24.04.1970
Neðri deild: 81. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 755 í B-deild Alþingistíðinda. (867)

11. mál, skipun prestakalla

Frsm. meiri hl. (Gunnar Gíslason):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Norðurl. e. hefur flutt hér fjórar brtt. við frv. um skipun prestakalla. Ég get tekið undir það með honum, að eðlileg sé sú leiðrétting við 2. gr. frv., að í stað orðsins Reykjavík komi Reykjavíkurprófastsdæmi, því að Reykjavikurprófastsdæmi nær yfir meira eða stærra svæði en Reykjavík eina. T.d. er Kópavogskaupstaður innan þessara marka.

2. brtt. andmæli ég ekki heldur, en mér finnst ekki þörf á því að gera þá breyt., sem felst í 3. brtt. hv. þm. Mér finnst, að það megi standa svo áfram, að ekki þurfi annað en umsögn sóknarnefndar, sóknarprests og hlutaðeigandi héraðsprófasts, til þess að flytja megi prestssetur á hentugri stað í prestakalli. Mér finnst það t.d. óeðlilegt, ef sóknarnefnd og sóknarprestur væru búin að samþykkja slíkan flutning, en héraðsprófastur væri þar á öndverðri skoðun af einhverjum ástæðum, að hann hefði jafnvel neitunarvald um breytta skipan.

Um 4. brtt. er það að segja, að ég er henni andvígur. Þetta ákvæði frv. er í raun og veru ekki nein breyt. frá því, sem verið hefur. Prestakallasjóður hefur haft þessar tekjur. Það hafa verið hans tekjur, að hann hefur fengið hálf prestslaun af þeim prestaköllum, sem hafa verið prestslaus, og nú er svo ráð fyrir gert, að þessi sjóður verði stofnfé kristnisjóðs, svo að hér er ekki um neina breyt. að ræða. En maður vonar það, að eftir að prestakallaskipunin er komin í það horf, sem frv. gerir ráð fyrir, komi það miklu síður fyrir nú á eftir en verið hefur áður, að prestaköll verði prestslaus.