20.04.1970
Neðri deild: 78. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 746 í B-deild Alþingistíðinda. (857)

11. mál, skipun prestakalla

Jóhann S. Hlíðar:

Herra forseti. Þar sem mér finnst þetta mál mér allskylt, finnst mér líka til hlýða að segja fáein orð.

Það kom fram í ræðu hv. 6. þm. Reykv., er hann talaði, að frv. gæfi tilefni til að álykta, að um fjölgun prestsembætta yrði að ræða. Nefndi hann máli sínu til stuðnings 7. gr. og 8. gr. o. s. frv. En við sjáum í 6. gr., að þar stendur og er lögð áherzla á, að um „stundarsakir“ sé biskupi heimilt að ráða prestvígðan mann til þess að gegna prestsþjónustu, og ef „þörf krefur“, er biskupi heimilt með samþykki ráðh. að ráða fleiri prestvígða menn, eflaust eftir orðanna hljóðan þá líka um „stundarsakir“.

Ég stend nú hér í dag sem prestvígður maður sakir þess, að aðstæður voru þannig í einu prestakalli hér á landi, að það þurfti þjónustu um „stundarsakir“. Þessar „stundarsakir“, í því tilfelli urðu eitt ár. Að þeim tíma liðnum fannst mönnum það ekki óeðlilegt, öllu heldur nauðsynlegt, að stofnað yrði annað prestsembætti, þar sem um eyju (Vestmannaeyjar) var að ræða, og jafnan erfitt að fá menn til þjónustu um stundarsakir, þó að brýn þörf væri, einkanlega að vetrinum, enda voru samgöngur ekki of góðar þá og eru ekki enn.

En mér finnst öryggisventill vera í þessum greinum, þar sem stendur: „með samþykki ráðherra“. Það er ekki verið að flana að neinu, heldur að þessu ráði horfið, þegar þörf krefur. Þá er farið til ráðh., rætt um nauðsynina, en hann hefur úrslitavaldið. Ég efa það, að biskupinn biðji um menn í embætti bara að gamni sínu og að ástæðulausu. Eflaust getum við allir gengið út frá því sem gefnu, að það geri hann því aðeins, að brýn þörf knýi.

Í 7. gr. segir m.a.: „Þá er biskupi og heimilt með samþykki ráðherra að ráða tvo aðstoðaræskulýðsfulltrúa.“ Hv. þm. hneykslaðist á þessu. En starf kirkjunnar er þannig vaxið, að það er nátengt svo til hverri sál hér á landi, allt frá vöggu til grafar. Og ég get sagt það hér til skýringar, að þegar ég kom í það prestakall, sem ég þjóna nú, var ég mun yngri að árum en ég er í dag, og mér var innan handar að safna 100 – 200 unglingum, aðallega drengjum, þar eð stúlknastarf var í annarra höndum, saman vikulega, og lá við, að salurinn, þar sem komið var saman, yrði allt of lítill. Í dag finn ég, að þetta er mun erfiðara. Hvers vegna? Vegna þess einfaldlega, að bilið á milli 8– 10 og 12 ára drengja og mín er meira og stærra í dag en það var fyrir 16 – 20 árum. Og þess vegna veit ég, og ég hef oft nefnt það við biskup landsins, að það væri fengur að því að fá heimsókn æskulýðsprests, ungs manns, sem kæmi til aðstoðar, með nýjar aðferðir og gæti jafnvel tendrað nýja glóð í þessum gamla kroppi og þannig örvað æskulýðsstarfið. Því að ég efa það ekki, að miklu eru þeir fleiri, sem vita, að kirkjan hefur starfað og vill starfa að heill sérhvers þegns þessa ríkis, ungs sem gamals. Og við vitum það allir, að það, sem kirkjan boðar, er oftast þrautalendingin, jafnvel hjá þeim, sem hafa verið lokaðir fyrir þjónustu og boðskap þessarar stofnunar eða jafnvel verið andvígir henni á einhverju aldursskeiði, að leita til hennar, þegar svartast að syrtir í lífi manna. Og ég segi, að á meðan við höfum slíka stofnun, sem getur veitt það, sem aðrir eru jafnvel vanmegnugir að veita, þá er hennar þörf. Það sagði eitt sinn við mig maður, sem nú er einn af prófessorum háskólans, að kirkjan og kristindómurinn væru aðeins fyrir börn og deyjandi. Ég sagði aðeins: „Hverjir eru ekki deyjandi?“ Svo ég segi, að ef kirkjan er fyrir börn og deyjandi, þá hefur hún sönnu hlutverki að gegna í okkar litla þjóðfélagi.

Sr. Gunnar Gíslason, hv. 2. þm. Norðurl. v., nefndi sjúkrahússprestinn, sem 8. gr. frv. gerir ráð fyrir, og vitnaði í jákvæðar umsagnir merkra lækna því starfi til stuðnings, en hv. 6. þm. Reykv. nefndi gamlan prest, sem kæmi til sjúkra á sjúkrahúsum borgarinnar, og var helzt á hv. þm. að heyra, að sjúklingum, mörgum hverjum, væri lítt gefið um slíka heimsókn. Mér er vel kunnugt um, hver sá gamli maður er. Hann hefur þrátt fyrir aldur mjög ríka löngun til þess að verða að liði. Ég segi ekki, að hann hafi alla þá hæfileika og þekkingu til að bera, sem megi prýða slíkan starfsmann, enda hefur hann ekki neina sérmenntun sem sjúkrahússprestur. Ég get frætt ykkur um það, að þessi gamli prestur hefur notað hverja utanför sína um mörg ár til þess að kynnast sjúkrahússprestsstarfi. En nú í dag er ungur prestur að nema erlendis, sérstaklega með það fyrir augum að þjóna sjúkum, og ég geri ráð fyrir, að með starfi hans verði starfshættir aðrir en nú tíðkast. Ég veit af reynd, að sjúkt fólk metur komu prests sérstaklega mikils. Ég er ekki að segja, að það séu allir sama sinnis. En ég veit um konu, sem fyrir fáum árum, meðan hún var í fullu fjöri, hefði ekki kært sig um neina þjónustu af hendi prestsins. Hún var mjög andvíg öllu slíku starfi. Í dag er hún allsvana og aflvana, en ég þekki fáar sálir, sem þakklátari eru fyrir það litla, sem prestur getur af hendi látið eða miðlað þeirri góðu og göfugu sál.

Um prestinn í Kaupmannahöfn þarf að vísu ekki að fjölyrða. Þar á enn við, „að reyndur veit.“ Ég hef talað við fjölda fólks, sem naut þjónustu þess prests, sem þar starfaði. Fólk úr mínum söfnuði, sem var að heita mátti mállaust á danska tungu, en fór af brýnni þörf til Danmerkur og naut fyrirgreiðslu þessa manns í mörgu tilliti. Ég get nefnt ung hjón, sem fóru nú í marzmánuði. Presturinn var þar ekki. Hvað tók við? Sendiráðið, og var fyrirgreiðslan sem sé engin. Þar var ekkert innra afl, sem bauð fram þjónustu fólki, sem var í mikilli neyð og þörf.

Tillagan um kristnisjóðinn er gagnrýnd af hv. 6. þm. Reykv. Það er svo sem þessi stofnun, kirkjan, megi ekki eiga fjármuni til einna eða annarra þarfa. En tímarnir í dag kalla á brýna og mikla þjónustu. Við finnum þetta mjög glöggt, þar sem skólarnir eru, og á það hefur verið minnzt í dag sakir þeirra atburða, sem skeð hafa í Svíþjóð. En kirkjan hefur sérstöku hlutverki að gegna, sem ég fullyrði, að skólar í venjulegum skilningi geta ekki annazt. Hún hefur hlutverki að gegna, sem ég álít, að sé einstakt, og það segi ég ekki aðeins vegna þess, að ég er prestur, heldur vegna þess, að ég álít, að kirkjan hafi einstæðan boðskap að flytja, sem verði til blessunar, bæði andlega og siðferðislega. Um kristnisjóðinn, sem hér er nefndur, sjáum við í 21. gr. marga liði, sem fjalla um hlutverk þess sjóðs. Það mætti t.d. nefna 6. liðinn, að styrkja námsmenn til undirbúnings undir prestsstarf. Við höfum einmitt í dag heyrt, hvað eigum við að kalla það, neyðarhróp eða eitthvað því líkt, frá íslenzkum námsmönnum í Svíþjóð. Kristnisjóður hefur einnig þetta að takmarki, að styrkja námsmenn í námi. (MK: Þessu atriði hefur verið breytt.) Ég bið afsökunar á því, að það vissi ég ekki. Allt um það sjáum við, að þarna er talað um veitta aðstoð í söfnuðum, sem ég álít, að sé mjög mikilsverð. T.d. er hér á landi aðeins ein eða var aðeins ein safnaðarsystir. Í stærri söfnuðum væri brýn þörf á þjónustu slíkrar konu. Hún er sérmenntuð, kona sú, sem ber þann titil, og hefur hlotið þá vígslu. Erlendis eru þessar konur kallaðar eyru og augu prestsins. Þær fylgjast með að ýmsum leiðum, hvar skórinn kreppir hjá einstaklingum eða fjölskyldum, og benda presti á, að þar sé þörf á aðstoð í einni eða annarri mynd. Svo mætti lengi telja og af því sjá, að kristnisjóðurinn yrði sennilega aldrei sérlega stór, en hann yrði e.t.v. aflögufær að einhverju leyti í vaxandi þjóðfélagi til þess að hlynna að og sinna ýmsum verkefnum, sem löggjafanum að öðru leyti hefur yfirsézt.

Ég vildi að lokum aðeins geta þess, eins og sr. Gunnar nefndi, hv. 2. þm. Norðurl. v., að reikningar eða öll fjárútlát þessa sjóðs og fjárreiður eru yfirfarnar af endurskoðanda, sem er enginn annar en ríkisendurskoðandinn. Það ætti að fela í sér það öryggi, sem hv. 2. þm. Reykv. og Alþ. ætti að nægja til þess að fylgjast með, að þarna sé ekki verið að ausa út fé eitthvað út í bláinn, og vildi ég leggja áherzlu á, að í ljós kæmi, að þarna sé verið að ráðstafa fé öllum til góðs.