20.04.1970
Neðri deild: 78. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 749 í B-deild Alþingistíðinda. (858)

11. mál, skipun prestakalla

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Það verða aðeins örfá orð, sem ég segi hér um þetta frv. Ég vil byrja á því að lýsa yfir því, að ég er frv. samþykkur og mun greiða því atkv., eins og það liggur hér fyrir, en andvígur þeim brtt., sem liggja hér fyrir frá þeim hv. 6. þm. Reykv. og 1. þm. Vestf. Eins og nú standa sakir í þjóðfélagi okkar, þá er mjög erfitt að fá menn til embættisstarfa í dreifbýlið. Það er reynsla á öllum sviðum. Það er erfitt að fá lækna, ljósmæður, jafnvel lögfræðingar vilja ekki verða sýslumenn úti í dreifbýlinu, og það er mjög erfitt að fá presta til þess að sinna þeim prestaköllum, sem við höfum nú í lögum. Svona er þróunin. En hins vegar á fólkið, sem býr úti í dreifbýlinu, alveg sama rétt til allrar þessarar þjónustu og það fólk, sem býr í þéttbýlinu, hér í Reykjavík og öðrum bæjum og þorpum. Það hefur nákvæmlega sama rétt og sömu þörf fyrir þjónustuna og aðrir. Frv., sem hér liggur fyrir, sýnir, að þeir, sem það hafa samið, gera sér það ljóst, hvernig ástandið er. Mér virðist, að kristnisjóðurinn sé tilkominn í þeim tilgangi að reyna með honum að launa farandpresta, presta, sem vildu gera það að starfi sínu, a.m.k. um skeið, að ferðast um og þjóna á þeim stöðum, þar sem ekki hefur tekizt að fá mann til að setjast í prestsembætti. Ég er þess vegna meðmæltur því, að ákvæðið um kristnisjóð verði lögfest og þær heimildir allar, sem í sambandi við það eru í frv., og láta reyna á það, að hvaða gagni þetta getur komið fyrir dreifbýlið. Ég hef alla tíð verið þeirrar skoðunar, að það væri uppbyggilegt fyrir sveitirnar og hin smærri þorp að hafa menntaðan embættismann í sínu byggðarlagi. Ég fellst ekki á annað. Þó að þessir menn séu náttúrlega eins og aðrir menn eitthvað misjafnir, misjafnlega gerðir og misjafnlega duglegir og misjafnlega gáfaðir, er reynslan sú, að yfirleitt hefur það verið héruðunum til uppbyggingar að hafa slíka menn innan sinna takmarka. Og þess vegna vil ég halda fast í þessi embætti, halda eins fast og hægt er i það að hafa presta úti um landið til að þjóna á kirkjunnar vegum. En þeir gera einnig fleira, þeir þjóna á ýmsa aðra lund fólkinu. Þeir eru til leiðbeiningar og styrktar á marga vegu, hver á sínum stað.

Þetta vildi ég nú segja svona almennt um frv. En það var aðallega ein brtt., sem hv. 6. þm. Reykv. flytur hér, sem ég vildi ofurlítið gera að umtalsefni. Það er þessi brtt. hans um það að gera Þingvelli að annexíu frá Mosfelli hér í Mosfellssveit. Ég furða mig á því, að jafngáfaður og glæsilegur maður og þessi hv. þm. er, skuli leggja fram slíka brtt. hér á hinu háa Alþ. Ég hefði talið honum það til miklu meiri sóma, að hann hefði lagt fram brtt. um það að gera veg Þingvallaprestakalls enn meiri og láta prestinn þjóna þar eingöngu kirkjunni og engu öðru. Þó að Þingvallasókn sé ekki stór, þá veit ég um það af kynnum mínum við þann prest, sem þar er nú, að hann hefur þar mörgum prestsverkum að sinna, ekki einungis aðeins fyrir sóknina, sem er minnstur hluti af því, sem hann hefur að starfa, heldur fyrir þjóðina. Þangað sækir fjöldi manna hér úr þéttbýlinu til þess að láta framkvæma þar ýmsar kirkjulegar og kristilegar athafnir fyrir sig. Þetta gerir fólk vegna þeirrar sögulegu hefðar og þeirrar sögulegu helgi, sem hvílir yfir þessum stað. Þetta vil ég meta við hvern mann og vil gera honum það kleift, að hann geti fengið að njóta prestsþjónustu á þeim stöðum, þar sem hann sérstaklega óskar, t.d. eins og í Skálholti og á Þingvöllum, en þangað veit ég, að fjölmargir Reykvíkingar fara til ýmiss konar athafna. Þá finnst mér það nú satt að segja, þó að ég meti mikils Mosfell og sögu Mosfells í Mosfellssveit, þá finnst mér það nú vera að fara aftan að siðunum að gera Þingvelli að annexíu frá þeim stað. Ég verð að segja það eins og það er. Mér finnst hreinlega skömm að slíkri till. Og ég er ákaflega hræddur um, að íbúum austan Hellisheiðar falli slík till. ekki í geð, því að þegar þeir vissu um, að það stóð til að gera þetta, og það var í frv. upphaflega, söfnuðust þeir saman, og það voru 654, sem skrifuðu undir áskorun til Alþ. um að breyta frv. að þessu leyti. 654 undirskriftir þessara manna bárust hingað um þetta efni 19. jan. s.l. Það má vel vera, að hv. 6. þm. Reykv. hafi ekki verið kunnugt um þetta, og auðvitað hefði hann farið sínu fram, ég efa það ekki, þó að hann hefði vitað um þetta. Þetta er vafalaust hans sannfæring, að svona eigi þetta að vera, en erindi mitt hingað í ræðustólinn er að mótmæla þessari till. Ég mun greiða atkv. á móti henni og raunar á móti öllum þeim brtt., sem þessir hv. alþm. bera fram, ekki af því að það sé kannske ekki vit í sumum þeirra. Ég vil hins vegar, að frv. nái fram að ganga eins og það er nú, og það reyni á það, hvernig það tekst, sem til er ætlazt með frv. Ef reynslan leiðir í ljós, að breytinga er þörf, er vitanlega alltaf hægt að gera slíkar breytingar.

Ég skal nú fara að láta ræðu minni lokið um þetta, en ég vildi minna á það í sambandi við kristnisjóðinn, sem ýmsir hafa slæman bifur á eða telja ekki heppilegt form, að þá er hann, eins og ég sagði áðan, ætlaður til þess, að hægt sé að veita þeim svæðum á landinu, þar sem enginn fæst til að vera þjónandi prestur, prestlega eða kirkjulega þjónustu. Til þess er hann ætlaður. Það má vel vera, að það sé ekki æskilegt form. Ég vildi miklu heldur, að það sætu embættismenn í prestaköllunum úti um land, sem nú er verið að leggja niður. En af sögulegri þekkingu veit ég það, að kannske hefur enginn maður reynzt íslenzkri kristni þarfari en Guðmundur biskup hinn góði, sem var eins konar förumaður á sinni tíð meðal þjóðarinnar, og þar með læt ég þessum fáu orðum lokið.