búninga eftir vandlega athugun heimilda, þjóðbúninga frá ýmsum tímum og þessir búningar eru bæði mikilsverð þjóðleg erfð og vinsælt skoðunarefni auk þess gildis, sem þeir hafa fyrir félagið sjálft í starfi þess. Félagið hefur einnig fest kaup á fágætum gripum tilheyrandi þessum búningum, þegar þess hefur verið kostur. Tvær konur, Sigríður Valgeirsdóttir og Mínerva Jónsdóttir, hafa lengi unnið að söfnun leikja og dansa með stuðningi frá Þjóðdansafélagi Reykjavíkur. Árangur starfs þeirra er bók, sem kom út 1959, Þjóðdansar I og Gamlir dansar, sem kom út árið 1968. Þessar konur hafa ferðazt um landið í þessu skyni og safnað efni, sem mundi glatast með þeirri kynslóð, sem nú er að hverfa. Sýning þjóðdansa, innlendra og erlendra, er væntanlega sá hluti félagsstarfseminnar samt, sem kunnastur er. Á bak við stærri sýningar félagsins liggur gífurlegt starf margra félagsmanna og þær kosta einnig óhemjumikið fé. Stórfelldur halli varð á sýningum félagsins í Þjóðleikhúsinu vorið 1969, þegar það sýndi þar ýmsa dansa, þrátt fyrir það, að húsið var því sem næst fullskipað áhorfendum í þau þrjú skipti, sem sýningarnar fóru fram og öll vinna félagsmanna var ókeypis. Það sýnir, hversu mikill kostnaður fylgir starfsemi þessa félags. Vonlaust er, að sýningarferðir út um land geti borið sig, þó hafa slíkar ferðir verið nokkrum sinnum farnar og þær hafa notið gífurlegra vinsælda, en félaginu væri mikil nauðsyn á því að hafa meira bolmagn til þessarar þjónustu við landsbyggðina. Þjóðdansafélag Reykjavíkur hefur kostað miklu til kynningar íslenzkra þjóðdansa erlendis við góðan orðstír, og einnig til gagnkvæmrar fyrirgreiðslu við þjóðdansaflokka frá öðrum þjóðum, sem hingað hafa komið, einkum Norðurlöndunum.

Ég skal ekki eyða tíma þingsins til þess að fara frekar yfir starfsemi þessa félags, sem ég hygg, að sé hin merkasta og hafi notið tiltölulega mjög lítils opinbers stuðnings, en það má geta þess, að undanfarin ár hefur Þjóðdansafélag Reykjavíkur haft á fjárl. 7 þús. og síðan 8 þús. kr. árlegan styrk, sem nú hefur verið hækkaður í 15 þús. kr. Einnig hefur Reykjavíkurborg sýnt þessu félagi nokkurn stuðning og ég hygg, að það hafi verið 15 þús. kr. nú s.l. ár. Þegar hafður er í huga ýmis annar styrkur, sem opinberir aðilar veita, án þess að ég ætli að fara að gera neinn samanburð á því hér, þá hygg ég, að þetta félag hafi verið mjög létt á fóðrum, sérstaklega þegar þess er gætt hversu miklu menningarlegu hlutverki félagið hefur gegnt og gegnir, því að það er víst, að í rótleysi nútímans þá er þjóðleg erfð eitt af því, sem við þurfum vel að geyma. Þetta félag hefur unnið merkt starf í því. Nú er ráðgert, að þetta félag taki þátt í þjóðdansamóti Norðurlanda, sem haldið verður í Stokkhólmi á komandi sumri. Slík mót eru haldin þriðja hvert ár. Þátttaka í þessum mótum hefur alltaf verið mjög mikil og það er talið, að um 5.000 manns muni sækja þetta mót og er þá miðað við reynslu s.l. ára. Tvívegis hefur Þjóðdansafélag Reykjavíkur sótt slík mót, 1963 og 1966 og þegar félagið hefur sótt um utanfararstyrki til ríkissjóðs, það var árið 1955 vegna alþjóðaþjóðdansamóts í Osló og 1963 vegna Norðurlandamóts, þá greiddi ríkissjóður sem svaraði 1/4 hluta ferðakostnaðar. Sú beiðni, sem hér liggur fyrir og ég hef leyft mér að gera hér till. um, er einmitt um sams konar fyrirgreiðslu 1/4 hluta ferðakostnaðar þess hóps, sem ráðgert er að senda á þetta mót, 30 manns. Reykjavíkurborg hefur nokkuð komið til móts við félagið og veitt sérstaklega 25 þús. kr. utanfararstyrk af þessu tilefni.

Ég leyfi mér að skírskota til þess, sem ég hef hér sagt um starfsemi félagsins og gildi þess starfs, sem þar er haldið uppi og fara fram á það við hv. alþm., að þeir taki þátt í þessari kynningu þjóðlegrar menningar og erfða, sem félagið ætlar sér að sýna frændum okkar á Norðurlöndum á n.k. sumri, með því að verða við því að taka þátt í ferðakostnaðinum að þessu leyti og ætla 105 þús. kr. styrk af þeim 8.000 millj. kr. fjárl., sem hér á að taka til endanlegrar afgreiðslu í dag eða á morgun.