16.12.1969
Sameinað þing: 24. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í B-deild Alþingistíðinda. (87)

1. mál, fjárlög 1970

Frsm. meiri hl. (Jón Árnason):

Herra forseti. Ég hef veitt því athygli, að á þskj. 154, við 2. umr. málsins, hefur orðið nokkur misprentun við 4. tölulið. Undir liðnum „Ferjubryggjur“ stendur: Kleifar í Kollafirði lokagreiðsla, en átti að standa Kleifar í Kollafirði og orðið lokagreiðsla að falla niður, þar sem hér er ekki um lokagreiðslu að ræða. Ég vænti, að þessi orðalagsbreyting verði leiðrétt við prentun fjárl.

Út af ræðu hv. 11. þm. Reykv. varðandi fjárveitingu til Þjóðdansafélagsins, vill fjvn. leyfa sér að flytja sérstaka skriflega till., sem hún óskar eftir, að forseti leiti afbrigða fyrir, en till. er þannig, að við 4. gr. 1 06 999 komi nýr liður, sem verður þá töluliður 57: Til Þjóðdansafélagsins, vegna utanferðar, 50 þús. kr.