30.01.1970
Neðri deild: 48. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 765 í B-deild Alþingistíðinda. (882)

29. mál, gerðardómur í kjaradeilu atvinnuflugmanna

Frsm. minni hl. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Svo sem frsm. meiri hl. samgmn. hefur skýrt frá, ræddi n. þetta frv. til l. til staðfestingar á brbl. og varð ekki sammála um málið. N. klofnaði, og skipa minni hl. auk mín Sigurvin Einarsson, hv. 1. þm. Vestf., og Steingrímur Pálsson, hv. 8. landsk. þm.

Það er „prinsip“-mál verkalýðshreyfingarinnar að sætta sig ekki við og samþykkja ekki setningu gerðardómslaga í launadeilum. Alþýðusamtökin hafa alltaf verið andvíg því, að ríkisvaldið grípi inn í þau frjálsu samningamál aðilanna á vinnumarkaðinum, verkalýðshreyfingarinnar annars vegar og samtaka atvinnurekenda hins vegar. Þau mál teljum við að eigi að leysa á þessum löghelgaða og frjálsa samningsgrundvelli. Hér er um það að ræða, að gripið var inn í deilu, sem risið hafði um kjör atvinnuflugmanna og flugvélstjóra á miðju síðasta ári, og hafði verið boðuð 48 klst. vinnustöðvun flugmanna og flugvélstjóra. Inn í þetta mál greip svo hæstv. ríkisstj. með útgáfu einna brbl. af mörgum, sem hún hefur gefið út undir líkum kringumstæðum. Við í minni hl. teljum, að þetta frv. beri að fella. Og hef ég ekki fleira um það að segja. Sú afstaða á ekki að þurfa útskýringar við.