27.10.1969
Neðri deild: 6. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 756 í B-deild Alþingistíðinda. (875)

29. mál, gerðardómur í kjaradeilu atvinnuflugmanna

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta er flutt til staðfestingar á brbl., sem út voru gefin 18. júní s.l. Aðdraganda þessa máls munu hv. þm. þekkja nokkuð og vita, að l. voru sett, þegar stöðvun flugflotans var yfirvofandi. Það er rétt, þótt þetta sé kunnugt mál, að rifja nokkuð upp aðdragandann að því, að I. voru sett.

Kjarasamningar við flugfélögin féllu úr gildi fyrir uppsögn Félags ísl. atvinnuflugmanna 1. febrúar 1969, og kjarasamningar Flugfélags Íslands vegna flugvélstjóra féll úr gildi fyrir uppsögn stéttarfélagsins á sama tíma. Miklar deilur höfðu staðið seinni hluta vetrar við þessar stéttir vegna skattlagningar dagpeningauppbótar flugmanna og flugvélstjóra, sem nú var skattlögð í fyrsta sinn. Deilu þeirri lauk 23. maí s.l. með skaðleysisyfirlýsingu flugfélaganna, dags. þann dag, þar sem segir m.a.:

„Hér með lýsa Loftleiðir hf. og Flugfélag Íslands hf. yfir því, að þau munu gera starfsmenn sína í Félagi ísl. atvinnuflugmanna og Flugvirkjafélagi Íslands skaðlausa af því, að dagpeningauppbót þeirra hefur verið úrskurðuð skattskyld.“

Dagpeningauppbót þessi var fyrir flugstjóra 72 564 kr., en fyrir flugmenn og flugvélstjóra 43 536 kr. Allir þessir menn eru taldir í hæsta skattstiga. Stéttarfélögin lýstu þá yfir því, að innan tíðar mundu þau senda frá sér kröfur um kjarabætur. Kröfur Félags ísl. atvinnuflugmanna bárust hinn 3. júní. Þær voru margþættar, og tók nokkurn tíma að vinna úr þeim og setja þær til samanburðar við eldri samninga. Því var þó lokið, þannig að flugfélögin óskuðu eftir fyrsta viðræðufundi 10. júní, en Félag ísl. atvinnuflugmanna gat ekki sótt fund fyrr en 12. júní. Var þá fyrsti fundurinn haldinn, en hinn 11. s.m. barst verkfallsboðun frá Félagi ísl. atvinnuflugmanna, og skyldi 48 klukkustunda verkfall hefjast kl. 24 á miðnætti aðfaranótt 19. júní.

Deilunni var á fyrsta samningafundinum vísað til sáttasemjara ríkisins til meðferðar, og hélt hann fyrsta fundinn að kvöldi 12. júní s.l. Annar sáttafundur var 14. s.m., sá þriðji 16. júní, og sáttafundur var boðaður kl. 9.30 18. s.m. Á milli funda var látlaust unnið í undirnefndum að lausn deilunnar, en án árangurs. Það, sem sagt hefur verið um sáttaumleitanir og undirnefndastörf á einnig við um flugvélstjóra.

Kröfur frá Flugvirkjafélagi Íslands vegna flugvélstjóra bárust flugfélögunum 6. júní og eru hliðstæðar kröfum Félags ísl. atvinnuflugmanna fyrir flugmenn. Boðun um 48 klst. verkfall flugvélstjóra barst flugfélögunum með bréfi dags. 13. júní, og átti það að hefjast frá og með hádegi laugardaginn 21. júní. Kaupkröfur flugmanna voru mjög háar miðað við gildandi samninga. Auk þess var krafizt vinnutímastyttingar, aukinna trygginga, breytinga á orlofi o.fl. Flugfélögin buðu aðild að maísamkomulaginu og e.t.v. aðeins meira, en allt með hliðsjón af því, sem gerzt hefur á vinnumarkaðinum að undanförnu. Auknar tryggingar voru til umræðu, breytt uppbygging samninganna var rædd, en öll afstaða flugliðsmanna byggðist á, að meginhluta kröfu þeirra um kauphækkun væri sinnt. Samningar við flugvirkja voru undirritaðir 23. maí s.l. og gilda til 1. maí 1970.

Þetta er nú í fáum orðum forsaga málsins, og bar mikið á milli og tveggja sólarhringa verkfall var yfirvofandi. Neyðarkall hafði borizt frá flestum umboðsskrifstofum flugfélaganna utan úr heimi og því lýst yfir, að ef svo færi, þá mundu ferðamenn, sem hefðu pantað flugfar með íslenzku flugfélögunum, hætta við, þar sem ekki væri hægt á íslenzku flugfélögin að treysta. Það var þess vegna mikið í húfi, og þegar sáttaumleitanir fóru algerlega út um þúfur og sýnt var, að ekki gátu náðst samningar, var ekki annað ráð fyrir hendi en setja brbl. til þess að bjarga málinu, til þess að flugfélögin gætu haldið áfram starfsemi sinni og til þess að ferðamannastraumurinn gæti haldið áfram til landsins og til þess að íslenzku flugfélögin héldu trausti sínu út á við. Þetta tókst án nokkurra verulegra truflana, og verður að segja, að l. hafi þar með náð tilgangi sínum.

Það, sem er aðalefni þessara l., er það, að skipaður var gerðardómur þriggja manna, sem skyldi kveða á um lausn deilunnar, og hæstiréttur skyldi skipa gerðardómsmennina. Gerðardómurinn samkv. 2. gr. l. skyldi í meginatriðum miða við lausn deilunnar milli atvinnurekenda og verkalýðsfélaganna 19. maí s.l. Þegar gerðardómurinn tók til starfa, kom í ljós, að hér var mikið verk fyrir hendi, og dróst það því á langinn, að dómurinn væri kveðinn upp. Þetta er allmikil ritsmíð og allflókin, en samkv. því, sem segir á bls. 21, hefur gerðardómurinn farið eftir því, sem kveðið er á samkv. 2. gr. l., þ.e. að úrskurða kaup og kjör flugliða með hliðsjón af því, sem maí-samkomulagið var byggt á. En á meðan málið var í gerðardómnum hafði samizt á milli flugfélaganna og flugliða um dagpeningauppbót. Það var sýnt fram á það og færð rök fyrir því, að dýrtíðin hefði vaxið erlendis og dagpeningar, sem flugliðar áður höfðu, nægðu ekki fyrir uppihaldskostnaði, og þess vegna varð samkomulag um það á milli flugliða og flugfélaganna að hækka dagpeningana í samræmi við vaxandi dýrtíð erlendis. Þá höfðu og Loftleiðir samið við flugliðana um, að félagið tæki á sig allan kostnað af skattlagningu, sem byggðist á fatahlunnindum. Út af fyrir sig var það ekki nema gott, að þetta samkomulag náðist á milli flugliða og flugfélaganna. Það var einnig gert ráð fyrir því í l., að þannig væri frá hnútunum gengið, að flugliðar bæru einkennisbúning. Það fer að öllu leyti betur á því, og út af fyrir sig er ekki nema eðlilegt, að flugfélögin beri kostnaðinn af því, að flugliðum er veittur einkennisbúningur, sem er óneitanlega viðkunnanlegra, að þeir klæðist í, en séu í venjulegum fötum.

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til að svo stöddu að fara fleiri orðum um þetta frv., sem skýrir sig sjálft. Ég tel sjálfsagt, að samgmn., sem fær þetta mál til meðferðar, fái gerðardóminn, þar sem allar upplýsingar er að finna um aðdraganda málsins og úrskurðarorð þeirra kjara, sem dómurinn er byggður á. Ég tel, herra forseti, að rétt sé, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. samgmn.