27.10.1969
Neðri deild: 6. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 758 í B-deild Alþingistíðinda. (876)

29. mál, gerðardómur í kjaradeilu atvinnuflugmanna

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Hæstv. núv. ríkisstj. hefur gefið út fleiri brbl. tiltölulega en nokkur önnur íslenzk ríkisstj., og verulegur hluti af þessum brbl. hefur snúizt um kjaradeilur. Þar hefur verið gripið inn í deilur launamanna og atvinnurekenda af hálfu ríkisvaldsins. Þessi íhlutun hæstv. ríkisstj. hefur öll verið á eina lund. Það er sameiginlegt með öllum þeim brbl., sem um þetta efni fjalla, að þar hefur verið tekinn málstaður atvinnurekenda einhliða gegn launamönnum. Þess eru mörg dæmi, að atvinnurekendur hafi vitað um það fyrirfram, að til stóð að setja slík lög, og þess vegna verið ófáanlegir til eðlilegra samningaviðræðna við viðsemjendur sína. Þessi aðferð hæstv. ríkisstj. mætti vera sérstakt umhugsunarefni fyrir Alþfl., sem er annar helmingur ríkisstj. Það hefðu einhvern tíma þótt ólíkleg tíðindi, að það ætti eftir að verða hlutskipti hans í ríkisstj. að standa að síendurtekinni löggjöf, sem þannig væri til komin.

Slík íhlutun hefur sérstaklega snert starfsmenn flugfélaganna. Þar hefur það gerzt aftur og aftur, að þannig hefur verið hlutazt til um samningamál, og þetta er orðin svo föst regla, að það er farið að reikna með þessu sem alveg sjálfgefnum hlut. Flugmenn og aðrir starfsmenn flugfélaganna hafa lýst yfir því réttilega, að það sé í raun búið að svipta þá samningsrétti, og ástæðan til þess, að dellurnar urðu eins harðar og menn muna eftir í vor, var ekki sízt þessi, að flugmönnum og flugliðum fannst, að verið væri að níðast á samningsrétti þeirra. Eins og hæstv. ráðh. gat um áðan, þegar hann gerði grein fyrir þessum brbl., taldi ríkisstj. sér óhjákvæmilegt að setja þessi l. af tveim ástæðum. Í fyrsta lagi til þess að bjarga rekstri flugfélaganna, eins og það var orðað, og til þess að torvelda ekki ferðamannastraum til Íslands. En einnig var önnur ástæða, sú að það yrði að koma í veg fyrir, að þarna yrðu samningar, sem röskuðu því jafnvægi og þeim vinnufriði, sem komizt hefði á með hinum víðtæku samningum 19. maí þetta ár, eins og það er orðað í grg. með frv. Hæstv. ríkisstj. óttaðist, að ef flugmenn, sem eru býsna kaupháir í samanburði við venjulega launamenn, fengju verulegar kauphækkanir, mundi það hafa þau áhrif, að almennir launamenn ættu erfiðara með að sætta sig við þann nauma hlut, sem þeim hafði verið skammtaður í seinustu samningum.

Þessa forsögu rakti hæstv. ráðh. fyrir okkur. En þegar kom að áframhaldi sögunnar, varð frásögn hans öll óljósari. Eftir að þessi brbl. voru sett, gerðust nefnilega þau tíðindi, að gerðir voru samningar milli flugfélaganna og flugmannanna. Hæstv. ráðh. gat um, að það hefði verið samið um dagpeningauppbót annars vegar í Flugfélaginu og hins vegar um bætur vegna einkennisbúnings af hálfu Loftleiða. En þessir samningar voru raunar mun víðtækari. Það var aðeins höfð sú aðferð, sem menn þekkja, að fela samningsatriðin með því að kalla þau alls konar óskyldum nöfnum. Þarna var í rauninni um að ræða allverulega kauphækkun. Sé hún talin í krónutölu, mundi a.m.k. verkamönnum hér finnast hún býsna mikil. Og þessi samningur var gerður, eftir að brbl. höfðu verið sett, í samráði við hæstv. flugmálarh. Hann vissi um þetta. Þarna var sem sé verið að semja um það að ógilda brbl. hæstv. ríkisstj., og hæstv. ráðh. var eins konar ljósmóðir við þá samninga. Þegar búið var að gera þessa samninga, vissu allir, að gerðardómurinn, sem síðan átti að kveða upp, yrði aðeins nafnið tómt. Þetta er einhver furðulegasta hegðun, sem ég veit dæmi um hjá hæstv. ráðh., og ég hygg, að hún sé býsna hæpin, ef litið er á hana út frá löggjöf um skyldur ráðh. Þess var vandlega gætt að greina ekki opinberlega frá efni þessara samninga. Það hefur ekki verið birt nein skýrsla um það, hvað í samningunum fólst, hve miklar upphæðir var samið um, að flugmenn fengju aukalega á mánuði hverjum, og gerðardómurinn var látinn halda áfram störfum sínum. Síðan kveður hann upp gerðardóm sinn. Ég hygg, að það hafi verið í septembermánuði. En sú dómsuppkvaðning var í rauninni aðeins í því fólgin að semja þetta plagg og undirrita það og kasta því svo raunar í bréfakörfuna, því að áður var búið að semja um annað fyrirkomulag. Í þessum brbl. segir: „Lög þessi öðlast þegar gildi, og skulu kaup- og kjaraákvæði í úrskurði gerðardómsins gilda frá gildistökudegi laganna.“ Engin tilraun hefur verið gerð til þess að framkvæma þetta lagaboð. Ég hygg, að það sé aðeins ein grein í þessum l., sem hefur verið framkvæmd eins og í l. stendur, og það er 4. gr.: „Laun gerðardómsmanna greiðist úr ríkissjóði eftir ákvörðun ráðh.“ Ég hygg, að þetta sé eina atriði l., sem hefur verið framkvæmt.

Nú er ég síður en svo að harma það, að brotin séu niður lög af þessu tagi vegna þess, að ég tel, að samningsréttur sé algert grundvallaratriði og menn verði að kappkosta að halda þannig á málum, að hægt sé að semja á eðlilegan hátt um deilumál, og algerlega sé fráleitt, að atvinnurekendur geti reiknað með því sem sjálfgefnum hlut, að hæstv. ríkisstj. skerist í leikinn og úrskurði einhliða. Engu að síður eru þessi vinnubrögð, sem þarna hafa gerzt, ósæmileg með öllu, og tilgangurinn er fyrst og fremst þessi, að almennir launamenn mega ekki fá að vita, um hvað þarna hefur verið samið í raun og veru. Hæstv. ríkisstj. óttast að vonum, að launamenn eigi erfitt með að una öllu lengur því kaupi, sem hér er greitt almennu verkafólki á Íslandi. Og þegar það gerist, að annar hópur launamanna, sem er með margfalt hærra kaup, fær kaupuppbót með samþykki hæstv. ríkisstj., kaupuppbót, sem er mjög veruleg frá sjónarmiði verkamanna, þá hlýtur það að hafa áhrif á þróun þessara mála. Það liggur í augum uppi. Og ég held, að það væri mjög æskilegt, og raunar held ég, að við eigum kröfu til þess, að hæstv. ráðh. gefi hér skýrslu um það, um hvað var samið við flugliðana, ekki með almennum orðum eins og áðan, heldur með því að tiltaka ákveðnar upphæðir á mánuði. Feluleikur, eins og ástundaður hefur verið, er algerlega ósæmilegur, og hann kemur ekki að gagni heldur vegna þess, að þá koma í staðinn hviksögur, sem ég hygg, að muni sízt verða hæstv. ríkisstj. hagstæðari en sannleikurinn sjálfur.