20.04.1970
Neðri deild: 78. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 742 í B-deild Alþingistíðinda. (852)

11. mál, skipun prestakalla

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að gerast fjölorður um þetta frv., en vil aðeins lýsa því yfir, að ég fylgi því í öllum megindráttum. Hins vegar langar mig til að lýsa hér brtt., sem enn er að vísu aðeins skrifleg. Það er brtt. í tveimur liðum og varðar Eyja- fjarðarprófastsdæmi um það, að ekki verði fellt niður prestssetur í Grímsey. Ég hafði í hyggju að afla mér nánari gagna um þetta, vegna þess að þau eru til í þinginu, og starfsmenn eru að leita þeirra. Ég er þó ekki að segja, að það skipti öllu máli að finna þau.

Um þetta mál er það að segja, að Grímsey er nú sérstakt prestakall, en þar hefur ekki verið sérstakur prestur um alllangt skeið, heldur hefur prestakallinu verið gegnt af öðrum presti Akureyringa. Eins og hv. frsm. meiri hl. n. greindi frá, hefur komið skeyti frá forustumönnum Grímseyinga, frá oddvita Grímseyinga og frá sóknarnefnd í Grímsey, þar sem þess er farið á leit við Alþ., að þetta prestakall verði ekki lagt niður. Í skeytinu vísa þeir til álits Grímseyinga, sem sent var hv. Alþ., þegar málið var hér síðast til meðferðar. Nú hefur mér ekki enn auðnazt að fá þetta skjal í hendur, eins og það var þá orðað, en hins vegar held ég, að það liggi nokkurn veginn ljóst fyrir, hver rökstuðningurinn er. Eins og menn vita, er Grímsey mjög afskekkt byggðarlag, liggur margar sjómílur norður frá Eyjafirði. Þar er hins vegar traust byggðarlag, má segja, og það eyjabyggðarlag á Íslandi, sem einna traustustum fótum stendur, og enginn bilbugur á Grímseyingum að halda við sinni byggð. Afkoma manna er þar góð að jafnaði, enda duglegir menn, sem eyjuna byggja. Ég held því, að það mæli flest með því, jafnvel þó að þetta byggðarlag sé ekki fjölmennt, að það fái að halda þeirri stöðu, hvað þetta snertir, eins og það hefur gert um aldir. Og þess vegna höfum við þrír þm. leyft okkur að flytja brtt. þess efnis, að Grímsey verði áfram í tölu prestakalla. Ég er með þessa till. hér skriflega og vil leggja hana fram hjá hæstv. forseta og biðja hann að leita afbrigða fyrir henni.